c

Pistlar:

5. janúar 2024 kl. 11:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Afrískt stríð stranda á milli

Framtíðin er ekki björt á Sahel-svæðinu, sunnan Sahara-eyðimerkurinnar í Afríku, en þar er helsta átakasvæði heims í dag. Svæðið einkennist af óburðugum ríkjum undir stjórn herforingja eða hreinum lögleysusvæðum undir stjórn stríðsherra eða ættbálkahöfðingja. Skilin þar á milli eru ekki alltaf glögg og segja má að fullkomið stjórnleysi og óöld ríki víða á svæðinu, jafnvel svo að ómögulegt er að halda úti alþjóðlegu hjálparstarfi eða friðargæslu. Því miður er fátt sem bendir til þess að ástandið breytist sem er mjög skaðlegt fyrir öryggi og stöðugleika í þessum heimshluta. Eftir því sem ástandið varir lengur því meiri áhrif hefur það á aðliggjandi svæði, jafnvel að áhrifin nái upp í púðurtunnuna fyrir botni Miðjarðarhafsins.Skjámynd 2024-01-05 111108

Þessi þurra landræma, þekkt sem Sahel, býr nú við átök tengd jihadistum í löndum eins og Búrkína Fasó, Malí og Níger. Það er til viðbótar við hömlulaus upplausnarástand í norðurhluta Nígeríu þar sem stjórnvöld eru í að því er virðist vonlausri baráttu gegn hryðjuverkamönnum Boko Haram og afleggjum þeirra. Þessi átök ná meðal annars til fjögurra landa umhverfis Tsjadvatn. Í Súdan er borgarastríð, rjúkandi þjóðernisátök í norðurhluta Eþíópíu og í suðri eru hryðjuverkamenn al-Shabab  alls ráðandi í Sómalíu. Af þessu sést að fjöldi landa hefur dregist inn í þessi átök sem hafa hugmyndafræðilegan bakgrunn en enga þekkta forystu og mjög óljósa framtíðarsýn. Bæði Boko Haram og al-Shabad teljast til súnníta sem og flestar íslamskar vígasveitir á þessu svæði.

Samkvæmt yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna stendur Sahel-svæðið frammi fyrir djúpstæðum mannúðaráskorunum með 37,8 milljónir manna í brýnni þörf fyrir lífsbjörgunaraðstoð og vernd, það er 3 milljónum manna fleiri en í fyrra.

15 milljónir manna á flótta

Eyðileggingin og mannfallið á svæðinu er átakanlegt. Í Malí, Níger og Búrkína Fasó, þekkt sem mið Sahel, voru meira en 10.000 manns drepnir í vopnuðum átökum árið 2022. Í september síðastliðnum hafði þessum fjölda þegar verið náð. Búrkina Fasó var löngum eitt friðsamasta land í þessum heimshluta og átökin þar hafa komið sér illa við evrópska verndara landsins.

Í norðurhluta Nígeríu voru meira en 7.000 manns drepnir árið 2022 en hér fyrir stuttu var fjallað um árásir á kristna menn af hálfu Boko Haram sem hafa haft miklar hörmungar í för með sér. Í fimm mánaða átökum í Súdan var meira en 9.000 manns slátrað. Varfærnisleg ágiskun um fjölda fólks sem hefur verið þvingað frá heimilum sínum á svæðinu, að Sómalíu undanskildu, er um 15 milljónir manna. Um allt svæðið er því fólk sem hefur orðið að flýja heimili sín og er á vergangi þar sem alþjóðlegt hjálparstarf á erfitt með að starfa á þessu svæði.Sahel-region

Átökin í Mið-Sahel munu líklega fara enn harðnandi að sögn fréttaskýrenda. Það er í það minnsta ekkert sem segir að dragi úr vopnuðum átökum á nýhöfnu ári. Átökin í Mið-Sahel, þar sem jihadistar tengdir al-Qaeda og Ríki íslams ráðast nánast daglega á óbreytta borgara og berjast gegn stjórnarhernum eða hverjum öðrum sem á vegi þeirra verður, munu að öllum líkindum verða enn ofbeldisfyllri í framtíðinni að því er kemur fram í tímaritinu Economist. Jihadistar líta á valdaránið í Níger fyrir skömmu sem tækifæri til að hasla sér völl enda herinn þar annars hugar um þessar mundir. Síðar geta viðbrögð hersins orðið enn harðari en engin leið er að sjá að viðræður verði á milli þessara aðila. Það litla veraldlega vald sem þarna er nálgast jihadistar með aðferð sviðinnar jarðar.

Í Búrkína Fasó hafa stjórnvöld reynt að bregðast við með herútkalli sem felur í sér að vopna tugþúsundir manna og tefla þeim fram sem borgaralegum vígasveitum. Nú þegar hefur skapast þar fullkomin ringulreið sem hefur ýtt undir fjöldamorð á þjóðarbrotum. Í Malí var gert ráð fyrir að ríflega 10.000 friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna yrðu farnir fyrir árslok 2023. Þeir fara eftir að hafa verið kennt um að hafa mistekist að stöðva jihadista. Friðarsamkomulag sem þeir höfðu í raun hjálpað til við að viðhalda var milli stjórnvalda og aðskilnaðarsinna af Túaregfólki en það býr í mörgum löndum Mið- og Vestur-Afríku. Á sama tíma eru átök við jihadista að þróast í opið stríð.

Í Súdan er næstum öruggt að frekari átök séu framundan á milli súdanska hersins og hraðaðstoðarsveitanna (Rapid support forces). Það eru sveitir sem eru fyrst og fremst samsettar af Janjaweed vígasveitum sem börðust fyrir hönd súdönsku ríkisstjórnarinnar í stríðinu í Darfur og báru ábyrgð á grimmdarverkum gegn óbreyttum borgurum. Aðgerðir sveitanna í Darfur flokkast undir glæpi gegn mannkyni að mati Human Rights Watch. Sveitirnar hafa ítök í Jemen og eru að hluta skipaðar málaliðum sem voru í þjónustu Gaddafi.brunnur

Illskiljanlegar átakalínur

Eins og sést af framansögðu eru þessar átakalínur nánast óskiljanlegar og breytast hratt. Stundum dugar fyrir einhvern hóp að hafa sterkan leiðtoga eða stríðsherra en þessi heimur gerir lítið til að styðja við möguleg friðarsamkomulög. Það er einföldun að tengja þetta allt við átök jihadista eða íslamska trúarhópa en ekki verður framhjá þeim horft sem áhrifaþætti.

Þrátt fyrir að þessi átök séu flest staðbundin og þá verða lönd eins og Níger fyrir barðinu á fleiri en einum. Fyrir vikið dreifast flóttamenn í allar áttir og sum þessara átaka eru að breiðast út. Í Eþíópíu lauk átökum milli Tigray og ríkisstjórnarinnar formlega, en átök við aðra þjóðernishópa, eins og Amhara og Oromo, virðast vera í uppsiglingu.

Þá eru teikn á lofti um aukna útbreiðslu en ríki eins og Benín og Tógó verða nú þegar fyrir árásum jihadistar sem fara yfir landamærin frá Búrkína Fasó. Allt þetta ofbeldi hefur haldist í hendur við pólitískan glundroða, síðast í gegnum valdarán í Búrkína Fasó, Tsjad, Malí, Níger og Súdan. Ef ofbeldið breiðist út árið 2024 er búist við að pólitísk glundroði geri það líka. Almenningur í þessum löndum þjáist stöðugt vegna óaldarinnar.

Sumir vestrænir fræðimenn og aðrir álitsgjafar segja gjarnan að það sé sterk tilhneiging í vestrænum fjölmiðlum að varpa upp mynd af íslam sem ofstækisfullri og ofbeldishneigðri trú. Það er eðlilegt að horfa til slíkrar gagnrýni en þegar ástandið á þessu svæðið er skoðað, þar sem íslamskir trúarhópar virðast ráðandi afl í bland við staðbundna stríðsherra, þá blasir við að íslam eða menn sem klæða sig nafni trúarinnar eigi erfitt með að stuðla að stöðugleika. Vestræn samfélög hafa ekki úr háum söðli að falla en sum hver gata þó boðið upp á ákveðið festi sem byggist á réttarríki, mannréttindum og lýðræði sem birtist í virðingu fyrir réttindum einstaklinga og eignarrétti þeirra. Allt þetta virðist fullkomlega vanta í þessum löndum sem hér um ræðir.