c

Pistlar:

12. janúar 2024 kl. 20:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hver er ábyrgð Hamas?

Sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari hefur lengi verið einn harðasti gagnrýnandi stjórnarfars Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Allt frá því er árás Hamas átti sér stað 7. október síðastliðinn hefur hann hins vegar gagnrýnt fræðimenn og friðarsinna og einnig bandarískra og evrópskra stjórnmálamenn fyrir að vera skilningslausir gagnvart grimmdarverkum Hamas og sakað þá um „mikið siðferðislegt ónæmi“ og að svíkja vinstri stjórnmál. Því væri það svo að friðarsinnar í Ísrael, sem hefðu meðal annars barist gegn Benjamin Netanyahu, upplifðu sig svikna af alþjóðasamfélaginu sem neitaði að skilja þau öfl sem innrás Hamas hefði leyst úr læðingi. Harari eins og margir aðrir í Ísrael á um sárt að binda því hann átti ættingja sem urðu fyrir árásinni.hamas strið

Það er eðlilegt að fólki um allan heim ofbjóði myndir af særðum og látnum börnum vegna átakanna á Gaza og í nafni mannúða þarf þessum átökum að linna sem fyrst. Nú síðast fylgjumst við með réttarhöldum fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag þar tekist er á um hvort stríðsátökin yrðu stöðvuð. En hverjir ráða mestu um það, jú það eru forystumenn Hamas samtakanna. Er hægt að fjalla um þessi mál án þess að láta forystumenn Hamas horfast í augu við hverju þeir hrintu af stað og reyna að átta sig á því hvað fyrir þeim vakti? Er á einhvern hátt hægt að horfa framhjá því að þeir leiddu þjóð sína í glötun með aðgerðum sínum 7. október? Í Úkraínu ber Pútín og Rússland ábyrgð á stríðinu sem þeir hófu en er því öðru vísi farið fyrir botni Miðjarðarhafsins? Staðreyndin er sú að fáir kunna skil á forystumönnum Hamas eða þeim sem tóku ákvörðun um að hefja þetta stríð með innrás og morðum á óbreyttum borgurum í Ísrael. Að ekki sé talað um þann hrylling sem vígamenn Hamas leiddu yfir fórnarlömb sín með nauðgunum, pyntingum og aftökum.

Vestrænar þjóðir eru nú minntar á að það þarf að halda vöku sinni um það hverjir koma frá átakasvæðunum. Sjö Hamasliðar hafa verið handteknir í Danmörku, grunaðir um að vera að leggja á ráðin um hryðjuverk. Nú síðast í dag var liðsmaður Rík­is Íslams (ISIS) handtekin á Akureyri og fluttur úr landi í lögreglufylgd.

Ekkert lýðræði á Gaza

Það er eðlilegt að velta því fyrir sér hverskonar stjórnarfar er á Gaza undir forystu Hamas eða skiptir það kannski engu máli? Stundum má undrast hve fámálir íslenskir fréttaskýrendur eru um þann þátt málsins, nú þegar stjórn á svæðinu er undir smásjá og daglegri skoðun. Stjórnarfar á Gaza verður seint talið lýðræðislegt, kosningar eru ekki haldnar og mannréttindi þegnanna hafa verið þverbrotin og minnihlutahópar eins og samkynhneigðir hafa sætt ofsóknum. Svo mjög að samkynhneigt fólk á Gaza á það eitt svar, að flýja til Ísrael en Tel Avív er sögð „glaðasta“ borg Miðausturlanda vegna þess að samkynhneigt fólk hefur hópast þangað. Palestínumenn fara þangað vegna þess að samkynhneigðum er ekki vært undir stjórn Hamas.hamas str2

Eins og áður sagði er erfitt að finna lýðræðislegu starfshætti í þeim erjum sem hafa verið á milli skæruliðasveita Fatah og hryðjuverkasveita Hamas en þessar fylkingar hafa barist um völdin á palestínska þinginu (Palestinian Legislative Council (PLC)) um áraraðir. Báðir þessir aðilar hafa deilt um stjórn á Gaza síðan Ísraelsmenn fóru þaðan árið 2005. Áður höfðu ekki verið haldnar kosningar þar síðan 1996 vegna deilna milli þessara tveggja fylkinga Palestínumanna. Í kosningunum 2006 fékk Hamas 44% atkvæða og Fatah 41%. Síðan hefur ekki verið kosið en Mahmoud Abbas og Fatah fylkingin ráðið á Vesturbakkanum og hatast út í Hamas. Þegar Hamas vann kosninguna 2006 vissu menn ekki hvort hægt var að taka þetta alvarlega enda Hamas skilgreind sem hryðjuverkasamtök af flestum. Mestan ugg setti að nágrönum þeirra Egyptum enda Hamas talið skilgetið afkvæmi Bræðralags múslima sem hefur verið bannað í Egyptalandi í kjöfar fjölda hryðjuverka. Meðlimir bræðralagsins og stuðningsmenn þess, fjármögnuðu og stofnuðu meðal annars Al Kaída og hryðjuverkasamtökin Hamas.

Hirðulausir um borgara Gaza

Það er erfitt að sjá nokkuð lýðræðislegt í uppbyggingu Hamas, hvorki þegar kemur á vali á forystumönnum né í vinnubrögðum og aðgerðin 7. október var augljós stríðsyfirlýsing án þess að Hamas gerði minnstu tilraun til að huga að öryggi eigin þegna. Þrátt fyrir gríðarlegan fjárstuðning, bæði frá Vesturlöndum og olíuríkum Arabalöndum, inn á Gaza-svæðið hafa leiðtogar Hamas kosið að verja allri sinni orku og kröftum í að vígbúast eins og sést af því að jarðgangnakerfi þeirra jafnast á við jarðlestakerfi New York en ekki eitt einasta skýli var byggt fyrir óbreytta borgara. Hamas hugsa bara um vopnaða baráttu og eiga þar vini í Hezbollah og Hútu hreyfingunum sem er stýrt af stríðsherrum sem kúga allt sitt umhverfi og skeyta engu um velferð þegna sinna. Bak við þetta lúrir íslamska klerkaveldið í Íran sem vill öllu spilla á þessu svæði.gislar

Fyrir Alþjóðadómstólnum er þess nú krafist að hernaðaraðgerðum á Gaza verði hætt. Það er hins vegar ekki víst að allir átti sig á ferlinu þar. Alþjóðadómstólinn (ICJ) gæti úrskurðað um beiðni Suður-Afríku um að Ísraelar stöðvuðu hernaðaraðgerðir sínar tiltölulega fljótlega, en endanlegur úrskurður um hvort Ísraelar séu að fremja þjóðarmorð gæti tekið mörg ár.

Til að komast að þeirri niðurstöðu að þarna séu framin þjóðarmorð þarf að meta rétt Ísraels til að bregðast við eftir hroðalega og fyrirvaralausa árás 7. október. Þar var ráðist að óbreyttum borgurum á heimili sínum í Ísrael og þeir myrtir hvar sem til þeirra náðist. Það er ekki hægt að hafa eftir lýsingar á því sem gerðist en dómstóllinn verður að horfa til þess líka.

Brot Hamas á alþjóðlegum lögum

Hamasliðar rændu um 240 óbreyttum borgurum og hafa notað þá sem mannlega skyldi á Gaza síðan og hafa neitað að skila þeim þó að Ísraelsmenn segi að stöðvun átaka velti á því. Það þarf ekki að taka fram að slík mannrán óbreyttra borgara eru gegn öllum alþjóðlegum lögum. Þegar lifandi eða látnir gíslar voru fluttir til Gaza dönsuðu ungir vígamenn og sýndu þannig ánægju sína. Það er vitað að Hamas hefur innrætingu meðal barna á Gaza og reynir þannig að búa til vígamenn framtíðarinnar. Allar íslamskar vígasveitir notast við barnahermenn.krakki

Hvernig sjálfar hernaðaraðgerðir Ísraela verða metnar er erfitt að segja. Þeir segjast ávallt gefa út viðvaranir um hvar þeir hyggist sprengja, bæði rafrænt og með dreifingu flugrita. Þá er því haldið fram að vígamenn Hamas hindri fólk í að flýja, allt þetta þarf að vega og meta.

Það eru sannarlega hernaðarátök á Gaza enda hafa Ísraelsmenn misst fjölda hermanna. Fall vígamanna Hamas kemur ekki fram í neinum tölum heldur látið sem það séu allt almennir borgarar. Íbúar Gaza eru í herkví Hamas, sem eru hryðjuverkasamtök sem starfa án nokkur lýðræðislegs umboðs. Dómstólinn hlýtur að horfa til þess.