c

Pistlar:

15. janúar 2024 kl. 15:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Áhugaverðir tímar og endalok sögunnar

Megir þú lifa áhugaverða tíma, segir kínverskt máltæki. Skáldið Andri Snær Magnason telur það vera bölbæn en það er tæpast það sem máltækinu var ætlað að fanga. Sjálfsagt vísaði það til persónulegrar reynslu, miklu frekar en óskar um að heimurinn lendi á vonarvöl eða hreinlega endastöð eins og margir loftslagssinnar virðast óttast. En heimurinn getur breyst hratt og þá skiptir engu hvort þú lítur til þess sem mennirnir ráða eða því sem er þeim óviðráðanlegt eins og birtist á Reykjanesi núna þar sem landsmenn heyja nú erfiða baráttu við öfl úr iðrum jarðar. Frá því að gaus í Heimaey árið 1973 og til dagsins í dag hefur þekkingu á jarðvísindum og tæknilegri getu fleygt fram en eigi að síður verður hið manngerða umhverfi heldur veikburða þegar jarðskjálftar og jarðeldar ríkja.

Endalok sögunnar

En sá veruleiki sem mennirnir ráða og þá sérstaklega heimur alþjóðastjórnmála getur einnig tekið hröðum breytingum. Kenningasmiðir og fræðimenn reyna stundum að fanga þessar breytingar. Bandaríski stjórnmálaheimspekingurinn Francis Fukuyama varð víðfrægur er hann boðaði „endalok sögunnar“ í kjölfar hruns kommúnismans, með sigurgöngu hins frjálslynda lýðræðis og markaðshyggjunnar. Þessu varpaði hann fram í bók sinni „Endalok sögunnar og hinn hinsti maður“ (The End of History and the Last Man), sem út kom árið 1992. Bókin vakti mikla athygli á sínum tíma og vikið hefur verið að þessum spádómum hér áður í pistlum. Fukuyama sá fyrir sér einsleitari heim með hættum þar sem bókstafstrú í anda íslamisma, sem hugmyndafræði að þjóðfélagsgerð, myndi verða meira áberandi. Hann taldi íslamska bókstafstrú ekki sérlega tilkomumikla hreyfingu í viðtali við Morgunblaðið árið 2004. Hann sagði einnig að það væri varasamt að hluti mannkyns, þ.e. múslimar, skyldu aðhyllast afturhaldssama útleggingu þeirra trúarbragða.islam

Átök menningaheima

Annar fræðimaður sem hefur lagt mikið til málanna er bandaríski stjórnmálafræðingurinn Samuel P. Huntington (1927-2008) en hann gerði tilraun til að varpa nýju ljósi á skipan mála innan alþjóðakerfisins. Árið 1993 birtist grein hans, The Clash of Civilizations?, í hinu virta bandaríska tímariti Foreign Affairs. Hann ákvað að þróa hugmynd sína enn frekar og afrakstur þess varð bók sem kom út árið 1996 og fékk nafnið The Clash of Civilizations and the Remaking of World Order. Sú bók fékk einnig mikla athygli en kenning Huntington fjallar í megindráttum um eðli átaka í heiminum eftir lok kalda stríðsins. Í stað þess að snúast fyrst og fremst um hugmyndafræði eða efnahag taldi hann að koma myndi til átaka af menningarlegum toga. Huntington taldi miklar líkur á að íslamski menningarheimurinn yrði annar aðilinn af tveimur í staðbundnum menningarheimaátökum. Að sumu leyti tóna kenningar Huntingtons ágætlega við það hvernig vestræn nútímavæðing hefur stuðlað að upprisu menningarheimanna. Kenningar hans gætu einnig hæglega átt við þá þróun sem hefur átt sér stað í Mið-Austurlöndum þar sem íslömsk hryðjuverkasamtök hafa verið í sífelldum vexti hin síðari ár eins og fjallað hefur verið um í pistlum en lögleysuríki hafa víða tekið yfir sem stjórnað er af stríðsherrum jihadistar.

Einn fræðimann í viðbót mætti nefna en það er sagnfræðingurinn Bernard Lewis (1916-2018) sem var doktor í íslömskum fræðum og skrifaði fjölmargar bækur um íslam og sögu þess. Hann starfaði fyrir breska herinn í seinni heimsstyrjöldinni og var einn af ráðgjöfum George W. Bush. Lewis er mjög gagnrýnin á íslam og taldi erfiðleika í stjórnarfari Arabalandanna að mestu hugmyndafræði íslam að kenna. Hann hafði miklar efasemdir um getu Vesturlanda til að berjast gegn áhrifum íslamista sem hafa skotið djúpum rótum í vestrænni menningu. Þar horfir hann til lýðfræði og mikils og aukins innflutnings múslima til Vesturlanda. Í Bandaríkjunum eru þeir aðeins um 1% íbúa en í sumum löndum Vestur-Evrópu eru þeir komnir yfir 10% og spár gera ráð fyrir að hlutfall þeirra aukist hratt eins og bent hefur verið á hér í pistli. Lewis var svartsýn og lét hafa eftir sér í viðtali að Evrópa væri þegar glötuð og Ameríka væri einnig í hættu.koran2

Er lestin farin?

Það er ástæða til að geta eins fræðimanns í viðbót en það er palestínsk-ameríski fræðimaðurinn Edward Wadie Said (1935-2003). Í bókinni Orientalism rannsakar hann hið sögulega samspil vesturs og austurs. Fyrsta útgáfa bókarinnar var prentuð árið 1978 og hefur ekkert annað verk eftir Said hlotið jafn mikla athygli og haft jafn mikil áhrif á fræðaheiminn. Framlag Said fellst í orðræðugreiningu á textum og myndmáli Vesturlandabúa um Austurlönd og Austurlandabúa. Í bók sinni reynir hann að sýna fram á tengsl nútíma Austurlandafræða við heimsvaldastefnu og viðvarandi hugmynda um framandleika hins austræna. Kenningar Said eru mjög í anda heimspekingsins Michel Foucault (1926-1984) sem gagnrýndi eldri kenningar á sögulegum rótum nútímans. Slík endurskoðun eða endurmat er ávallt nauðsynlegt en kannski óþarfi að taka þeim sem endanlegum sannleika eins og sumir þeir sem eru áhugasamir um kenningar Said hafa gert. Það þarf ekki að taka fram að þeir Lewis og Said voru á öndverðum meiði um þróun mála og deildu opinskátt.syr2

Huntington sá fyrir sér að í uppsiglingu væri uppgjör menningarheima, sem gæti allt eins endað með heimsstyrjöld. Þar horfði hann sérstaklega á menningarheim íslams eins og áður sagði. Hvorki Fukuyama né Huntington sáu þó fyrir árásina á Tvíburaturnana þann 11. september árið 2001 og því síður þann vendipunkt sem hún varð. Þáverandi forseti Bandaríkjanna George W. Bush lýsti yfir „stríði gegn hryðjuverkum“ nokkrum dögum síðar og múslimar fundu fyrir auknum fordómum í sinn garð um allan heim. Nú þegar þeim hefur fjölgað víða á Vesturlöndum er erfitt að horfa framhjá áhrifum íslamista og þó að einstaka stjórnmálamenn, eins og Emmanúel Macron, hafi beinlínis barist gegn því að átakalínur Mið-Austurlanda séu flutt heim til Frakklands, oft með heldur litlum árangri. Fyrir rúmum þremur árum sagði hann í ræðu: „Íslam eru trúarbrögð sem eiga við vanda að stríða um allan heim.“ Og bætti svo við að það væri „nauðsynlegt að frelsa íslam undan erlendum áhrifum.“

Hugsanlega er ein leið að gera einfaldlega eins og franski rithöfundurinn Michel Hou­ell­e­becq sem hreinlega snýr þessari þróun upp í grín í dystópískum lýsingum sínum á íslömsku Frakklandi í bók sinni Undirgefni sem komið hefur út á íslensku. Að sumu leyti virðist Hou­ell­e­becq á sömu skoðun og Lewis um að lestin sé farin þó hann myndi sjálfsagt aldrei játa það.