c

Pistlar:

23. janúar 2024 kl. 14:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Blandar Hizbollah sér í átökin?

Hizbollah vígasamtökin eru ráðandi afl í Líbanon en undanfarna mánuði hafa stríðsmenn samtakanna oft og iðulega skotið á ísraelska herinn handan landamæranna. Margir óttast að samtökin láti verða af því að blanda sér af fullum krafti inn í átök Ísraels og Hamas en þessar skærur hafa verið að aukast undanfarið. Það væri mjög alvarlegt fyrir þróun mála í þessum heimshluta ef Hizbollah beitti sér að fullu gegn Ísraelsmönnum en hernaðarmáttur þeirra er talsvert meiri en Hamas. Samtökin eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök af vestrænum ríkjum, Ísrael, ríkjunum við Persaflóa og Arababandalaginu.hisbolla

Hizbollah samanstanda bæði af stjórnmálaarmi og vopnuðum sveitum. Samtökin voru stofnuð árið 1982 af sjíta klerkum með það að markmiði að berjast gegn hersetu Ísraela í Líbanon, sem þá höfðu nýverið ráðist inn í landið. Borgarastyrjöldinni í Líbanon var öðrum þræði trúarbragðastyrjöld og í henni mótaðist stefnuskrá Hizbollah og dregur dám af því. Styrjöldin í Líbanon stóð frá 1975 til 1990 og er talið að um 150.000 manns hafi verið drepnir í átökunum og um ein milljón manna flúði landið. Líbanon hafði lengi verið fremur opið samfélag og Beirút kölluð París Miðausturlanda. Eftir 1948 fóru Palestínumenn að streyma til landsins sem jók smám saman á óstöðugleika í landinu sem endaði með borgarastyrjöld. Árið 1975 hófust átök milli kristinna hersveita og PLO (Palestine Liberation Organization) og borgarastyrjöld skall á sem olli miklum skaða.

Styrjöldin lagði grunn að Hizbollah og smám saman mótaðist stefnuskrá samtakanna og í útgáfu hennar frá 1985 voru sett þau markmið að tryggja algeran brottrekstur Bandaríkjamanna, Frakka og bandamanna þeirra frá Líbanon og binda þannig enda á nýlendustefnu í landinu. Það tónar mjög vel við áherslu klerkastjórnarinnar í Íran sem fóðrar stuðningsmenn sína á þeim viðhorfum að átökin milli súnníta og sjíta sé öðrum þræði átök við nýlendustefnu fortíðar og nútíðar.hesbollaher

Mikil ógn af Hizbollah

Hersetu Ísraela lauk árið 2000 sem var fjöður í hatt Hizbollah sem hélt vopnaðri baráttu sinni áfram, meðal annar undir því yfirskini að frelsa Shebaa landsvæðið, í suðausturhluta landsins, úr höndum Ísraela. Hizbollah hefur tekið þátt í kosningum í Líbanon síðan 1992 og hafa átt þokkalegu gengi að fagna. Samtökin hafa átt hluta að stjórnarsamstarfi og nýttu þá tækifærið til að koma í gegn lögum sem tryggðu og staðfestu tilveru þeirra sem vopnaðra samtaka innan Líbanon en þó með sjálfstæða yfirstjórn. Það þarf ekki að hafa mörg orð um hve undarlegt slíkt fyrirkomulag er og eyðileggjandi fyrir lýðræðisþróun í Líbanon.

Árið 2006 braust út allsherjar stríð milli Hizbollah og Ísraels, en það hófst þegar vígasveitir Hizbollah gerðu árás yfir landamæri og drápu fjölda fólks í Ísrael. Ísraelskir hermenn réðust inn í suðurhluta Líbanon í framhaldi þess til að reyna að útrýma ógninni frá Hizbollah. Það tókst ekki og samtökin hafa síðan fjölgað bardagamönnum sínum og fengið ný og betri vopn. Þessu má líkja við ástandið í Jemen núna þar sem Hútar nýta sér óvild gegn Ísrael og vesturlöndum til að draga að nýja liðsmenn.

Það er engum blöðum um það að fletta að Ísrael stendur mikil ógn af Hizbollah sem hefur yfir að ráða einhverju þungvopnaðasta herlið í heimi sem ekki lýtur ríkisvaldi. Herlið Hizbollah er að mestu fjármagnað og vopnað af Íran.leiðtogi

Mjög vel vopnaðir

Hassan Nasrallah, leiðtogi Hizbollah, hefur lofað árásir Hamas á Ísrael í allt síðan fyrstu ræðu sinni um stríðið. Hann hefur haldið því fram að samtökin hafi 100.000 bardagamenn reiðubúna en að sögn BBC telja sérfræðingar að þessi tala sé nær því að vera á 20.000 til 50.000 manns. Margir eru vel þjálfaðir og hertir í bardögum og börðust í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi þar sem Hizbollah studdi hernað Bashars al-Assads Sýrlandsforseta. Áður höfðu „sjálfboðaliðar“ á vegum samtakanna barist í Bosníustríðinu.

Áætlað er að Hizbollah hafi um 130.000 eldflaugar og rakettur, að sögn hugveitunnar Center for Strategic and International Studies. Stærstur hluti vopnabúrsins samanstendur af litlum stórskotaliðseldflaugum sem skotið er af landi á skotmörk ofanjarðar. Þessar flaugar eru án stýribúnaðar og því ónákvæmar og geta því valdið miklum skaða meðal óbreyttra borgara. Einnig hafa Hizbollah yfir að ráða loftvarna- og varnarflaugum, auk stýriflauga sem unnt er að skjóta langt inni í Ísrael. Allt er þetta miklu flóknari búnaður en það sem Hamas á Gaza-svæðinu hefur yfir að ráða.

Allt frá árás Hamas 7. október hefur Hizbollah ráðist á herstöðvar í norðurhluta Ísraels. Samtökin hafa skotið eldflaugum á ísraelskar herstöðvar, skotið skriðdrekavarnarflaugum að brynvörðum farartækjum og ráðist á hernaðarleg skotmörk með sprengiflugvélum. Ísraelska varnarliðið (IDF) hefur hefnt sín með loftárásum og fallbyssum á jörðu niðri á stöðvar Hizbollah í Líbanon.

Í þessum skærum hafa ísraelskir hermenn og Hizbollah-vígamenn fallið og Ísraelar hafa flutt þúsundir óbreyttra borgara frá svæðinu. Talsmenn IDF hafa ítrekað að hersveitir þeirra væru með mikið viðbúnaðarstig meðfram norðurlandamærum Ísraels. Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, sagði strax í nóvember að viðbrögð Ísraela yrðu af „ólýsanlegri“ stærðargráðu ef Hizbollah opnaði aðra víglínu í átökunum.said nasral

Persónulegur fulltrúi æðstaklerksins

Hassan Nasrallah er sjítaklerkur og hefur stýrt Hezbollah síðan 1992 þegar Ísraelsmenn drápu forvera hans, Abbas Musawi. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í að breyta samtökunum í pólitískt afl um leið og hann hefur styrkt hervæðingu samtakanna verulega eins og áður sagði. Hassan Nasrallah hefur náin tengsl við Íran og æðsta leiðtoga þeirra, Ayatollah Ali Khamenei. Þessi sambönd við Íran ná allt aftur til ársins 1981 þegar fyrsti æðstiklerkur Írans, Ayatollah Ruhollah Khomeini, skipaði hann persónulegan fulltrúa sinn í Líbanon. Khomeini sjálfur mun hafa komið upp með nafni Hizbollah, eða flokkur Guðs.

Nasrallah hefur ekki komið fram opinberlega í mörg ár, að sögn af ótta við að vera myrtur af ísraelska hernum eins og forveri hans. Völd hans innan Hizbollah eru mikil og hann og flytur sjónvarpsræður í hverri viku. Hann trúir því að lausnir á öllum vandamálum samfélagsins komi í gegnum íslam.