c

Pistlar:

27. janúar 2024 kl. 11:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Siðblindur hakkari - sagan sem ekki mátti segja

Stöð 2 hefur um skeið haft til sýningar heimildarþættina A Dangerus Boy sem fjallar um Sigurð Þórðarson sem þekktastur er undir nafninu Siggi hakkari. Viðbrögð við þáttunum, sem eru fjórir talsins, hafa vakið nokkra athygli, ekki síst vegna augljósrar tilraunar nokkurra íslenskra fjölmiðlamanna til þess að draga úr trúverðugleika þáttanna og sumir gagnrýndu þá á meðan þeir voru í vinnslu. Um trúverðugleika Sigga hakkara þarf ekki að ræða, hann er vitaskuld sáralítill. Það breytir því ekki að persóna hans tengist mörgum þekktum fréttamálum. Ekki einungis hér innanlands, heldur einnig vegna vinnu hans fyrir lekaveituna Wikileaks. Þau tengsl hafa sett hann í hringiðu stórra alþjóðlegra frétta en Siggi hakkari starfaði í innsta hring Wikileaks og var um tíma hægri hönd Julian Assange forsvarsmanns Wikileaks.siggihakk

Þættirnir hverfast um persónu Sigga hakkara en segir um leið sögu þeirra sem hann hefur tengsl við og varpar ljósi á vinnubrögð í heimi sem fæstir hafa innsýn í. Þannig má segja að dönsku þáttagerðarmennirnir varpi nú kastljósinu að þeim sem hafa vanist því að beina kastljósinu að öðrum. Það er því merkilegt að sjá að stjórnendur Wikileaks, blaðamenn og ritstjórn Heimildarinnar og áður Stundarinnar neita öllu samstarfi við framleiðendur þáttanna. Jafnframt kvarta þeir yfir því að þættirnir leggi of mikla áherslu á persónu Sigga hakkara. Þetta er leikur sem allir þessir aðilar þekkja mjög vel eftir að hafa iðulega verið hinum megin borðsins. Þess vegna kann mörgum að þykja áhugavert að sjá viðbrögð þeirra við innrás danskra kvikmyndagerðarmanna í klúbb íslenskra rannsóknarblaðamanna.

Varaformaðurinn sjokkeraður

Þessir íslensku andstæðingar þáttanna hafa haft sig nokkuð í frammi síðan Stöð 2 hóf sýningu þeirra. Þeir hafa meðal annars ráðist hart að fréttaskrifum Vísis, en það er annar fjölmiðill undir hatti Sýnar sem sýnir þættina. Síðast nú á fimmtudaginn var í dagskrárliðnum Lestinni á Rás 1 umræða um gerð heimildarmyndarinnar. Þar voru Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Heimildarinnar, og Hrafnhildur Gunnarsdóttir, heimildamyndagerðakona komin til að gagnrýna þættina. Áður hafði Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson, starfsmaður Heimildarinnar og Wikileaks, gagnrýnt gerð þáttanna harðlega í viðtali á Samstöðinni.bjartm

Umsjónarmenn Lestarinnar eru þau Lóa Björk Björnsdóttir og Bjarni Daníel. Í inngangi sínum dró Lóa Björk ekkert úr því að þættirnir væru umdeildir. Eftir þá kynningu er óhætt að segja að þau Aðalsteinn og Hrafnhildur hafi fundið þáttunum allt til foráttu. Sum gagnrýnisatriði þeirra gætu hitt fyrir íslenska dagskrárgerðarmenn ef nánar væri skoðað. Auðvitað er það hætt að koma á óvart hve mikið aðgengi starfsmanna Heimildarinnar hafa að hljóðnemum Ríkisútvarpsins. Aðalsteinn er augljóslega „réttu“ megin í því stríði sem hópur íslenskra rannsóknarblaðamanna er nú í við Danina. Hann getur þess í framhjáhlaupi að hann hafi verið í samstarfi við Wikileaks og er það vægt að orði komist hjá honum.

Raunar er erfitt að greina hvenær íslenskir blaðamenn eru starfsmenn Wikileaks eða Heimildarinnar, nú eða þá Stundarinnar áður. Það virðist ekki trufla umsjónarmenn Lestarinnar og ekki vottaði fyrir tilraun til hlutlægni hjá ríkisstarfsmönnunum, þegar ófrægingargusan gekk yfir dönsku þáttargerðarmennina. Aðalsteinn, sem er einnig varaformaður Blaðamannafélags Íslands, sagðist sjokkeraður yfir gerð þáttanna.

Eins og áður segir þá er Siggi hakkari miðpunktur frásagnarinnar og í gegnum hann er saga stórra fréttamála og alvarlegra atburða rakin. Það er ekki óþekkt nálgun en auðvitað getur vafist fyrir mörgum að skilja persónu Sigga þó að engum dyljist að hann er ekki eins og fólk er flest. Danirnir ræða enda við marga aðila um það, meðal annars vini hans og samstarfsmenn. Einnig er rætt við móður hans, sálfræðing og lögreglumann, svo nokkrir séu nefndir. Mesta rýmið fær danskur prestur, Dan Sommer, sem á einhverjum tíma var lífvörður Sigga. Allt þetta fólk gefur innsýn í þann heim sem Siggi dróst inní og fráleitt að hafna framburði þeirra með öllu. Enginn þessara viðmælenda Dananna dregur fjöður yfir það að ekki er hægt að taka mark á flestum orðum Sigga.strakur

Nytsamur samstarfsmaður fjölmiðla

Það er mikilvægt að skilja að Siggi hakkari hefur allt frá unga aldri verið notadrjúgur fyrir íslenska blaðamenn. Sumt af því er rakið í þáttunum en upphaf að þessu samstarfi Sigga og íslenskra blaðamanna má rekja til þess þegar hann brást trúnaði Gunnars Gunnarssonar, lögmanns fjárfestingafyrirtækisins Milestone, og hóf að leka gögnum úr tölvukerfi félagsins til blaðamanna. Þá var hann einungis 15 eða 16 ára barn. Ekki fæst séð að þeir blaðamenn sem nú hafna honum hafi gert neina athugasemd við framkomu hans eða siðferði á þeim tíma.

Siggi braust inn í starfsstöðvar Milestone og var handstýrt af blaðamönnum á þeim tíma samkvæmt upplýsingum sem pistlaskrifari fékk fyrir alllöngu. Blaðamennirnir sögðu Sigga að hverju og hverjum hann ætti að leita. Um leið voru barnungir piltar með í þessum innbrotum og tóku þátt í verknaðinum. Blaðamennirnir sem þessu stýrðu eru enn að störfum, jafnvel margverðlaunaðir á sínu sviði. Þannig virðist Siggi beinlíns hafa verið hvattur til ólögmætra verka af blaðamönnum en spurningin um hvar hin siðferðislegu mörk uppljóstrara, gagnaleka eða hakkara liggja er einn af lykilþáttum heimildaþáttanna.

Það er þekkt saga að fólk sem starfar á mörkum laga og réttar en telur sig hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þágu óljósra almannahagsmuna fer oftar en ekki yfir línuna. Það getur jafnvel hætt að þekkja muninn á réttu og röngu. Þetta er alþekkt vandamál meðal lögreglumanna sem villa á sér heimildir í leit að upplýsingum. Sama máli gegnir um blaðamenn.siggass

Hvenær hefst samstarfið við Wikileaks?

Þegar þarna á unglingsaldri er Siggi hakkari orðinn þekkt persóna í heimi hakkara og fjölmiðlamanna en þetta var á árunum eftir fall bankanna. Auðvitað er fjölmargt sem Siggi hefur gert eða verið grunaður um ekki nefnt í þáttunum. Má þar nefna að talsverð umfjöllun var um það þegar fartölva, sem enginn kunni deili á, fannst í skrifstofuhúsnæði Alþingis í febrúar árið 2010, mánuði eftir að Siggi hafði verið kynntur fyrir Julian Assange. Hafði tölvan verið tengd við netþjón Alþingis. Þó að málið hafi ekki verið upplýst þá voru sömu persónur og leikendur allt um kring. Þannig má rifja upp að árið 2009 hóf Birgitta Jónsdóttir, þá þingmaður Hreyfingarinnar, samstarf við Wikileaks og vann, ásamt fréttamönnum Ríkisútvarpsins, að birtingu hins kunna myndbands um hroðalega árás bandarískra hermanna á óbreytta borgara og blaðamenn Reuters í Írak.

Með þessa atburðarás í huga ætti ekki að koma á óvart að Wikileaks og Birgitta sjálf hafa verið orðuð við tölvuna og seinna fóru ýmsir að velta fyrir sér aðkomu Sigga hakkara að þessu máli. „Það vekur auðvitað grunsemdir, svo það sé bara sagt, að þessi tölva hafi fundist í skrifstofuhúsnæði Hreyfingarinnar, ekki síst vegna tengsla eins háttvirts þingmanns við vef sem hefur það að markmiði að birta illa fengin gögn," sagði þingmaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson í umræðum á Alþingi ári seinna. Jón Gunnarsson þingmaður bætti í og benti á að Julian Assange og jafnvel fleiri frá Wikileaks hafi verið á svæðinu á þessum tíma en hann dvaldist langdvölum hér á landi á þessum árum.birgitta

Tölvunni óþekktu hafði verið komið fyrir í skrifstofu sem ekki var í notkun og virðist hafa verið ætlað að brjótast inn á innri vef Alþingis. Rannsókn lögreglu skilaði hins vegar engu en mörgum fannst hún gerð með hangandi hendi. Skýrist það þá einkum af því að áherslan var á önnur afbrot en þau sem áttu sér stað í tengslum við Búsáhaldabyltinguna eða með vísun í mótmælendur. Það var beinlínis ákvörðun Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, að sum þessi mál skyldu ekki rannsökuð. Málin snérust um rétt fólks til að mótmæla að hennar mati.

En Birgitta var tilbúin að ræða við dönsku þáttagerðarmennina og í þáttunum kemur fram að það var Kristinn Hrafnsson sem hefur það á samviskunni að hafa upphaflega kynnt Sigga hakkara fyrir Julian Assange. Ekki verður annað séð en að Assange og aðrir starfsmenn Wikileaks hafi tekið Sigga opnum örmum. Það er í raun kostulegt því að þeir voru líklega tortryggnustu menn heims á þeim tíma enda sáu þeir njósnir og hleranir í hverju horni. En Siggi vann hug þeirra og hjörtu. Meira verður fjallað um það síðar.

A Dangerous Boy
Danskir heimildaþættir
Framleiðsluár: 2023
Leikstjóri: Ole Bentzen
Framleiðandi: Søren Steen Jespersen fyrir Pipeline
Meðframleiðendur:  TV Channel, DR, NRK, SVT, VPro og Stöð 2