c

Pistlar:

31. janúar 2024 kl. 14:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Wikileaks eða Wikihack?


Í dönsk heimildarþáttunum Hættulegur drengur (A Dangerous Boy) kemur fram að sögupersónan Siggi hakkari er komin til liðs við lekaveituna Wikileaks í upphafi árs 2010, þegar hann er aðeins 17 ára. Um leið er Siggi komin í samstarf við innlenda fjölmiðlamenn, þingmenn Hreyfingarinnar og Kristinn Hrafnsson, tengilið Wikileaks við Ísland. Þá þegar var Kristinn orðinn hægri hönd Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Sigga hakkara var vel tekið og segist hafa heillast af verkefnunum sem þar biðu og lífshættinum sem fylgdi starfinu innan samtakanna.siggi5

Dönsku heimildamyndagerðarmennirnir hafa viðað að sér talsverðu af áhugaverðum myndskeiðum. Þar má meðal annars sjá að sumir dagar voru dagar víns og rósa hjá Assange og félögum hans hjá Wikileaks. Þetta var sá heimur sem unglingurinn Siggi heillaðist af. Hann var núna hjá fólki sem kunni að meta hann og hæfileika hans. Siggi lýsir því að það hafi nánast verið feðgasamband milli hans og Julian Assange. Myndirnar af þeim saman renna stoðum undir þessi orð hans, þar sem þær sýna talsverða nánd milli þeirra. Þetta var áður en bandarísk yfirvöld hófu ofsóknir sínar gagnvart Julian Assange.

Wikileaks, og þá sérstaklega Julian Assange, áttu sér ýmsa stuðningsaðila og vini á þessum tíma enda var Assange var stjarna í heimi hakkara og aktívista. Eins og myndefnið ber með sér var skálað í kampavíni og dvalið í ríkmannlegu húsnæði sem vellauðugur velunnari Wikileaks lét samtökunum í té rétt fyrir utan London.siggi6

Stýrir Kristinn samtökunum?

Wikileaks samtökin voru stofnuð árið 2006 og eru að sögn ekki rekin í hagnaðarskyni. Þau eru fjármögnuð með frjálsum framlögum og fjölmiðlasamstarfi. Um fjárstreymið til þeirra hefur ávallt ríkt leynd en skipulögð söfnunarátök fara iðulega á stað kringum stóra leka. Skemmst er að minnast þess þegar greiðslukortafyrirtækið Valitor var árið 2019 dæmt til að greiða Datacell og Sunshine Press, rekstrarfélagi Wikileaks, samanlagt 1,2 milljarða króna í bætur. Það var vegna ólögmætrar riftunar Valitors á samningi um greiðslugátt fyrir söfnunarfé til Wikileaks.

Þessi málaferli sýndu glögglega hve miklir fjármunir eru í húfi þegar Wikileaks setur út áhugavert efni en brot Valitor var að stöðva greiðsluflæðið til samtakanna eftir stórann leka. Þess má geta að nýjasta fréttin inni á heimasíðu Wikileaks er frá 21. október 2021 og þá hafði ekki birst þar frétt í tvö ár. Fyrir þann tíma var tíðni frétta mun meiri. Frá september 2018 hefur Kristinn Hrafnsson starfað sem aðalritstjóri (editor-in-chief) Wikileaks og virðist núna vera æðsti stjórnandi samtakanna.siggi7

Saga Wikileaks) er rakin rækilega á Wikipedíu. Þar kemur fram að Assange stofnaði óformlega ráðgjafarnefnd á fyrstu dögum Wikileaks og fyllti hana blaðamönnum, pólitískum aðgerðarsinnum og tölvusérfræðingum. Átti ráðgjafanefndin að veita Wikileaks trúverðugleika og athygli. Árið 2007 upplýsti Wikileaks að stjórnin væri enn í mótun en að í henni væru fulltrúar frá rússneskum og tíbetskum flóttamannasamfélögum, fréttamönnum, bandarískir fyrrverandi leyniþjónustumenn og dulmálsfræðingar.

Staðreyndin var sú að ráðgjafarnefnd Wikileaks hittist aldrei. Flestir meðlimanna sögðust ekki hafa veitt mikla ráðgjöf og sögðust reyndar hafa haft lítil afskipti af Wikileaks. Nokkrir meðlimir sögðust hreinlega ekki vita að þeirra væri getið á síðunni eða hvernig þeir komust þangað.

Engum dylst að Julian Assange var erfiður samstarfsmaður en hafa verður í huga að hann var undir miklu álagi, sérstaklega eftir birtingu myndbandsins frá Írak þar sem saklausir borgarar og blaðamenn frá Reuters sáust myrtir. Eftir það hófust ofsóknir bandarískra yfirvalda gegn honum.

Assange hefur hrakið margt fólk frá samtökunum en mesta athygli vakti í september 2010 þegar Daniel Domscheit-Berg, þýskur talsmaður Wikileaks, sagði í samtali við Der Spiegel að hann hygðist segja af sér. Sagði hann við það tilefni: „Wikileaks eiga við skipulagsvanda að etja. Ég vil ekki lengur taka ábyrgð á því og þess vegna yfirgef ég verkefnið.“ Daniel skrifaði handritið að kvikmyndinni The Fifth Estate sem frumsýnd var árið 2013. Sú mynd fjallar um Assange og Wikileaks. Þar lék breski stórleikarinn Benedict Cumberbatch Assange og Daniel Brühl lék nafna sinn. Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar og Pírata, var titlaður meðhöfundur en Assange var meinilla við þessa mynd. Gagnrýni Daniels laut meðal annars að vinnubrögðum Wikileakssiggi1

Upplýsingarnar fengnar með innbrotum?

Víkjum aftur að upplýsingum sem koma fram í dönsku heimildarmyndaþáttunum. Siggi segist hafa haldið áfram að hakka þegar hann var komin í herbúðir Wikileaks. Hann jafnframt lýsir því yfir að fljótlega hafi hann verið komin með 90 hakkara undir sér, allt sjálfboðaliða eins og hann sjálfur. Þessi her hakkara hafi síðan stundað innbrot í að tölvuver ríkja, stofnanna og einkaaðila. Siggi lýsir því fjálglega hvað það hafi verið spennandi að geta valsað um tölvupósta og gögn ýmissa ríkja og þjóðarleiðtoga. Auðvitað verður að taka orðum hans með fyrirvara en þetta virðist stutt ýmsum gögnum og sýnd eru fréttamyndbönd af handtökum á hökkurum í þáttunum.

Sé þetta rétt þá er þarna varpað sérkennilegu ljósi á starfsemi Wikileaks. Nær sé þá að kalla lekaveituna Wikihack! Það sjá allir að sjá muninn á því að taka við gögnum frá uppljóstrurum eða standa að innbrotum í tölvukerfi og stela þessum gögnum þaðan. Eins og oft áður virðist það vefjast fyrir hökkurum að feta einstigið milli löglegra og ólöglegra vinnubragða. siggi2

Í pistli hér fyrir skömmu var fjallað um óþekktu tölvuna í húsnæði Alþingis, sem virðist hafa verið komið þar fyrir til njósna. Við það tilefni skrifaði Óli Kr. Ármannsson, leiðarahöfundur og fréttastjóri á Fréttablaðinu en auk þess var hann varaformaður Blaðamannafélags Ísland um tíma: „Þá væri auðvitað stílbrot af Wikileaks, sem byggir á því að fólk leki til vefsins trúnaðargögnum, að hafa þarna beitt sér í njósnastarfsemi. Slík iðja hefur til þessa fremur verið á annarra höndum, svo sem lögreglu eða leyniþjónustum.“

Sjálfsagt er mönnum brugðið að heyra að þannig hafi Wikileaks í reynd starfað því að lekaveitan kom að ýmsum mikilvægum málum, sérstaklega til að byrja með. Eins og bent hefur verið á þá eru margir í íslensku blaðamannasamfélagi sem vilja ekki ræða þær upplýsingar sem komu fram í dönsku heimildaþáttunum og vísa þá beint til kynferðisglæpa Sigga hakkara. Hann sé svo siðblindur að ekki sé hægt að gera heimildaþætti í kringum persónu hans. En er það ekki ódýr og þægileg útganga fyrir þá sem jafnvel áður sáu ekkert athugavert við að nýta sér upplýsingar sem hann aflaði?siggi3

Ónýtur hakkari?

Á fjölmiðlanördasíðu á Facebook átti síðan Gunnar Hrafn Jónsson sérkennilegt innslag í umræðu um gildi heimildaþáttanna. Þar segir Gunnar Hrafn: „Siggi er ekki hakkari frekar en amma mín. Hann kann að senda tölvupóst, ljúga og tala fólk til, það er kallað social engineering í heimi „hakkara“. Efast um að hann gæti installað linux, hvað þá notað það sér til gagns. Og hann var aldrei „hægri hönd“ neins hjá Wikileaks, það er bara kjaftæði. Ef ég tek að mér að skrifa grein í moggann, er ég þá hægri hönd Davíðs Oddssonar?“ Gunnar Hrafn hefur setið á Alþingi Íslendinga í eitt ár en hann gekk til liðs við Pírata eftir átta ára starf á fréttastofu Ríkisútvarpsins árið 2016.siggi4

Það fylgir ekki færslu Gunnars Hrafns hvaða þekkingu hann hefur á starfsemi Wikileaks eða störfum hakkara yfirhöfuð eða hvort hann og Siggi hakkari hafi unnið saman. Hafa verður í huga að Assange var sjálfur hakkari og var því í góðri aðstöðu til að meta þekkingu Sigga á því sviði. En hugsanlega er þarna kominn enn einn íslenski fjölmiðlamaðurinn sem þarf að útskýra tengsl sín við Sigga hakkara.

A Dangerous Boy
Danskir heimildaþættir í 4 hlutum
Framleiðsluár: 2023
Leikstjóri: Ole Bentzen
Framleiðandi: Søren Steen Jespersen fyrir Pipeline
Meðframleiðendur:  TV Channel, DR, NRK, SVT, VPro og Stöð 2