c

Pistlar:

4. febrúar 2024 kl. 11:49

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Rányrkja kínverska fiskveiðiflotans

Enginn fiskur er veiddur í íslenskri fiskveiðilögsögu nema um það gildi lög og nákvæm skráning og strangt eftirlit fer fram með öllum veiðum og öllum afla sem dreginn er á land. Við Íslendingar tökum þessu sem sjálfsögðum hlut en víðast hvar í heiminum er það ekki svona. Reyndar eiginlega hvergi, einfaldlega vegna þess að við erum með besta og áreiðanlegasta skipulag fiskveiða sem finnst.

Ofveiði, ólöglegar fiskveiðar og slæm meðhöndlun afla er það sem einkennir fiskveiðar á heimsvísu. Því miður og það sýnir glögglega þá einstöku stöðu sem við Íslendingar erum í með okkar þróaða fiskveiðistjórnunarkerfi.kinvflot

Kínverski risaflotinn

Í nýlegri úttekt tímaritsins Economist kemur fram að kínverski fiskiskipaflotinn hefur versta orðspor heims þegar kemur að ólöglegum, óskráðum veiðum fyrir utan lög og rétt. Kínverjar eru fyrir vikið illa þokkaðir allstaðar. Þetta á sérstaklega við um veiðar fyrir utan ströndum Suður-Ameríku. Um það bil þriðjungur fiskiskipaflotans, sem telur um 3.000 skip, er þar að veiðum árið um kring. Löngum eru þeir að eltast við flökkustofna af smokkfisk fyrir ströndum Argentínu en seinni hluta ársins færir flotinn sig yfir á Kyrrahafið og veiðir fyrir ströndum Ekvador og Perú eftir að hafa fært sig í gegnum Magellansunds milli Eldlands og meginlands Suður-Ameríku.

Sum lönd hafa reynt að berjast gegn þessari rányrkju. Kínverjarnir eru mikið á veiðum við 200 mílurnar í landhelgi Argentínu og læða sér síðan inn fyrir þegar þeir telja sér það óhætt. Argentínski sjóherinn lenti í átökum við þennan flota í fyrra og kom til eltingarleiks og skotið var á kínversk skip. Í september í fyrra samþykktu Ekvador, Perú, Bandaríkin og 11 önnur að grípa til að gerða gegn slíkri rányrkju og jafnvel reyna að taka skip sem stunduðu hana úr umferð.

En ólöglegar fiskveiðar hafa verið að vaxa á heimsvísu undanfarin áratug og velta tugum milljarða dala árlega. Talið er að einn af hverjum fimm fiskum sem enda á borðum neytenda séu teknir með þessum hætti. Það gerir ólöglegar fiskveiðar að sjöttu stærstu ólöglegu starfseminni í heiminum. Svik og fjárpretti eru talin nema um 1,1 trilljón dala en fíkniefnasala er þar næst með veltu upp á 650 milljarða dala. Ólöglegar fiskveiðar eru taldar velta 36 milljörðum dala. Við strendur Suður-Afríku er talið að ólöglegar fiskveiðar hafi um 8 til 15% af árlegri veiði af strandríkjunum, samkvæmt rannsókn sem ameríski háskólinn í Washington framkvæmdi.

Diplómatískar leiðir duga ekki

Það er Ekvador sem leiðir baráttuna gegn kínverska rányrkjuflotanum en í talningu árið 2020 fundust 340 kínversk fiskiskip að ólöglegum veiðum, sum hver að veiða úr viðkvæmum stofnum. Friðhelgi landhelgi hinna frægu Galapagoseyja hindrar ekki kínverska flotann í að sækja fiskinn. Ekvador hefur beðið Kína eftir diplómatískum leiðum að stoppa þessar ólöglegu veiðar. Yfirvöld í Perú hafa gert það sama.kinflot2

Síðustu árin hefur kínverski flotinn stundað veiðar sínar í um 60 mílna fjarlægð frá ströndum Ekvadors og Perú. Löndin hafa reynt að fá Chile, Kólumbíu, Panama og Costa Rica til liðs við sig til að auka þrýsting á Kínverja og löndin fordæmdu þá fyrir fiskveiðarnar í yfirlýsingu árið 2019. Á næsta ári hyggjast löndin sameinast um að mynda eitt stærsta verndarsvæði hafsins í von um að stöðva ólöglegar veiðar. Svæðið sem hér um ræðir er tvöföld stærð Bretlands. Þá beittu löndin sér á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um að draga úr niðurgreiðslu fiskveiða.

Bandaríkjamenn hafa stutt aðgerðir landanna og látið þeim í té búnað til að bæta eftirlit með ólöglegum veiðum Kínverja. Fyrir nokkrum árum hóf bandaríska strandgæslan samstarf við Ekvador um veiðieftirlit. Síðustu tvö ár hafa bandarísk stjórnvöld varið 30 milljónum dala í aðgerðir gegn ólöglegum veiðum.

Á meðan segja stjórnvöld í Argentínu og Úrúgvæ að ástandið í Atlantshafinu sé að versna. Þannig hafi fjöldi kínverskra fiskiskipa farið úr því að vera 74 árið 2013 í 429 árið 2021. Á meðan vinstri stjórn var í Argentínu undir forystu Alberto Fernández var ekki vilji til að taka á þessum veiðum Kínverja af hörku. Það gæti breyst núna með nýjum stjórnarherrum.