c

Pistlar:

5. febrúar 2024 kl. 17:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er Hamas að vinna stríðið?

Fyrir tveimur vikum var Mohammad Marandi, íranskur fræðimaður og prófessor, í viðtali við Stephen Sackur, umsjónarmann HARDtalk hjá BBC. Athygli vakti að Marandi fullyrti að Hamas væri að vinna stríðið á Gasa. Sackur kváði við þessari fullyrðingu fræðimannsins og þegar hann spurði hvernig það mætti vera í ljósi mannfallsins á Gasa sagði Marandi einfaldlega að það væri á ábyrgð Ísrael, Hamas væri að ná markmiðum sínum.gasa

Þessi ummæli hljóta að vekja athygli en Marandi er ekki bara einhver fræðimaður, hann er valdamaður í Íran og hefur meðal annars veitt ríkisstjórn sinni ráðgjöf í kjarnorkuviðræðum. Sem kunnugt er þá styður Íran Hamas á Gasa, Hizbollah í Líbanon og Húta í Jemen. Margir eru á því að ástandið sem er að teiknast upp í Miðausturlöndum, með einhverskonar svæðisbundnu stríði sem Bandaríkin nánast munu óumflýjanlega taka þátt í, það sé það sem ráðamenn í Teheran vill raunverulega. Um leið séu þeir og Hamas að ná markmiðum sínum en samtökin eru skilgreind hryðjuverkasamtök af Ísrael, Bandaríkjunum, Evrópusambandinu, Bretlandi og fleiri löndum.

Gengu að hörðum viðbrögðum Ísraelshers sem vísum

Öllum má vera ljóst að leiðtogar Hamas, og bakhjarlar þeirra, hafi verið fyllilega meðvitaðir um hversu hörð viðbrögð Ísraels yrðu við voðaverkum þeirra 7. október síðastliðinn en hér hefur áður verið fjallað um ábyrgð Hamas. Gíslataka ríflega 200 óbreyttra borgara og flutningur þeirra inn á Gasa og hroðaleg dráp og pyntingar á óbreyttum borgurum gulltryggði innrás Ísraels eins og Bjarni Már Magnússon, prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, benti á í grein á Vísi nokkrum vikum eftir innrásina. Þar sagði Bjarni Már: „Hamas liðar hafa hannað atburðarás sem beinlínis leiðir til mikils mannfalls óbreyttra borgara, borgara sem ættu undir öllum eðlilegum kringumstæðum að vera undir þeirra verndarvæng. Tilgangurinn er að veikja stöðu Ísraels, grafa undan samvinnu Ísraels og Sádi-Arabíu og fleiri ríkja, valda uppnámi og uppþotum út um víða veröld og framkalla bresti í samstöðu vestrænna ríkja. Slíkur órói gagnast fyrst og fremst Íran og Rússlandi. Kaldrifjuð og ógeðfelld flétta Hamas og bandamanna þeirra hefur fest Ísrael í köngulóarvef þar sem öll viðbrögð magna upp málstað hryðjuverkasamtakanna í hugum þeirra sem ekki hafa skilning á við hvað er að etja.“

Eftir að Ísrael hóf hernað sinn á Gasa hefur athyglin beinst að átökunum þar og allir hljóta að óska þess að þeim ljúki sem fyrst enda hafa þau leitt ólýsanlegar þjáningar yfir almenna borgara á Gasa. Hamas hryðjuverkasamtökin hafa ekki viljað gefa eftir en líklegt verður að telja að Ísraelsher myndi milda átökin ef gíslunum yrði sleppt. Reiði almennings og fjölskyldur gíslanna setja mikinn þrýsting á ísraelsk stjórnvöld.gasamynd

Einráðir á Gasa

Það er ástæða til að hafa í huga að Hamas samtökin hafa verið einráð á Gasa eftir að hafa hrakið pólitíska keppinauta frá með ofbeldi árið 2007. Það er erfitt að skilja þróunina á Gasa án þess að skoða uppbyggingu samtakanna, svo samtvinnuð eru þau völdum og þróun svæðisins. Þó að miklir fjármunir hafi streymt inn á Gasa í allskonar aðstoð hefur Hamas lagt áherslu á vígbúnað og hinn vopnaði vængur þeirra verið með um 30.000 bardagamenn undir vopnum áður en stríðið hófst. Það er um helmingi færri en til dæmis Hizbolla eins og rakið hefur verið hér.

Bandaríska blaðið Wall Street Journal sagði fyrir rúmri viku að bandarískar leyniþjónustustofnanir áætluðu að um 20-30% af stríðsmönnum Hamas hefðu fallið í átökunum á Gasa sem bendir til þess að þeim hefur tekist vel upp við að fela sig bak við óbreytta borgara. Það kemur heim og saman við tilkynningar ísraelska hersins (IDF) sem segist hafa drepið um 9.000 Hamas-hermenn, auk meira en 1.000 árásarmanna innan Ísraels. Þeir greina ekki meira þessa tölu en í tölfræði heilbrigðisráðuneytis Gasa, sem ber ábyrgð á öllum tölum um fallna á Gasa, er ekki gerður greinarmunur á óbreyttum borgurum og hermönnum. Ísraelar segja að meira en 200 hermenn þeirra hafi verið drepnir á Gasa.
​
Hvað vill Hamas?

En hvað vill Hamas? Jú, Hamas, sem stendur fyrir íslamska andspyrnuhreyfingin, vill stofna íslamskt ríki í stað Ísraels. Uppgangur Hamas er staðfesting þess að trúarleg andspyrna er að taka yfir þá veraldlegu sem fannst innan Fatha og PLO. Hamas hafnar tilverurétti Ísraels og er staðráðið í að eyða því, það er engin fyrirvari á það í stefnuskrá Hamas þó einhver tilraun hafi verið gerð til að milda orðalag í uppfærslu hennar 2017. Stuðningsmenn Hamas hér á Íslandi tala margir um að árásin 7. október hafi ekki gerst í „tómarúmi“, sem virðist þá vera ætlað að réttlæta aðgerðina. Hamasliðar sjálfir réttlæta árás sína sem svar við því sem þeir kalla glæpi Ísraela gegn palestínsku þjóðinni. Þar á meðal nefna þeir til árásir á þriðja helgasta stað íslams, al-Aqsa moskuna í hinni hernumdu Austur-Jerúsalem og svo landnemabyggðir gyðinga á hernumdum Vesturbakkanum.

Hamas vill einnig að þúsundir palestínskra fanga í Ísrael verði látnir lausir og bundin sé endir á bann Ísraela og Egypta á ferðir út og inn af Gasasvæðinu en ríkin segja að sé nauðsynleg öryggisráðstöfun. Hamas hefur háð nokkur stríð við Ísrael síðan samtökin tóku við völdum, skotið þúsundum eldflauga að ísraelsku landssvæði og gert aðrar banvænar árásir, svo sem ítrekaðar sjálfsmorðsárásir sem beinast að óbreyttum borgurum í Ísrael. Ísraelsmenn hafa ítrekað ráðist á Hamas með loftárásum og sendu hermenn inn á Gasa árin 2008 og 2014.