c

Pistlar:

12. mars 2024 kl. 15:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mun jarðarbúum fækka niður í tvo milljarða?

Síðustu áratugi eða svo hafa fræðimenn og allskonar sérfræðingar óttast það helst að maðurinn kæfi jörðina og að mannkyninu myndi að endingu fjölga langt umfram það sem jörðin ber. Þetta hafa mannfjöldaspár lengst af gengið útá. Hin síðari ár hefur orðið mikil breyting á þessari umræðu og er nú svo komið að einstaka menn óttast fækkun mannkynsins og hin framsýni frumkvöðull Elon Musk hefur látið hafa eftir sér að „hrun í fjölgun íbúa sé hugsanlega mesta hættan fyrir framtíð siðmenningarinnar.“mannf

Sá er hér heldur á penna hefur reglulega fjallað um mannfjöldaþróun og rakið það hvernig spár hafa verið að breytast en útgangspunkturinn er sá að í hverju þjóðfélagi þarf hver kona að eignast 2,1 barn að meðaltali til þess að halda við mannfjölda. Það þýðir að hvorki fjölgar né fækkar í viðkomandi þjóðfélagi. Frá upphafi þessarar aldar hefur orðið mikil breyting á fæðingartíðni og reyndar voru merki þess farin að sjást víða áður að fólki var tekið að fækka í einstaka löndum. Þar stóð „gamli heimurinn“ undir nafni en þessi þróun náði fyrst til Vestur-Evrópu.

Gríðarlegar breytingar á fæðingatíðni í Asíu

Það er hugsanlega eftirtektarverðast að fylgjast með iðnríkjum Asíu en Japönum hefur fækkað lengst en þar var fæðingartíðni 1,3 börn á hverja konu 2020 og fækkar þeim um 600 til 700 hundruð þúsund árlega. Á síðasta ári fór Indland fram úr Kína í mannfjölda en Kínverjum fækkar nú hratt enda er hlutfallið 1 þar en lægsta fæðingartíðnin er í Suður-Kóreu þar sem hún er 0,7 börn á hverja konu.

Margt hefur stuðlað að þessu en þó ekkert meira en aukin menntun kvenna og krafa þeirra um jafnrétti á öllum sviðum. Nútímakonan vill ekki leggja á sig langskólanám til þess eins að ganga inn í það hlutverk sem formæður þeirra sættu sig við á heimilinu. Færa má rök fyrir því að lönd með sterka stöðu í jafnréttismálum séu betur búin til að takast á við þessa þróun en hin.

Miðgildi mannfjöldaspár Sameinuðu þjóðanna sagði að jarðarbúar yrðu orðnir 10,4 milljarðar um miðjan níunda áratug þessarar aldar. Samkvæmt nýjustu spánni mun mannfjöldinn ná hámarki á lægra stigi og fyrr, eða 9,7 milljarðar árið 2064. Þetta er vegna þess að um allan heim hefur heildarfrjósemi (TFR) - fjöldi lifandi barna sem meðalkona fæðir á ævinni - farið lækkandi síðan á áttunda áratugnum. Í hverju landi á eftir öðru hefur það lækkað undir 2,1 hlutfallið sem áður var nefnt. Mannfjöldaklukkan sem oft hefur verið vísað til hér er enn að miða við hámarki upp á 10,4 milljarða árið 2086.fæðingar

Tveir milljarðar jarðabúa?

En það er ýmislegt við þessa þróun sem er farið að valda sérfræðingum áhyggjum. Það er vegna þess að þegar mannkyninu fer að fækka mun fækkunin gerast næstum eins hratt og þegar mannkyninu var að fjölga. Ef frjósemi heimsins eftir 2100 væri sú sama og í Bandaríkjunum í dag, þá myndi fjöldi jarðarbúa falla úr hámarki um 10 milljarða í innan við 2 milljarða um 300 árum síðar.

Sagnfræðingurinn Niall Ferguson spyr á hvort hægt sé að snúa við minnkandi frjósemi? Örugglega ekki, svarar hann sjálfur. Til viðbótar við lækkandi fæðingartíðni og minni frjósemi eru samfélagslegir þættir að hafa áhrif. Þannig má segja að um allan heim sé stefnan sú að auðvelda fóstureyðingar. Þá styður vaxandi fjöldi landa það að heimila líknardráp og/eða aðstoð við sjálfsvíg. „How Mankind Chose Extinction,“ verður áhugaverð lesning ef einhver á eftir að skrifa hana, tvítar Ferguson.

Þjóðfélög án krafts æskunnar

Ferguson tiltekur þrennt sem áhrifaþátt. Í fyrsta lagi séu þróuð lönd þegar farin að sjá áhrif lækkandi fæðingatíðni. Það birtist í hægari hagvexti (hagvöxtur á mann þarf þó ekki að lækka), tómum skólum, vöntun á búsetuúrræðum fyrir aldraða og sjúka og almennan skort á krafti og frumkvæði.

Í öðru lagi þá getur millibilsástand í þróuninni haft veruleg áhrif á íbúasamsetningu einstakra landa og heimssvæða. Þar sem fall í frjósemi hefur átt sér stað mun seinna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku og er varla hafin á svæðunum sunnan Sahara þá eru miklir fólksflutningar frá þessum svæðum óstöðugleikavaldur og geta valdið breytingu á íbúasamsetningu þjóða sem getur skapað spennu og óróa. Ferguson tekur fram að þar sem hann er Skoti og giftur sómalskri konu þá hafi hann ákveðna innsýn í þessa þróun. Þannig finni hvítir kristnir menn sér ógnað af innflutningi múslima enda hafi þeir verið ráðandi á heimsvísu síðan um miðja 18. öld.

Þá sé ekki hægt að horfa framhjá því að fæðingatíðni er mest í fátækum löndum sem séu viðkvæmari fyrir loftslagsbreytingum og eru einnig óstöðug pólitískt og efnahagslega. Þá eru sum lönd Afríku undirlögð af langvarandi átökum sem kalla hörmungar yfir landsmenn með reglulegu millibili. Allt stuðlið það að ásókn fólks norður í ríkari lönd með lægri fæðingartíðni. Hvaða áhrif það mun hafa er erfitt að segja en það er sannarlega áskorun ef mannkyninu fækkar niður í tvo eða þrjá milljarða. Það er erfitt að sjá fyrir sér jörðina með tómar borgir þó það geti haft jákvæð áhrif á náttúru jarðarinnar.