Heildarútgjöld hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu, að frádregnum útgjöldum vegna varnarmála og lífeyrismála, voru hvergi meiri meðal OECD-ríkja árið 2021 en á Íslandi. Námu þau 42,5% af VLF, en meðaltal ríkja OECD var 34%. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur alþingismanni og Morgunblaðið gerir grein fyrir í dag og kemur fram í meðfylgjandi grafi.
Það er upplýsandi að fá þessa niðurstöðu fjármálaráðuneytisins (þetta er skrifað svona hér þó fyrirspurnin sé til ráðherra því starfsmenn ráðuneytisins skrifa það) en nánast er daglega tekist á um stærð og umfang ríkisins (hins opinbera) í íslensku samfélagi og kannski ekki síst áhrif þess á rekstur hagkerfisins og undirliggjandi fyrirtækja. Þessa daganna fáum við einmitt ferskt dæmi um slíka umræðu vegna kaupa Landsbankans á Tryggingamiðstöðinni. Um það segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og einn helsti hugmyndafræðingur flokksins, í grein í Morgunblaðinu í dag að yfirtaka Landsbankans á TM varpar ljósi á undirliggjandi mein á íslenskum fjármálamarkaði. „Landsbankinn er ríkisbanki og umsvif ríkisins á fjármálamarkaði eru óheilbrigð og óeðlileg, skrifar Óli Björn sem telur að uppákoman í kringum kaupin á TM sé áminning um á hvaða villigötur við erum komin. Búið sé að framselja of mikið vald frá kjörnum fulltrúum til stjórna ríkisfyrirtækja, úrskurðarnefnda og embættismanna. Þar eru pistlaskrifari og Schumpeter sammála.
Í ársskýrslu ríkisfyrirtækja fyrir 2022 kemur fram að þá átti íslenska ríkið alfarið eða ráðandi eignarhluti í 44 félögum með mismunandi starfsemi og markmið. Þá á ríkið minni hluta í ýmsum félögum. Ríkisfélögin eru að langmestu leyti hlutafélög, opinber hlutafélög og einkahlutafélög, en einnig stofnanir eða sjóðir með ákveðið þjónustuhlutverk.
Sérstaða íslenska lífeyriskerfisins
En að mörgu er að huga í slíkum samanburði. Í svarinu til Diljár segir að Ísland hafi þá sérstöðu að stærri hluti lífeyristrygginga, elli- og örorkulífeyris er á höndum einkaaðila hér en í samanburðarríkjum. „Íslenska lífeyrissjóðasöfnunarkerfið byggist engu að síður á lögboðnum skyldusparnaði og greiðslur úr þeim því í eðli sínu sambærilegar lífeyrisgreiðslum sem inntar eru af hendi af hinu opinbera erlendis og fjármagnaðar með sköttum. Fyrir vikið mælast opinber útgjöld meiri í ríkjum með opinberar lífeyristryggingar en á Íslandi ef ekki er leiðrétt fyrir ólíku fyrirkomulagi lífeyrisgreiðslna milli ríkja,“ segir í svari ráðherra.
Þá segir að útgjöld vegna varnarmála séu hverfandi útgjaldaliður á Íslandi en geti reynst nokkuð fyrirferðarmikill í samanburðarríkjum.
Vandasamur samanburður
Í svari fjármálaráðuneytisins kemur fram að hlutfall tekna og gjalda hins opinbera af vergri landsframleiðslu er algengur mælikvarði á umfang hins opinbera enda einfaldur, auðskiljanlegur og ekki síst hentugur fyrir samanburð milli ríkja.
Ráðuneytið bendir á að slíkur samanburður hafi þó sín takmörk og felur í sér skekkjur sem vert er að hafa í huga ef draga á af honum ályktanir. Skekkjurnar geta verið ólíkar milli ríkja, til dæmis ef hlutfallið hækkar vegna tekna hins opinbera af náttúruauðlindum, eins og í tilfelli Noregs, eða lækkar vegna þess að viðvera stórfyrirtækja með litla starfsemi í landinu eykur landsframleiðslu, eins og í tilfelli Írlands. Fleira má nefna sem flækt getur samanburðinn, t.d. ólíka aldursdreifingu milli ríkja sem hefur áhrif á allar breytur sem útreikningarnir byggjast á.
Í tilfelli Íslands er það helst fyrirkomulag lífeyristrygginga sem skekkir samanburðinn en í flestum samanburðarríkjum eru lífeyristryggingar að miklu eða öllu leyti fjármagnaðar og greiddar af hinu opinbera. Eykur það tekjur og gjöld hins opinbera í þeim ríkjum í samanburði við Ísland þar sem fjármögnun og útgreiðslur lífeyrissjóða eru ekki á höndum hins opinbera. Ef ekki eru gerðar leiðréttingar er stærð hins opinbera á Íslandi því vanmetin í samanburði sem þessum, bæði umfang opinberra tekna og gjalda.