c

Pistlar:

23. mars 2024 kl. 18:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mannfækkun af manna völdum

Þegar við skoðum sögu Íslands er okkur tamt að horfa til þess hve margir bjuggu í landinu frá einum tíma til annars og metum gjarnan landshagi út frá því hvernig mannfjöldaþróuninni reiddi af. Samfélagið var lengst af staðnað og fyrir kom að það nánast þurrkaðist út og það var ekki fyrr en kom fram á seinni hluta 19. aldar sem landsmönnum tók að fjölga að einhverju ráði, þróun sem hélt áfram alla 20. öldina þegar sannkölluð mannfjölgunarsprengja varð hér og annars staðar í heiminum. Fyrir nokkrum áratug var svo komið að menn óttuðust það helst að jörðin myndi ekki bera þennan fjölda og aðlögunin yrði harkaleg og jafnvel í formi mikils hallæris um alla jörð. Nú sjá menn þróunina í nýju ljósi og fleiri og fleiri teikn eru á lofti um að jarðarbúum muni fækka nánast jafn skyndilega og þeim fjölgaði.fólksfj

Þegar Hannes biskup Finnsson (1739-1796) ritaði bók sína Mannfækkun af hallærum staðnæmist hann við hafís, eldgos, öskufall, grasbrest, heyleysi, skepnufelli og stórsóttir. Plágan mikla og bólusóttarfaraldur var honum einnig hugleiðingaefni. Þessir þættir mótuðu mannfjöldaþróunina á þeim tíma. Í dag er það staða konunnar sem mótar mannfjöldaþróunina, hér sem erlendis.

Lækkandi frjósemi

Þessi breytta staða skýrist fyrst og fremst af því að lækkandi frjósemi í flestum löndum heims á næsta aldarfjórðungi mun óhjákvæmilega knýja fram mikla lýðfræðilega breytingu á alþjóðavísu. Það mun síðan hafa víðtæk félagsleg og efnahagsleg áhrif um allan heim og móta samfélög og samskipti þeirra í milli. Um þetta var fjallað um hér fyrir stuttu en nú hefur tímaritið Lancet birt nýja úttekt á málinu sem Financial Times viðskiptadagblaðið gerði að umtalsefni.

Í úttekt Lancet er lagt út frá því að þrjár af hverjum fjórum þjóðum heims fari niður fyrir sjálfberandi fæðingartíðni fyrir árið 2050 en hún er 2,1 barn á hverja konu. Það felur í sér að það kemur í hlut verst stöddu landa heims að sjá um að fjölga mannkyninu en fólksflótti frá þessum löndum er vandamál í dag. Það eru aðeins fátæk ríki Afríku, sunnan Sahara og nokkur ríki Asíu sem munu hafa fæðingar sem tryggja fjölgun. Um leið standa þessi sömu lönd frammi fyrir bráðri ógn af auðlindaskorti og vangetu til að takast á við áskoranir náttúrunnar. Því má segja að rannsóknin sem birt var í læknatímaritinu The Lancet síðastliðin miðvikudag varpi ljósi á sífellt skarpari skil milli landa sem en búa við fólksfjölgun og þar sem fæðingartölur eru niður á við.fólksfj2

Fólksfækkun í 76% landa

„Við stöndum frammi fyrir yfirþyrmandi félagslegum breytingum í gegnum 21. öldina,“ sagði Stein Emil Vollset, aðalhöfundur samantektarinnar og prófessor við Institute for Health Metrics and Evaluation. „Heimurinn mun samtímis takast á við háa fæðingartíðni (baby boom) í sumum löndum og lága fæðingartíðni (baby bust) í öðrum.“

Rannsókn á 204 löndum og svæðum leggur grunn að þeirri spá að 76 prósent landanna muni fara niður fyrir náttúrulega fæðingartíðni árið 2050 og allt að 97 prósent þeirra árið 2100. Spáð er að hlutfall lifandi fæddra barna í lágtekjulöndum af heild muni fara úr 18 prósentum árið 2021 í 35 prósent í lok aldarinnar. Spáð er að Afríkulönd sunnan Sahara muni standa fyrir helmingi fæðinga á heimsvísu fyrir árið 2100.

„Afleiðingarnar eru gríðarlegar,“ sagði Natalia Bhattacharjee, aðalhöfundur rannsóknarinnar og aðalrannsóknarfræðingur hjá IHME. „Þessi framtíðarþróun í frjósemi og lifandi fæðingum mun gjörbreyta hagkerfum heimsins og alþjóðlegu valdajafnvægi og mun kalla á endurskipulagningu á samfélögum,“ hefur FT eftir Bhattacharjee.

SÞ spáir því að jarðarbúum gæti fjölgað úr núverandi tölu, sem er um 8 milljarðar í 9,7 milljarða árið 2050 og ná hámarki í 10,4 milljörðum um miðjan níunda áratuginn segir í grein FT en hér hefur áður verið nefnt að þessi spá sé hugsanlega úrelt. En þessar tölur hylja hvernig svokallað heildarfrjósemishlutfall (TFR), meðalfjöldi barna sem fæðast á hverja konu á ævinni, hefur þegar fallið í sumum löndum niður fyrir hlutfallið 2,1.fólksfj3

Fólksfækkun í iðnveldum Asíu

Spáð er að TFR í Vestur-Evrópu verði 1,44 árið 2050, en ástandið er verra í Kína, Japan og sérstaklega Suður-Kóreu. Í Japan er tíðnin nú tæplega 1,3 á hverja konu og horfur eru á að Japönum mun fækka um rúmlega 30 prósent fram til ársins 2070 og verða íbúar landsins þá um 87 milljónir, en í dag eru þeir um 126 milljónir. Enn alvarlega er útlitið í Suður-Kóreu, þar er fæðingartíðnin einungis 0,78.

Árið 2100 er búist við að aðeins sex lönd verði með TFR hærri en 2,1. Það eru Tadsjikistan í Mið-Asíu, Kyrrahafseyjar Tonga og Samóa og Afríkuríkin Sómalía, Tsjad og Níger.

Augljós skýring er sú að þegar lönd verða ríkari, hafa konur tilhneigingu til að eignast færri börn, þróun sem er styrkt af stefnu ríkisins eins og eins barnsreglunni sem Kína setti á milli 1980 og 2016.

Mótvægisaðgerðir

Sum lönd, eins og Japan og Ungverjaland, hafa á undanförnum árum reynt að auka fæðingartíðni með ívilnunum eins og skattaívilnunum og ódýrari barnapössun, þó að engar af þessum ráðstöfunum virðist hafa haft þau áhrif sem vonast var eftir.

Ríkisstjórnir þurfa að sætta sig við þróunina og hafa skipulagði þannig að konur ættu að geta eignast þann fjölda barna sem þær vilja og fá framfærslu í samræmi við það, sagði Sarah Harper, prófessor í öldrunarfræði við Oxford háskóla við FT.

Það krefðist „sameiginlegrar hugsunar“ á mörgum sviðum eins og fólksflutningastefnu og um leið skilnings á því hvernig færri íbúar gætu haft jákvæð áhrif í þeim tilgangi að draga úr þrýstingi á land, húsnæði, líffræðilegan fjölbreytileika og loftslag, bætti hún við. Horfast verði í augu við að við lifum á plánetu með takmarkaðar auðlindir og fækkandi íbúafjölda sem þarf ekki að vera alslæmt en færir okkur margar nýjar áskoranir.