c

Pistlar:

4. apríl 2024 kl. 17:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bókadómur: Seðlabankinn gegn Samherja - Eftirlit eða eftirför?

Í hlaðvarpinu Þjóðmálum var Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, spurður af hverju hann hefði tekið slaginn við Seðlabankann út af því máli sem bókin Seðlabankinn gegn Samherja – Eftirlit eða eftirför?, fjallar um. Þorsteinn Már svaraði því til að það hefði skipt miklu að hann gat það. Að fyrirtæki hans væri það stórt og stöndugt og að hann hefði getað barist við það sem fyrir flestir borgarar hefðu talið ofurefli. Hann taldi mikilvægt fyrir aðra sem hafa verið í sömu stöðu að hann tæki slaginn. Merkilegt að heyra slíkar frásagnir af baráttu borgara landsins við opinberar stofnanir og embættismenn. Ekki síst þegar einstaklingar sem starfa í nafni almennings og eru þjónar almennings, leyfa sér sum þau vinnubrögð sem lýst er í bókinni.eftirför

Í bókinni er farið yfir átök á milli Seðlabankans og Samherja, sem staðið hafa í á annan áratug. Allt hófst þetta í kjölfar innrásar starfsmanna Seðlabankans í höfuðstöðvar Samherja í beinni útsendingu Ríkisútvarpsins. Þetta er eitt af mörgum málum þar sem reynir á rétt einstaklinga og fyrirtækja gagnvart valdheimildum hins opinbera. Eftir bankahrunið 2008 virðist réttarstaða einstaklinga hafa veikst vegna þrýstings opinberra eftirlitsaðila og ákærenda. Margt varð þá matskenndara og óljósara en áður. Margir hafa verið dregnir inn í rannsóknir og réttarfar sem hafa staðið árum saman með þeim miklu óþægindum sem því fylgir fyrir viðkomandi einstaklinga. Þessi bók er því áminning um að á öllum tímum þarf að standa vörð um rétt einstaklingsins. Bókin er hluti af mikilvægum bókaflokki Almenna bókafélagsins, Þjóðmálarit AB. Rifja má upp að á tímum heimsveldis Rómverja veltu menn fyrir sér hver ætti eiginlega að hafa eftirlit með eftirlitsmönnunum, eða eins og það hljómaði þá: Quis custodiet ipsos custodes? Það gætu verið einkunarorð þessa bókaflokks þar sem rauði þráðurinn er meðferð opinbers valds gagnvart borgurum landsins sem því miður birtist allt of oft sem hrein og klár valdníðsla.

Rýrnandi traust

Höfundurinn Björn Jón Bragason gjörþekkir þessi mál en bók hans Gjaldeyriseftirlitið – Vald án eftirlits? kom út skömmu fyrir jólin 2016. Hún gaf þá góða innsýn í þessi mál. Björn Jón segir í eftirmála að fyrir um tveimur árum hafi honum orðið ljóst að sagan var ekki öll sögð og málum er vörðuðu gjaldeyriseftirlit Seðlabankans hafi síður en svo verið lokið árið 2016. Ný gögn höfðu komið fram sem fylltu betur upp í þá atburðarás sem sagt var frá í bókinni. Hann afréð því að ráðast í að segja söguna á ný og þá fram til samtímans. Nú leggur hann sérstaka áherslu á þau eftirmál er varða Samherja. Björn Jón er bæði lærður sagnfræðingur og lögfræðingur og stundar nú doktorsnám í lögfræði auk þess að sinna kennslu og skrifum. Þegar fræðistörf hans eru skoðuð sést að hann hefur helgað sig því að skoða réttarstöðu einstaklinga, sérstaklega þegar kemur að rannsókn og ákærumeðferð efnahagsbrota. Hann er því vel að sér í þeim lagalegu álitaefnum sem hér um ræðir eins og sést vel í frásögninni. eftirför2

„Góðan dag, ég er frá stjórnvöldum og er kominn til að hjálpa.“ Þessi orð eru eignuð Ronald Reagan, forseta Bandaríkjanna, og vöktu iðulega hlátur enda skildu áheyrendur hans mótsögnina í orðunum. Það er erfitt þegar hið opinbera knýr dyra. Auk þeirra áhrifa sem það getur haft á einkalíf fólks þá fer líka óhemjumikill tími, orka og fjármunir í allan þann málarekstur sem fylgir, eins og gerðist þegar Seðlabankinn heimsótti Samherja og hóf húsleit sína. Almenningur skynjar að lokum að það er maðkur í mysunni, eins og sést af því að í þjóðarpúlsi Gallup í febrúar í fyrra, kom fram að mjög drægi úr trausti almennings til opinberra stofnana. Samkvæmt skoðanakönnuninni báru 39% mikið traust til dómstóla en til samanburðar treysta um 87% dómstólum í Noregi vel samkvæmt könnun sem framkvæmd var síðla árs 2022. Hefur traust á dómstólum þar í landi haldist í kringum 90% undanfarinn áratug en á tímabilinu 2000-2010 var það 65-75%. Þegar horft er til Noregs er augljóst að við Íslendingar þurfum að gera margt til að bæta réttarstöðu einstaklinga.

Áhrif fjölmiðla

Í málum sem þessum skipta fjölmiðlar ekki síður máli og eftirtektarvert að lesa frásagnir af samspili fjölmiðlamanna og embættismanna sem ætlað er að þjóna hagsmunum beggja. Við sem trúum á mikilvægi fjölmiðla hljótum að undrast lýsingar á ásetningi og því sem virðist vera samsæri um að ráðast á tiltekna menn og taka þá niður. Þessi frásögn sýnir það vel:

„Jóhannes Pálsson, þáverandi framkvæmdastjóri framleiðslu- og markaðsmála Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, var staddur á Reyðarfirði á bóndadaginn 2012. Á þorrablóti um kvöldið hitti hann Helga Seljan, fréttamann Kastljóss Ríkissjónvarpsins, en Helgi er ættaður að austan og hafði tekið virkan þátt í stjórnmálum fyrir Samfylkinguna á heimaslóð. Helgi tjáði Jóhannesi í óspurðum fréttum að hann væri „að vinna með mjög stórt mál núna“. Jóhannes spyr þá af forvitni hvað það sé. Jóhannes segir Helga hafa svarað að bragði: „Nú ætla ég að taka hann!“ – „Taka hvern?“ kvaðst Jóhannes hafa spurt. – „Nú ætla ég að taka Þorstein Má og Samherja!“ Jóhannes varð hvumsa og spurði Helga nánar um málið en þá hefði Helgi tjáð honum að hann hefði vitneskju um að Samherji hefði verið „að svindla með karfann“. Jóhannesi þótti það nú hljóma ótrúlega en Helgi hefði þá lýst því fyrir honum að Samherji hefði stundað það að flytja karfa á erlenda markaði á alltof lágu verði.“ (bls. 57)

Þessum þætti nokkurra fjölmiðlamanna og fjölmiðla eru gerð góð skil í frásögninni og oftar en ekki stutt af nafngreindum heimildarmönnum eða skjalfestum heimildum. Þetta er hluti þess vanda sem nú er við að glíma hjá tilteknum íslenskum fjölmiðlum. Traustið er farið þegar menn taka að sér að flytja fréttir af atburðarásum sem þeir sjálfir hanna og skipuleggja. Þegar fjölmiðlamenn hafa ekki lengur það að markmið að segja frá heldur hafa með beinum hætti áhrif á atburði, nú eða skapa þá sjálfir, eru þeir komnir langt frá hlutverki sínu. Fólk gæti þá allt eins spurt hvort vitundarvakningu Blaðamannafélags Íslands væri ekki betur beint innávið en að almenningi? Það að þær frásagnir sem birtast í bókinni skuli ekki hafa vakið meiri athygli bendir til þess að fjölmiðlamenn veigri sér mjög við að fjalla um álitaefni er varðar þá sjálfa.

Auðvitað er það svo að blaðamenn starfa stundum á gráu svæði. Upplýsinga getur þurft að afla með óhefðbundnum leiðum og þá hafa menn við fátt að styðjast nema eðlilegar vinnu- og siðareglur. Það er hins vegar ekki nema von að menn reki í rogastans þegar í ljós kom að þau Ingibjörg Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, og Helgi Seljan, fréttamaður Ríkissjónvarpsins, áttu í umfangsmiklum samskiptum um þær stjórnvaldsaðgerðir sem eftirlitið hugðist ráðast í gegn Samherja. Tölvuskeytin sýndu nánast samhæfðar aðgerðir fréttastofunnar og gjaldeyriseftirlitsins. Náðu þau samskipti yfir nokkurra vikna tímabil fyrir húsleitina hjá Samherja. Það hlýtur að hafa verið starfsmönnum Samherja mikið áfall að sjá hvernig í pottinn er búið enda hlutlægni Helga þegar málefni Samherja eru annars vegar fyrir löngu horfin. Hann er einfaldlega í herferð gegn fyrirtækinu. Fréttamenn geta vitaskuld þegið ábendingar um að fréttnæmir atburðir séu að eiga sér stað en að þeir skuli beinlínis vera hluti af ferlinu vekur furðu.eftirf3

Aðför fjölmiðlamanna

Hreiðar Eiríksson lögfræðingur varð forstöðumaður rannsókna gjaldeyriseftirlits Seðlabankans í árslok 2010 og hætti störfum hjá eftirlitinu í apríl 2013. Frásagnir hans skipta gríðarlega miklu við að fá yfirsýn yfir vinnubrögð Seðlabankans en um leið galt hann þess dýru verði að hafa ekki leikið með eftirlitinu í málinu. Hreiðar kaus að nýta sér uppljóstraraverndar samkvæmt 18. grein laga um umboðsmann Alþingis. Frásagnir hans urðu til þess að umboðsmaður skrifað forsætisráðherra bréf þar sem hann greindi frá því að upplýsingar frá uppljóstraranum gæfu að hans mati tilefni til þess að rannsaka yrði samskipti starfsmanna Seðlabankans við fjölmiðlamenn í aðdraganda húsleitarinnar hjá Samherja. Hreiðar er fyrsti maðurinn sem lætur reyna á þá vernd sem slíkir uppljóstrarar ættu að njóta. 

Hreiðar lýsir stöðu sinni svona: „Ég sagði honum [umboðsmanni] að ég teldi að nafnleynd myndi ekki gagnast mikið því að þeir sem hlut ættu að máli myndu strax vita hver heimildarmaðurinn væri. Varðandi verndina sagði ég honum frá hótunum Ingibjargar Guðbjartsdóttur varðandi starfsferil minn og að ég hefði ekki nokkra trú á að ákvæðið verndaði mig fyrir afleiðingum af uppljóstruninni því að Ingibjörg og Helgi Seljan myndu strax átta sig á að ég væri uppljóstrarinn.“ (bls. 174).

Hreiðar geldur uppljóstrana sinna og merkilegt að lesa frásagnir af því hvernig blaðamenn sátu um hann og reyndu að hafa af honum starfið en þá var hann kominn til Fiskistofu. Þessu lýsir hann eftirminnilega í kaflanum „Skýrslan sem varð að minnisblaði“. Eftir honum er haft í bókinni: „Þessu var þó ekki lokið þar með. Ögmundur Knútsson fiskistofustjóri upplýsti mig skömmu síðar um að Ingi Freyr og Helgi Seljan hefðu á þessum tíma hringt í hann hvor á eftir öðrum og farið með sömu röngu fullyrðingarnar og Ingi Freyr hafði þulið upp við mig og ég leiðrétt. Nefndi hvorugur viðbrögð mín við fiskistofustjóra en báðir báðu fiskistofustjóra að svara því hvernig ég gæti notið trausts til að starfa þarna áfram þegar þetta lægi fyrir. Fiskistofustjóri er skynsamur maður og áttaði sig strax á því hvað var að gerast. Hann sagðist bera fullt traust til mín og hann ætti von á því að ég hefði rækt skyldur mínar sem lögmaður af sömu heilindum og ég hefði gert hjá Fiskistofu.

Það brast eitthvað inni í mér þarna á skrifstofu fiskistofustjóra. Ég reyndi að láta á engu bera en Ögmundur sá hvernig mér leið og lagði til að ég færi heim. Þótt ég hafi haft hreina samvisku og vitað að þetta voru dylgjur tók þetta mjög á mig og fjölskyldu mína. Eiginkona mín, sem er innflytjandi, átti erfitt með að skilja þetta og hélt í fyrstu að ég væri glæpamaður en ég held að það hafi einmitt verið markmiðið með fréttaflutningnum.“ (bls.192 og 193)

Hreiðar segir við bókarhöfund að þetta hafi tekið svo á hann að í fyrstu hafi hann ákveðið að mæta ekki í Héraðsdómi Reykjavíkur til að bera vitni í skaðabótamáli Samherja gegn Seðlabankanum. Taldi hann það geta kallað yfir sig endurtekið fjölmiðlafár og persónuárásir sem gæti reynst honum og hans nánustu dýrkeyptar. Að lokum hafi honum þó snúist hugur og ákveðið að mæta. Margir líta svo á að í þessum Samherjamálum sé um að ræða baráttu stórfyrirtækis við stjórnvöld en staðreyndin er sú að það eru einstaklingarnir sem tengjast málinu sem fara verst úr því. Vald „sögumannsins“ er einnig mikið í þessu máli sem öðrum.eftirfo4

Pólitíkin á leik

Þá verður ekki horft framhjá áhrifum stjórnmálanna. Það virðist hafa verið svo að fjölmiðlar, stjórnsýslan og stjórnmálin hafi ákveðið að vinna saman gegn Samherja í þessu máli og reyndar fleirum. Það skýrist vel þegar þessi frásögn er lesin:

„Á sama tíma og ráðist var til atlögu við Samherja voru hörð átök um fiskveiðistjórnunarkerfið á Alþingi. Daginn fyrir húsleitina höfðu þau Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskipta-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnt í þinginu fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem væru þær mestu sem gerðar hefðu verið frá því að lögin um það efni tóku gildi árið 1990. Steingrímur fylgdi síðan frumvarpinu eftir með viðtölum við fjölmiðla. Þar á meðal var hann gestur Kastljóss sama kvöld en þessar fyrirhuguðu breytingar voru í huga útgerðarmanna eins konar þjóðnýting á atvinnugreininni. Fréttaskýring Kastljóssins um málefni Samherja daginn eftir kom því í beinu framhaldi og eðlilega veltu Samherjamenn og fleiri því fyrir sér hvort tímasetningin á aðgerðunum gegn þeim hafi verið tilviljun.

Þá sparaði Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra ekki stóru orðin í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins tveimur dögum eftir húsleitina en aðspurð um málarekstur Seðlabankans á hendur Samherja sagði hún að ef menn brytu skattalög og stunduðu „svona viðskipti í gegnum tengda aðila og fara á svig við lögin, þá hefur það áhrif á tekjur sjómanna hérna heima
ef þetta er innanlands og hugsanlega skatttekjur ríkisins. En ef þetta gerist í útlöndum, þá hefur það enn alvarlegri afleiðingar, vegna þess að ef að gjaldeyri er ekki skilað heim, veikir það krónuna, sem aftur hefur áhrif á verðbólguna, sem hefur áhrif á skuldir heimila og fyrirtækja og í rauninni áhrif á kjör alls fólks í landinu.“ (bls. 89 og 90).

Það kemur auðvitað ekki á óvart að vinstri menn telji mikilvægara að styðja við opinbera starfsmenn og stofnanir þegar einstaklingar og fyrirtæki eru í skotlínu þeirra. En bókin dregur ágætlega fram þá pólitísku undirtóna sem eru í málarekstrinum gegn Samherja og birtast meðal annars skýrt í aðkomu stjórnar Seðlabankans sem hvað eftir annað klofnar eftir pólitískum línum. Það hlýtur að vera erfitt fyrri einstaklinga að upplifa slíkt, að þeir eru bara peð í pólitískum hráskinsleik. Það vekur einnig undrun að það er eins og stjórnvöld (í þessu tilviki Seðlabankinn) gat aldrei séð þegar lá fyrir að í óefni var komið. Alltaf skal haldið áfram, þótt löngu sé vitað rangt sé staðið að málum og engar ávirðingar að finna. Það er furðulegt að lesa endurteknar lýsingar á þessu.

„Dylgjur, bull og faglegt fúsk“

Öll þessi atburðarás verður að skoðast í samhengi við það að í nóvember 2019 birti fréttaskýringaþátturinn Kveikur á Ríkisútvarpinu, í samvinnu við blaðamenn Stundarinnar og fréttamenn katarska ríkisfjölmiðilsins Al Jazeera, alvarlegar ásakanir í garð Samherja um mútur og spillingu í starfsemi í Namibíu. Þetta er rekur Björn Jón í bók sinni og bendir á að úr þessu hafi orðið mikið fjölmiðlamál sem sneri fjölmörgum landsmönnum gegn félaginu þrátt fyrir að stjórnendur Samherja höfnuðu ásökunum með öllu. Enn voru mál tengd Samherja vatn á millu pólitískra andstæðinga kvótakerfisins og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var fljót til að krefjast þess til að mynda að eignir Samherja yrðu kyrrsettar, eða „frystar“ eins og hún orðaði það, meðan héraðssaksóknari hefði málið til rannsóknar. Hefði verið farið að vilja hennar, hefði Samherji orðið gjaldþrota með tilheyrandi tjóni. Stjórnvöld brugðust meðal annars við þessum fréttaflutningi með að úthluta embætti sérstaks saksóknara og skattrannsóknarstjóra 200 milljónum króna sem voru eyrnamerktar rannsókn á háttsemi félagsins og starfsmanna þess í Namibíu. Það mál hefur augljós tengsl við það gjaldeyriseftirlitsmálið sem hér er til umfjöllunar og merkilegt að sjá sömu persónur birtast þar aftur og höggva í sama knérunn. Fróðlegt verður að skoða þá sögu þegar rykið hefur sest.

Bók Björns Jóns er mikilvæg samantekt á sérstökum kafla í samtímasögu okkar. Hún er nákvæm og vel unnin þegar kemur að heimildum og staðfestingu atburða og á það skilið að um efni hennar sé fjallað.

Í lokin er ástæða til að rifja upp ummæli Atla Rúnars Halldórssonar, rithöfundar og fréttamanns hjá Ríkisútvarpinu til 13 ára í Eyjafréttum í desember síðastliðnum: „Fréttastofan í Efstaleiti hefur skapað sér í furðulegt harðlífisástand í ákveðnum málum og skortir bæði sjálfsgagnrýni og laxerolíu til að hreinsa sig og vinna traust að nýju. Mér er enn ofarlega í huga þegar RÚV fór á stað með Namibíumálið og gerði Fiskidaginn mikla á Dalvík að „Samherjasamkomu“ í ákveðnum og augljósum tilgangi. Ég þekki innviði og allt gangverk Fiskidagsins út og inn. Fullyrðingar RÚV voru dylgjur, bull og faglegt fúsk.“

Seðlabankinn gegn Samherja - Eftirlit eða eftirför?
Höfundur: Björn Jón Bragason 
Útgefandi: Almenna bókafélagið
234 bls.
Útgáfuár: 2024