c

Pistlar:

20. apríl 2024 kl. 17:32

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Lamaðir innviðir vegna flóttamanna

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í vikunni kom fram að rúmur fjórðungur leik- og grunnskólakennara sér ekki fyrir sér að vera í sama starfi eftir fimm ár, samkvæmt niðurstöðum viðhorfskönnunar Kennarasambands Íslands. Ástæðan er meðal annars rakin til flókinna nemendahópa og að börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli auki álagið á kennara. Nefnt var sem dæmi að þess fyndust dæmi að 90% nemenda í bekk hefðu ekki íslensku sem móðurmál. Af fréttinni að dæma eru kennarar að kikna undan álagi vegna móttöku flóttamanna. Það á við um fleiri hópa og augljóst að innviðir landsins eru að lamast samhliða því að efasemdir um stefnuna aukast. Fleiri fréttir renna stoðum undir þessa mynd þó það sé lítt rætt í fjölmiðlum.flotta2

Skólamaður sem rætt var við lýsti ástandinu þannig að það væri eins og það hefði skollið „fellibylur“ flóttamanna á skólakerfið. Ástandið mótaðist af algeru skipulagsleysi enda fylgdu engir fjármunir né mannafli vegna innflæðis barna. Því til viðbótar væri nánast ómögulegt að standa í samskiptum við foreldra barnanna þar sem stærsti hluti þeirra skildi ekki tungumál, menningu eða annað það sem samfélag okkar byggist á. Kennarar nánast kiknuðu undan þessu.

Óraunhæfar væntingar um lækkun kostnaðar

Á sama tíma tilkynnir nýr fjármálaráðherra að kostnaður vegna flóttamanna og hælisleitenda myndi dragast verulega saman í fjármálaáætlun vegna áranna 2025 til 2029. Búist er við að umsækjendum um alþjóðlega vernd muni fækka smám saman í þúsund umsækjendur í lok tímabilsins og það, ásamt með skilvirkari aðgerðum muni fjárveitingar fara smám saman lækkandi til 2029. Er það raunhæft í ljósi þess hvernig mál eru að þróast erlendis og hafa þróast hér? Flestir alþjóðlegir fréttaskýrendur eru á því að fjöldi flóttamanna til Evrópu munu fremur aukast en hitt. Alls óvíst er að sátt náist um þá lokun landamæra Íslands sem þarf til að stemma stigum við þessu. Á meðan ríkisstjórnarflokkarnir boða lokun eru margir að hamast við að bæta í raðirnar, það er meira að segja búið að einkavæða innflutning á flóttamönnum frá Gasa! Þá blasir við að kostnaðurinn er víða falin í kerfinu og hömlulaust innflæði síðustu ára á eftir að kosta innviði kerfisins okkar ómældar upphæðir sem ekki eru enn gjaldfallnar. Skiptir litlu hvort litið er til heilbrigðiskerfisins, þess félagslega eða skólakerfisins eins og vikið var að í upphafi?sómalía

Ný bylgja Sómala og Nígeríumanna?

Nú þegar dregur úr streymi flóttamanna frá Venesúela og Úkraínu, annars vegar vegna aðgerða til að takmarka innflæði frá Venesúela og hins vegar vegna þess að toppnum er náð hvað Úkraínu varðar þá eykst skyndilega flæði annars staðar frá. Landamærin eru engin hindrun og umsóknum um alþjóðlega vernd frá Nígeríu og Sómalíu hefur fjölgað umtalsvert undanfarin ár eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins í vikunni og meðfylgjandi skýringamynd úr blaðinu sýnir. Um leið hefur Nígeríumönnum og Sómölum sem búa á Íslandi fjölgað umtalsvert. Nú búa á fjórða hundrað Nígeríumenn á Íslandi en umsóknir um alþjóðlega vernd þaðan urðu flestar 2023 eða 116 talsins. Þá búa hér á þriðja hundrað Sómala en umsóknir um alþjóðlega vernd þaðan urðu flestar 2022 eða 102 talsins. Árið 2000 bjó einn einstaklingur fæddur í Sómalíu á Íslandi. Fjöldinn fór í fyrsta skipti yfir 10 árið 2018. Fjöldinn hefur síðan um tuttugufaldast. Sómalar eru múhameðstrúar og hafa átt erfitt með að aðlagast í þeim löndum sem þeir setjast að.

Áframhaldandi innflutningur Solaris

Solaris-samtökin beinlínis auglýsa aðstoð sína á heimasíðu sinni og boða áframhaldandi innflutning flóttamanna frá Gasa. Í frétt þar í febrúarlok sagði að það kostaði 60 milljónir króna að koma þeim rúmlega 100 einstaklingum sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi á þeim tímapunkti út af Gasa.

Ellefu einstaklingar frá Palestínu komu til landsins í vikunni. Þeir komu frá Kaíró í Egyptalandi og var hleypt yfir landamærin með fulltingi sjálfboðaliða Solaris-samtakanna sem nýtt hafa söfnunarfé til að greiða þeim þá leið. Í þessum hópi eru 2 karlmenn, 3 konur og 6 börn. Þá eru 7 manns að auki komin til Kaíró og bíða flutnings til Íslands, en 15 til viðbótar eru enn á Gasa. Þetta fólk kemur hingað til lands á grundvelli fjölskyldusameiningar. Alls eru þetta 33 einstaklingar, 8 karlar, 11 konur og 14 börn.

Falinn kostnaður

Staðreyndin er sú að það fæst aldrei einhlítt yfirlit við kostnað vegna móttöku flóttafólks enda fellur hann til á svo mörgum stöðum. Rökrænar ágiskanir eru á víðu bili eða frá 20 til 40 milljarða árlegur kostnaður. Kostnaður Vinnumálastofnunar (VMST) vegna búsetuúrræða og daggjalda til handa umsækjendum um alþjóðlega vernd reyndist vera um 10,5 milljarðar króna frá júlí 2022. Þetta kom fram í svari frá stofnuninni í vikunni og Morgunblaðið greindi frá þessu en fyrirspurnin var lögð fram 4. apríl. Þar kom fram að tæplega 1.900 umsækjendur um alþjóðlega vernd eru nú í búsetuúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar sem tók við málaflokknum í júlí 2022. Hvað flóttamenn geta gert sjálfir til að bæta hag sinn er önnur saga en hér hefur áður verið gerð tilraun til að ræða það.