c

Pistlar:

30. apríl 2024 kl. 16:34

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kosturinn við Kína er fjarlægðin

Það að formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins lofi og prísi kínverskt stjórnarfar ætti að vera nokkur viðvörun í báðum löndum en í Morgunblaðinu í síðustu viku mátti lesa frásögn af miklum áhuga kínverskra yfirvalda á að efla tengsl við Ísland. Þá rifjast upp, að fyrir okkur Íslendingar er fjarlægðin líklega helsti kosturinn við Kína og má hafa í huga kínverska málsháttinn; fjöllin eru há og keisarinn er langt í burtu.kinasend

Okkur Íslendingum hefur auðnast að eiga ágæt samskipti við Kínverja á mörgum sviðum en það er engin sérstök ástæða til að dýpka þau samskipti eins og Kínverjar vilja helst því þeir trúa því enn að engir virkisveggir séu svo háir að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir. Við skulum því kinka kolli til kínverskra yfirvalda en höldum að okkur höndum, í það minnsta næstu áratugina. Á meðan Kína lýtur alræðisvaldi kínverska kommúnistaflokksins er ágætt að brosa til þeirra en segja nei takk, þegar þeir bjóða samstarf vegna það þess að það er alltaf á þeirra eigin forsendum. Því hafa þjóðir í Suðaustur-Asíu kynnst og þó einkum nágrannar þeirra í Tíbet og Mongólíu. Þeir sem ekki samþykkja ákvarðanir kommúnistaflokksins gjalda þess dýru verði.

Erfiðir nágrannar

Kínverjar eru erfiðir og yfirgangssamir nágrannar eins og íbúar Suðaustur-Asíu vita en mikil tortryggni er meðal íbúa þar í garð Kínverja enda hafa þeir ekki hikað við að beita sér gegn nágrönnum sínum og er þá ástandið við Taívan látið liggja á milli hluta. Bæði Víetnamar og Filippseyingar hafa orðið að þola ágang Kínverja. Íbúar í þessum heimshluta vita að ekki má gefa neitt eftir gagnvart þeim. Gestir í Víetnam undra sig oft á því hve afslappaðir heimamenn eru gagnvart Bandaríkjamönnum í ljósi sögunnar. Víetnamar líta hins vegar á Kínverja sem mestu ógn við sig í dag.

Í síðustu viku var haft eftir He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, að viðræður standa yfir um beint flug til Íslands. Hann sagði að rætt væri um að það geti orðið að veruleika á næstu þremur til fimm árum og sagðist hann gjarnan vilja hraða því ferli. Nefndi hann Air China sérstaklega í þessu efni sagði í frétt Morgunblaðsins.

Þetta kom fram á hádegisverðarfundi í kínverska sendiráðinu í þar sem He sendiherra hafði framsögu um stöðu efnahagsmála í Kína. Tilefnið var að „leiðrétta“ ýmsar ætlaðar rangfærslur um kínverskt efnahagslíf en hér hefur í pistlum oft verið vikið að stöðu mála í Kína eins og það birtist alþjóðlegum fréttaskýrendum. He vakti athygli á því að kínverska hagkerfið hefði vaxið mikið á síðustu árum. Þótt hægt hefði á hagvexti væri hagkerfið að stækka mikið ár hvert.

Beint flug milli Íslands og Kína

Það er vonandi að þessi sendiherra lendi ekki í því sama og fyrirrennari hans sem einfaldlega hvarf eins og fjallað var um hér. Hann veit því hvað til síns friðar heyrir og fjallaði meðal annars um það í fyrirlestri sínum að kínversk stjórnvöld legðu vaxandi áherslu á virðisaukandi framleiðslu í stað mannaflafreks iðnaðar, samhliða hækkandi tæknistigi í landinu. - Og hratt fækkandi mannfjölda í Kína ef hann hefði viljað segja alla söguna.

Forvitnilegast var þó það sem hann sagði um áform um beint flug milli Kína og Íslands. Það setti hann í samhengi við fjölda kínverskra ferðamanna á Íslandi og taldi fullvíst að fyrri met myndu falla með greiðari flugsamgöngum. Hann sagði að hægagangur við afgreiðslu á vegabréfsáritunum í sendiráði Íslands væri flöskuháls. Það er vitaskuld allt í lagi að taka við einhverjum hópi Kínverja árlega en að þeir flæði hér yfir vilja líklega fáir.

Sendiherrann sagði líka að unnið væri að endurbótum á fríverslunarsamningi Kína og Íslands. Með tíð og tíma gæti Ísland orðið mikilvægur staður fyrir umskipun á kínverskum vörum til Evrópu og sú starfsemi eðal annars kallað á uppbyggingu vöruhúsa hér á landi. Margir á Vesturlöndum hafa áhyggjur af því að verða of háðir Kína og að draga þurfi úr því. Það er því óþarfi fyrir Íslendinga að vera bláeygðir á því sviði. Margar þjóðir sem hafa tekið við fjármagni frá Kínverjum sem hafa reynst ósveigjanlegir eftir að þeir eru komnir inn fyrir múranna. Þá er ljóst að við Íslendingar eigum ýmislegt órætt við Kínverja þegar kemur að fiskveiðum en rányrkja kínverska fiskiskipflotans á úthöfum er mikið vandamál eins og rætt hefur verið hér.kinvflot

Harðnandi afstaða Nató til Kína

Að lokum er ástæða til að vekja athygli á að afstaða Nató til Kína hefur harðnað eins og Albert Jónsson sendiherra hefur vakið athygli á. Albert segir að þessi afstaða hefði mótast á leiðtogafundum bandalagsins undanfarin ár og tekur mið af því lykilatriði í þróun alþjóðamála,sem felst í samkeppni Bandaríkjanna og Kína á Asíu-Kyrrahafssvæðinu og á heimsvísu. Þá hefur stuðningur Kínastjórnar við hernað Rússa gegn Úkraínu hert afstöðu Kanada og Evrópuríkja Nató til Kína.

Gefum Alberti lokaorðið: „Eftir því sem samkeppni Bandaríkjanna og Kína harðnar og verður æ fyrirferðarmeiri á alþjóðavettvangi mun Ísland – eins og mörg önnur ríki – í vaxandi mæli þurfa að taka afstöðu til hennar bæði almennt og varðandi einstök mál.“ Þetta veit He Rulong og því hagar hann máli sínu með áðurnefndum hætti. Við skulum gjalda varhug við því.