c

Pistlar:

3. maí 2024 kl. 15:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Virkjum Bessastaði!

Orkumál eru í fyrsta skipti kosningamál í forsetakosningum á Íslandi og spurning hvort slagorð Ástþórs Magnússonar um virkjun Bessastaða verði loksins að veruleika! Erfitt er að segja nákvæmlega hvað veldur þessari tengingu, það að orkumálastjóri er í framboði eða staða orkumála á Íslandi þar sem stefnir í orkuskort? Sjálfsagt hafa báðir þessir þættir áhrif þó með ólíkum hætti sé. Við Íslendingar höfum sett okkur margvísleg markmið í orku- og loftslagsmálum en eðlilegt er að tvinna þeim saman. En við virðumst enn deila um markmið og leiðir og ekki síður um hvar við stöndum í dag í alþjóðlegum samanburði.bessastadastofa-frost-h1500px

Staðreyndi er sú að við erum áratugum á undan öðrum löndum þegar kemur að umhverfisvænni orku sem gerir það að verkum að við eigum í raun engin sameiginlega markmið með til dæmis Evrópusambandinu eins og Albert Jónsson alþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi sendiherra hefur bent á. Að því leyti má segja að við Íslendingar séum í öfundsverðri stöðu og þessar nágrannaþjóðir geta bara látið sig dreyma um að komast þangað sem við erum í dag, með um 80% endurnýtanlega orku.

Aðferðafræði rammaáætlunar eyðilögð

Það einfaldar ekki endilega málið þegar kemur að okkar eigin stefnumótun. Eins og Albert hefur bent á ættum við að vera að vinna að því að móta eigin stefnu, þá miðað við núverandi stöðu okkar og þau tækifæri sem við höfum. Um það er hins vegar augljóslega ekki pólitísk eining og því miður hafa stjórnmálaflokkarnir eyðilagt það tæki sem fólst í rammaáætlun um vernd og orkunýtingu einstakra svæða. Eins og til hennar var stofnað hefði hún getað virkað sem skynsamleg leið til að taka ákvarðanir um framtíðar orkukosti. Reyndin er sú að vinstrimenn hafa ekki sætt sig við þessa aðferðafræði og þar hafa VG liðar verið fremstir í flokki og umhverfisráðherrar þeirra.

Markmið ríkistjórnarinnar er að hér verði náð fullum orkuskiptum árið 2040 og þá verði búið að taka jarðefnaeldsneyti út úr kerfinu. Reyndin er önnur, nú síðast hefur breyting á skattlagningu rafmagnsbíla snúið algerlega við þróuninni og nú seljast varla rafmagnsbílar en dísil-bílar seljast sem aldrei fyrr! Þannig virðist ríkisstjórninni með einni breytingu hafa tekist að snúa við jákvæðri þróun og vinna gegn eigin stefnu og skapað furðulegar þverstæður. Þegar síðan er horft á orkuskort í kerfinu og aukningu í notkun jarðefnaeldsneytis við orkuframleiðslu verður ekki séð annað en að Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hafi rétt fyrir sér þegar hann segir að hér séu í raun í gangi öfug orkuskipti. Við erum á leið frá umhverfisvænum orkugjöfum í átt að frekari nýtingu jarðefnaeldsneyti. Þetta gerist þrátt fyrir að atvinnulífið sé tilbúið að vinna með eins og sést af gríðarlegum samdrætti jarðefnaeldsneytis hjá fiskiskipaflotanum. Önnur dæmi mætti tína til. Því má spyrja hvort það séu ekki í raun stjórnvöld sem þvælast fyrir eigin áætlun? Furðulegar hugmyndir um að embættismenn fái að stýra hver eigi að fá orkuna eru ekki traustvekjandi en inn í þá umræðu blandaðist einmitt orkumálastjóri.virkjun2

Þurfum mikla viðbótarorku

Lausn stjórnmálamanna þegar í óefni er komið er að skipa nefnd og í febrúar 2023 skipaði umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra starfshóp til að kanna helstu leiðir til bættrar orkunýtingar og orkuöflunar með hliðsjón af sviðsmyndum um aukna orkuþörf vegna markmiða ríkistjórnarinnar um full orkuskipti 2040. Varðandi orkuöflun var starfshópnum sérstaklega falið að skoða nýja orkukosti á borð við sólarorku (birtuorku) og sjávarfallaorku sem og aðra orkukosti en þá sem falla undir rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þessi skýrsla liggur fyrir og er ágætt innlegg þó vitaskuld megi deila um hve raunhæfar tillögurnar eru og augljóslega er hin raunverulega stefnumótunarvinna eftir.

Í skýrslu nefndarinnar er dregin saman gagnlegur fróðleikur sem á skilið eftirtekt. Þar er til dæmis bent á að í sviðsmyndum Orkustofnunar og Samorku sé gert ráð fyrir að 2.688 til 3.121 GWst af viðbótarorku þurfi fyrir samgöngur á landi til ársins 2040. Fyrir full orkuskipti, á landi, sjó og í lofti, þarf mun meiri viðbótarorku eða 15.648 GWst, samkvæmt útreikningum Samorku.

Í nýrri raforkuspá Landsnets fyrir árin 2023-2060 er gert ráð fyrir að orkuskiptum í samgöngum á landi, vélum, tækjum og innanlandsflugi verði náð árið 2040 og í skipasiglingum og millilandaflugi árið 2050. Heildarorkuþörf árið 2040 samkvæmt raforkuspá Landsnets verður 31.526 GWst, sem þýðir að viðbótarorkuþörfin frá árinu 2022 er hvorki meiri né minni en 12.000 GWst. Landsnet áætlar að orkuþörf vegna orkuskipta í millilandaflugi og skipasiglingum nemi 73% af orkuþörf orkuskipta, en gert er ráð fyrir að þessir tveir þættir verði að mestu knúnir með rafeldsneyti.virkjun

Sólarorka eða kjarnorka?

Erfitt er að hafa nokkra trú á að þessi markmið náist. Í skýrslunni sem nú liggur fyrir er að finna 50 tillögur sem meðal annars snúa að sólarorku, sjávarorku, smávirkjunum fyrir vatnsafl, varmadæluvæðingu á smærri og stærri skala, bættri orkunýtni og sveigjanlegri orkunotkun. Allt er þetta gott og blessað en erfitt er að trúa að einhver ætli að byggja lausn til langframa í orkumálum hér á landi á sólarorku! Er það ekki álíka raunsætt og hugmyndir um djúpboranir, nú eða vindorku sem fólkið í landinu vill augljóslega ekki. Hugsanlega hefði nefndin átt að beina sjónum sínum að kjarnorku! Eru þar ekki að verða markverðustu breytingarnar í tækni?