c

Pistlar:

9. maí 2024 kl. 20:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Duero - þar sem púrtvínið skákar rauðvíninu!

Duero-áin er eitt helsta kennileiti Portúgals en hún á þó upptök sín í fjöllunum langt norður af Madríd á Spáni þar sem hún rennur frá norðaustri til suðvesturs. Vegferð hennar til sjávar er löng en hún er talin vera alls um 890 km og þar af eru 260 km innan landamæra Portúgals. Til samanburðar er Þjórsá lengsta á Íslands en hún rennur um 230 km leið frá upptökum til ósa. Duero er heill landfræðilegur heimur en er þó án efa þekktust fyrir vínin sem við hana eru kennd og eru órjúfanlegur hluti af matarmenningu Portúgala og þó sérstaklega þeirra sem lífa í Porto og á nærliggjandi svæðum. Áin rennur í gegnum Porto og þar til sjávar og má segja að lífið í kringum ánna sé miðpunktur afþreyingar og veitingastaðalífs Porto. Duero er því enginn venjuleg á.duero

Á heimsminjaskrá

Alto Douro svæðið í Portúgal er á heimsminjaskrá með vísun í að vín hefur verið framleitt af íbúum á svæðinu í um 2.000 ár. Alto vísar til efri hluta svæðisins en verndunin nær ekki niður til Porto. Sú langa hefð sem er fyrir vínrækt þarna hefur skapað einstaka menningu sem endurspeglar tæknilega, félagslega og efnahagslega þróun svæðisins í heild. Það þótti UNESCO tilefni til að setja svæðið í heild á heimsminjaskrá sem er mjög merkileg nálgun á samspil náttúru, landslags og menningar.

Fornleifafræðin hefur fært sannanir fyrir víngerð við Duero frá lokum Vestrómverska heimsveldisins, á 3. og 4. öld e.Kr., þó að vínberjafræ hafi einnig fundist á eldri fornleifum. Á miðöldum, eða frá miðri 12. öld, höfðu munkar mikil áhrif á víngerð á svæðinu, í gegnum þrjú klaustur sín, Salzedas, São João de Tarouca og São Pedro das Águias.

Á 17. öld stækkuðu vínekrur svæðisins og fyrsta þekkta nafnið á „portvíni“ er frá árinu 1675. Methuen-sáttmálinn milli Portúgals og Englands árið 1703 og stofnun margra breskra portskála í Porto í kjölfarið varð til þess að portvín varð aðalafurð svæðisins og varð Portúgal efnahagslega mikilvæg. Sem hluti af reglusetningu um framleiðslu og viðskipti með þessa verðmætu vöru skilgreindi konungleg portúgölsk tilskipun frá 10. september 1756 framleiðslusvæði fyrir púrtvín. Þar með varð það fyrsta vínhérað heimsins til að hafa formlega afmörkun. Víngarðarnir sem þessi afmörkun nær yfir voru staðsettir í vesturhluta núverandi svæðis. Síðar hafa vínekrur stækkað smám saman til austurs í heitari og þurrari svæði.duero2

Dagsferð með Antonio

Í ferð til Porto fyrir skömmu ákváðum við að kaupa dagsferð til að skoða Duero svæðið og lögðum við af stað frá Sao Bento brautarstöðinni í miðbænum undir leiðsögn Antonios leiðsögumanns sem gaf okkur skýrslu með reglulegu millibili. Við höfðum bókað ferðina í gegnum Úrval Útsýn og fengum góða samferðarmenn frá Íslandi, Hollandi og Bandaríkjunum. Það hefði þó verið nokkuð ódýrara að kaupa ferðina á staðnum. Hraðbrautin út úr Porto var tekin norður en fljótlega sveigt út af henni og stoppað í litlum en einstaklega fallegum bæ, Ponte de São Gonçalo, þar sem Rio Tamega áin rennur í gegn og út í Duero. Tamega áin er um 145 km löng og talsvert virkjuð og gefur samtals um 880 MW afl.

Púrtvínið tekur öðru fram

Frá Ponte de São Gonçalo lá leiðin upp í hæðir Duero-árinnar í hádegisstopp á fallegum útsýnisstað og fengum við hádegisverð á nærliggjandi veitingastað. Þetta var svolítið dæmigert túristastopp (nema hvað!) en bara skemmtilegt og talandinn hjá mörgum ferðafélögum liðkaðist við glas af vín. Ég sat hjá bandarískum hjónum frá New Jersey sem sögðust heimsækja Portúgal reglulega, líklega til að sleppa frá látunum í pólitíkinni heima fyrir.du4ero2

Eftir hádegi var lagt af stað í Gravuras do Côa víngerðina en hún á uppruna sinn í hlíðum vinstri bakka Douro-árinnar. Eftir stuttan fyrirlestur fróðrar og glaðværrar stúlku um berjatínslu og vinnslu berjanna fengum við að smakka á rauðvíni og púrtvíni en þau síðarnefndu eru stolt svæðisins enda framleiðsla þeirra bundin við Duero. Rauðvínin frá Duero eru afbragðsgóð en heimamenn flagga púrtvínunum af miklu stolti og það eru sér fræði að setja sig inn í gæði þeirra og hvað mótar þau. Við fengum að smakka þrjú púrtvín, Gravuras do Côa Porto Ruby, Gravuras do Côa Porto White og Gravuras do Côa Porto Tawny. Öll með sínu lagi eftir aldri og áferð en sérlega ljúfeng.

Landslagið engu líkt

Landslagið þarna er engu líkt og gróðursældin gríðarleg enda heldur meiri raki en á flestum víngerðarsvæðum. Sumarhiti getur orðið talsverður og síðasta sumar sló hann upp í 50 gráður sem er sem betur fer undantekning. Víngerð á sér djúpar rætur og merkar í Douro dalnum sem er með eindæmum frjósamur og þar er fyrir bragðið að finna marga aldagamla vínframleiðendur með mikla hefð á bak við sig. Víngerðarhúsin eru mörg og þau merkja sig rækilega á leiðinni enda mikill túrismi í kringum svæðið. Duero áinn er stífluð á tveimur stöðum í Portúgal og keyrðum við yfir aðra stífluna. Gömlum Landsvirkjunarmanni í hópnum fannst ekki mikið til um stífluna sem var innan við 30 metra há og líklega eru menn ekki að taka mikla orku úr henni. Stíflunum er fremur ætlað að jafna rennsli árinnar sem er rauð af leirframburði sínum.duero3

Sælkeraferðamennska er orðinn snar þáttur í ferðum um Duero og þá sigla fljótabátar um ánna. Þar er vikuferð seld allt frá 750 evrum upp í 10 þúsund evrur þannig að hver getur fengið þau gæði sem hann er tilbúinn að borga fyrir. Víða mátti sjá glæsigistingu en mörg víngerðarhús bjóða upp á gistingu samfara kynningu á vínum sínum. Ef lýsa ætti vínunum við Duero í einni setningu mætti segja að þau spanna allt frá léttum vínum í Bordeaux-stíl til ríkulegra búrgúndískra vína sem eru þroskaðir í nýrri eik. Um portúgölsk vín sem slík hefur áður verið fjallað hér í pistli.

Þegar sagt er að hefðin standi á gömlum merg á þessu portúgalska víngerðarsvæði er ekki verið að færa í stílinn; elstu heimildir um víngerð á staðnum ná aftur til Rómverja eins og áður sagði og landslagið allt er mótað í gegnum aldirnar. Vínviðurinn les sig upp hlíðarnar sumstaðar á manngerðum stöllum og innan um eru ólívutré og annar gróður sem eykur fjölbreytni landslagsins. En fegurð landslagsins tekur öllu fram og þessi dagsferð var vel heppnuð og braut sannarlega upp bæjarröltið í Porto.