c

Pistlar:

5. júní 2024 kl. 17:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Parísarleikarnir - met slegið í öryggisgæslu

Ólympíuleikarnir í París eru stærsti íþróttaviðburður sögunnar í Frakklandi og mikið undir að vel takist til. Ljóst er að öryggisráðstafanir vegna leikanna verða umfangsmeiri en áður hefur sést. Tony Estanguet, yfirmaður undirbúningsnefndar vegna leikanna, hefur látið hafa eftir sér að leikarnir verði verndaðir með „fordæmalausum“ öryggisráðstöfunum.parís

En það er ekki aðeins í Frakklandi sem mikið stendur til því í næstu viku hefst Evrópumeistaramótið í knattspyrnu í Þýskalandi og einnig þar verða öryggisráðstafanir fordæmalausar. Þessi kjarnaríki Evrópu hafa búið við frið síðan þau bárust á banaspjótum í heimsstyrjöldinni síðari og lagt sig mjög eftir að tryggja friðinn, meðal annars með samvinnu sín á milli. En nú þegar bæði löndin standa fyrir glæsilegum íþróttahátíðum minna öryggisráðstafanirnar fremur á aðgerðir í löndum sem búa við stríðsástand. Það er ekki ytri ógn sem kallar á þessar aðgerðir heldur hefur friðurinn verið rofin heima fyrir. Ógnin kemur að innan.

Fækkað um helming í opnunarathöfninni

Stefnt er að því að opnunarathöfnin í París verði sú fyrsta sem haldin verður fyrir utan sjálfan Ólympíuleikvanginn, en búist er við að meira en 10.000 íþróttamenn sigli um 6 km leið eftir Signu á 160 prömmum. Upphaflega ætluðu skipuleggjendur leyfa um 600.000 manns að fylgjast með athöfninni frá árbökkum, en sá fjöldi hefur verið minnkaður niður í 300.000. Þá fá ferðamenn ekki ókeypis aðgang að athöfninni eins og upphaflega var áætlað. Þess í stað verða miðar eingöngu í boði, ekki með opinni skráningu.

Undanfarna mánuði hafa átt sér stað atburðir í báðum löndunum sem hafa staðfest mikilvægi öryggisráðstafanna. Frakkland hækkaði öryggisstig landsins í október síðastliðnum þegar kennari var drepinn í hnífaárás í skóla í Arras. Í desember lést þýskur maður og tveir aðrir særðust í hnífa- og hamraárás á götu í miðborg Parísar af hendi 26 ára gamals manns sem tengdist Ríkis íslams (IS).paris2

Eins og hefur margoft verið rakið hér í pistlum hefur trúarlegum ofbeldisverkum fjölgað verulega í Frakklandi samhliða auknum gyðingaofsóknum. Fyrir fjórum árum var 47 ára gamall sagnfræðikennari, Samuel Paty, hálshöggvinn á götu í Frakklandi. Það gerði 18 ára drengur, Abdullakh Anzorov, en fjölskylda hans kom frá múslímaríkinu Téténíu þegar hann var sex ára og fengu hæli. Eftir ódæðið lá höfuð Samuels á götunni aðskilið frá líkamanum. Morðið var óhugnanlegt en sex unglingar voru ákærðir fyrir aðkomu sína að morðinu. Franskt réttarkerfið fékk nýja tegund af glæpum upp í hendurnar og féll dómur í desember síðastliðnum eftir réttarhöld sem vöktu mikla athygli í Frakklandi en fáar fréttir voru sagðar af hér á landi.

Ríki íslams í ólympíustuði

Evrópskir öryggissérfræðingar hafa varað við vaxandi hættu á árásum vígamanna íslamista vegna stríðsins milli Ísraels og Hamas á Gasa. Hótanir Ríkis íslams gegn leikjum í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fótbolta drógu ekki úr en þær beindust sérstaklega að leiknum í París. Í apríl var færslu deilt af Al-Azaim Foundation, fjölmiðlarás sem ber ábyrgð á að dreifa skilaboðum frá IS-K útibúi herskárra íslamista, sem skipuleggjendur tóku alvarlega. IS-K lýsti einnig yfir ábyrgð á mannskæðri árás í Moskvu í mars.

„Við ættum ekki að vera of barnalegir,“ sagði Estanguet í samtali við BBC í apríl síðastliðnum og bætti við: „Við vitum að fólk mun reyna að nýta sér þá alþjóðlegu athygli sem leikarnir fá. Við verðum að halda ró okkar og kynna og verja það sem er mikilvægast í þessum viðburði. Og fyrir mig er það íþróttirnar.“ Estanguet sagði að það væri fjölþjóðlegt átak að tryggja öryggi leikanna og frönsk yfirvöld ynnu með yfirvöldum um allan heim að því. Undanfarið hefur barátta fyrir útilokun Ísraels frá leikunum harðnað en Ólympíunefndin hefur ekki viljað ljá máls á því til þessa þó það myndi án efa einfalda öryggisráðstafanir fyrir Frakka.parís3

Abbas vildi ekki fordæma hryðjuverkin í München

Skipuleggjendur Ólympíuleikanna og EM eru að sumu leiti fangar sögunnar. Fyrir tveimur árum heimsótti Mahmoud Abbas, forseti Palestínsku heimastjórnarinnar (PA), Þýskaland. Heimsóknin var að sumra áliti tilraun til að bæta ímynd hans og samtakanna í Evrópu. Í Berlín sat hann fyrir svörum á fundi með Olaf Scholz, kanslara Þýskalands. Blaðamaður meðal áheyrenda spurði Abbas hvort hann myndi fordæma hryðjuverkin sem palestínskir hryðjuverkamenn frömdu á Ólympíuleikunum í München árið 1972. Í stað þess að svara spurningunni skipti Abbas um umræðuefni og að sumra mati gerði hann lítið úr Helförinni.

Í því sambandi má minna á að nýleg ummæli Maximillians Krahs, oddvita AfD flokksins í Þýskalandi, um að liðsmenn SS hefðu nú ekki allir verið svo vondir menn, leiddu til þess að AfD var vikið úr þingmannahópi þjóðhyggjuflokka. Allt eru þetta jarðsprengjusvæði í umræðunni en vert er að rifja upp að það voru palestínsku hryðjuverkasamtökin „Svarti september“ sem stóðu að baki árásinni í München og nutu meðal annars aðstoðar tveggja vestur-þýskra nýnasista. 11 ísraelskir ólympíufarar létust.

Þjóðverjum er vandi á höndum, því það er óbifanlegur sögulegur ásetningur þeirra að standa ávallt með Ísraelsríki vegna þess sem gerðist í Helförinni. Um leið hefur samsetning íbúa Þýskalands breyst nokkuð og nýir landsmenn, sem margir eru múslimir, sjá ekki þessa sögulegu nauðsyn. Leikarnir standa yfir frá 26. júlí og til 11. ágúst.