c

Pistlar:

9. júní 2024 kl. 17:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gustar um Donald Trump

Steve Bannon er einn margra pólitískra ráðgjafa Donalds Trump til að hljóta dóm. Nú hefur Bannon verið gert að gefa sig fram við fangelsisyfirvöld og hefja fljótlega fjögurra mánaða afplánun. Sakirnar virðast ekki miklar en Bannon var sakfelldur í október árið 2022 fyrir að vanvirða þingnefnd þegar hann neitaði að bera vitni í tengslum við rannsókn hennar á innrás stuðningsmanna Trumps í þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar 2021. Áfrýjunardómstóll í Washington staðfesti sakfellinguna og því er Bannon á leiðinni í steininn. Sjálfur segir hann um pólitískar ofsóknir að ræða og að ætli með málið fyrir Hæstarétt.Donald 1

Segja má að tvennskonar kosningabarátta fari nú fram í Bandaríkjunum. Hin hefðbundna barátta milli tveggja frambjóðenda stóru flokkanna og svo barátta fyrir dómstólum. Donald Trump þarf nú að eyða stórum hluta af sínum tíma til að verjast saksóknurum og dómurum sem eru í mörgum tilfellum demókratar eða fjárhagslegir stuðningsmenn Demókrataflokksins. Sem gefur að skilja hefur þetta gríðarleg áhrif á stjórnmálabaráttuna og eykur á þá pólitísku skautun sem nú virðist vera að kljúfa þjóðina í tvennt.

Það er svo sem ekki nýtt að forsetar verði að þola allskyns málaferli í Bandaríkjunum og Clinton hjónin komu nánast gjaldþrota út úr Hvíta húsinu vegna málaferla og sáttagreiðslu. Er hér átt við Lewinsky-málaferlin, Whitewater hneykslið og 250 milljón króna sáttargreiðslu til konu að nafni Paula Jones, til að koma í veg fyrir að sitjandi forseti yrði kærður fyrir kynferðislega áreitni. Við getum bara vonað að það hafi verið skráð undir réttum bókhaldslykli! Þau voru fljót að vinna það upp þegar forsetatíð Bill Clintons lauk en Obama-hjónin slógu þó öll met í auðsöfnun eins og farið var yfir hér.

Dómur og hylling bardagamanna

Í langri sögu Bandaríkjanna er Donald Trump fyrsti fyrrverandi forsetinn sem hefur fengið yfir sig ákæru. Segja má að málaferlin yfir honum núna séu fjórþætt; valdaránið 6. janúar 2021, kosningaafskiptamálið í Georgíuríki; leyniskjalamálið og svo sáttargreiðsla (hush money payment) til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels í aðdraganda forsetakosninganna 2016. Í síðasta málinu var Trump sakfeldur í öllum 34 ákæruliðum.

Þessi mikli fjöldi ákæruliða kemur til af því að Trump greiddi sáttina, andvirði 23,5 milljóna króna, í 11 greiðslum. Ákært var fyrir allar 11 greiðslurnar, það er, hverja fyrir sig, en einnig voru ákæruliðirnir 11 vegna greiðslnanna, sem hann afhenti lögmanni sínum, til að greiða Stormy Daniels. Þá var hann ákærður í 12 ákæruliðum fyrir hvernig hann skráði þessar 11 greiðslur í bókhald sitt sem „lögfræðiráðgjöf“. Hefði Trump til dæmis greitt Stormy Daniels alla upphæðina með einni greiðslu gegnum lögmann sinn hefði ákæruliðirnir einungis orðið þrír. Auðvitað hefði ákæruvaldið einnig hæglega getað haft ákæruna í færri liðum en ástæða þess að Trump greiddi Stormy Daniels jafnt og þétt, var til þess að koma í veg fyrir, eða réttarasagt tefja, að hún færi með sögu sína í fjölmiðla. Rétt er að benda á að Trump neitaði eindregið að hafa verið með Stormy Daniels en hann staðfesti að hann hefði viljað kaupa sig frá þessum ásökunum sem komu upp skömmu fyrir forsetakosningarnar 2016.donald3

Sakfellingin hindrar ekki framboð Donald Trumps til forseta en þetta er fyrsta skipti sem fyrrum forseti er sakfelldur í sakamáli. Hann hyggst vitaskuld áfrýja dómnum. Þess má geta að eftir að dómur féll lét Trump vera sitt fyrsta verk að mæta á UFC samkomu bardagamanna (Ultimate Fighting Championship). Rúmlega 16.000 áhorfendur stóðu upp og fögnuðu hönum ákaft þegar hann gekk eins og bardagamaður inn í Newark Prudential höllina í New Jersey undir laginu „American Badass“ í flutningi söngvarans Kid Rock. Lagið inniheldur textann „The chosen one, proof that I am alive,“ og er notað sem uppklappslag fyrir Trump.

Eldra mál, sem Letitia James, ríkissaksóknari New York-ríkis, höfðað sem borgaralegt mál (e.civil suit) á hendur Donald Trump og þremur börnum hans með ásökunum um að hann hafi ýkt nettóeign sína um hundruð milljóna bandadala til að fá bankalán og þar með mögulega auðga sjálfan sig var einnig til umfjöllunar hér í pistli.

Málaferlin vegna Stormy Daníels voru sérlega ánægjuleg að dómi andstæðinga Donald Trumps enda heldur niðurlægjandi að velta honum upp úr samskiptum við klámmyndaleikkonu. Var sú ákvörðun saksóknara að boða Stormy sjálfa í vitnastúku meinfýsin, þar sem málið snýst um sjálfa greiðsluna en ekki hana sem slíka og framburður hennar því einungis til að lítillækka forsetann. Menn voru hins vegar sammála um að sú ákvörðun saksóknara um að færa ákærur undir brot á kosningalögum hafi kallað á lögfræðilega loftfimleika enda hafði málið tvívegis verið skoðað áður af yfirvöldum og þá ekki talið tilefni til ákæru. Sumir gagnrýnendur halda því fram að saksóknarar hafi farið fram úr sér með því að breyta einföldum bókhaldsbrotum í mál um kosningaafskipti. En dómurinn féll eigi að síður.

Veisla hjá fjölmiðlum og lögfræðingum

Engum blandast hugur um að þessi dómsmál eru af pólitískum toga þótt margar athafnir Donald Trumps séu umdeildar. Það á einnig við um eftirmann hans Joe Biden og ekki síður hneykslin sem umlykja Hunter, son hans. Fjölmiðlar fjalla eðlilega mjög mikið um þessi málaferli og margar bækur eiga eftir að koma út þar sem reynt verður að skýra það sem er um að ræða, hvort sem er litið til stjórnmála eða lögfræði. donald2

Nýlega rakst pistlaskrifari á bókina The Trump Indictments: The Historic Charging Documents with Commentary. Um er að ræða umfangsmiklar athugasemdir frá lagaprófessorum Melissu Murray og Andrew Weissmann sem einnig eru álitsgjafar MSNBC, sem er vinstrisinnuð sjónvarpsstöð. Eftir að hafa flett henni ákvað ég að kaupa hana ekki enda meira eins og handbók um málaferlin en fannst merkilegt að svona útgáfa birtist. Einnig má sjá langar umfjallanir í vinstrifjölmiðlum eins og Politico og The Atlantic sem gefa ágæta yfirsýn yfir málaferlin og stundum ekki þá einföldu sýn sem berst hingað til Íslands.

Fjölmiðlar fara offari

Stundum fara einstaka fjölmiðlar offari og skemmst að minnast þess þegar Washington Post og New York Times urðu árið 2021 að draga til baka ógeðfeldar umfjallanir um Donald Trump. Þannig tók Washington Post hið óvenjulega skref að leiðrétta og fjarlægja stóra hluta tveggja greina, sem birtar voru í mars 2017 og febrúar 2019, sem höfðu bent á hvít-rússneskan bandarískan kaupsýslumann sem helstu uppsprettu „Steele-skjalsins,“ sem var safn af að mestu óstaðfestum skýrslum sem fullyrtu að rússnesk stjórnvöld byggju yfir hættulegum upplýsingum um þáverandi frambjóðanda, Donald Trump.

Það var erfitt fyrir þessi fornfrægu stórblöð að ganga þessi svipugöng enda höfðu þau uppskorið Pulitzerverðlaunin fyrir umfjöllunina. Það var þó ekki annað hægt eftir að í ljós kom að kosningateymi Hillary Clintons fjármagnaði skýrslu um meint svalllíf Trumps, sem Christopher Steel, fyrrverandi starfsmaður bresku leyniþjónustunnar M16 tók saman. Þess vegna neyddist Washington Post til að biðjast opinberlega afsökunar á að hafa dreift lygum um Trump. Christopher Steele sagði við fréttastofu ABC sjónvarpsstöðvarinnar árið 2021 að myndbandið, sem hann fullyrti í skýrslunni að væri til og sýndi „Trump horfa á gleðikonur pissa í rúmið, sem Obama svaf í á hóteli í Moskvu, „væri kannski til en ég myndi ekki segja að það væri 100%.“ Eins óviðfelldið og þetta er þá er það kannski ágæt lýsing á því sem nú gengur á í Bandaríkjunum, fáu er hægt að taka sem vísu á þessum óróatímum.