c

Pistlar:

14. júní 2024 kl. 10:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nvidia og gervigreindarkapphlaupið

Í liðinni viku gerðist það að fyrirtækið Nvidia fór framúr úr Apple þegar litið er til markaðsvirðis. Félagið náði þeim tímamótum að vera metið á þrjú þúsund milljarða Bandaríkjadala og komst fyrir vikið í heldur fágætan hóp. Það er auðvitað merkilegt að markaðsvirði Nvidia sé það sama og Apple þar sem velta og hagnaður Apple er mun meiri, enda eitt eftirsóttasta vörumerki heims. Rekstrartölur Nvidia breytast þó með stjarnfræðilegum hraða og það ýtir á eftir ákafa fjárfesta.nividia

Staðreyndin er sú að allir horfa til Nvidia núna en fyrirtækið hannar örflögurnar (tölvukubbana) sem gervigreindarheimurinn treystir á. Það er síðan fyrirtækið Taiwan Semiconductor Manufacturng sem sér um framleiðslu örflaganna. Í raun skipta þessar örflögur svo miklu máli í heimi gervigreindar að Taívan er meira en bara vettvangur vopnaskaks Kínverja í heimi alþjóðaviðskipta. Taívanar hafa samkeppina í þessum heimi í hendi sér og því fara saman pólitískir og efnahagslegir hagsmunir þarna austur í Kínahafi en það er önnur saga. Skoðum Nvidia sem fáir utan tölvuheimsins vissu af fyrir nokkrum misserum.

Verkfræðiundur

Pistlahöfundur hefur átt í fullu fangi með lestur á þessu verkfræðiundri sem að baki liggur og erfitt að finna handhægar útskýringar á íslensku. Í stuttu máli má segja að lengst af hafi Nvidia aðallega verið að fást við að hanna skjákort, (e. graphics processing unit (GPU)), en þau eru talsvert öðruvísi en örgjörvar (e. central processing unit (CPU)) að því leyti að kortin geta gert marga útreikninga í einu á minni hraða, á meðan örgjörvar geta gert þyngri útreikninga en færri í einu. Örgjörvinn sjálfur er óaðskiljanlegur hluti ýmissa rafeindatækja, segja má að hann sé hjarta tölvukerfis og ber ábyrgð á því að framkvæma aðskiljanlegar aðgerðir. Án örgjörva gerist því ekkert í tölvunni en hann er ekkert annað en miðlæg vinnslueining tölvu sem hefur verið smíðuð á einni flís. Það er samþætt hringrás og er fær um að útfæra allar mikilvægar aðgerðir CPU. Hann er byggður á kísilflögu og er klukkuknúinn.nividia

Svo geta tölvukerfi innihaldið fleiri en einn örgjörva og örgjörvarnir geta innihaldið fleiri en einn kjarna (e. core). Því fleiri sem kjarnarnir eru, því fleiri verkefnum getur tölvukerfið unnið úr samhliða.

Nú háttar svo til að stóru fyrirtækjarisarnir, sem sumir kalla undrin sjö („magnificent 7“ eða MAG7) eru að kaupa þessa nýju tækni af Nvidia fyrir billjónir dollara og eftirspurnin er langt umfram framboð. Mál hafa þróast þannig að enginn kemst með tærnar á hæla Nvidia, en auk þess að vera með bestu hönnun á vélbúnaði þá hafa þeir besta hugbúnaðinn til að keyra þessa örgjörva.

Undrin sjö í fyrirtækjaheiminum

Undrin sjö eru engin venjulegur klúbbur en hann samanstendur af félögunum Alphabet (Google), Amazon, Apple, Meta (Facebook), Microsoft, Nvidia og Tesla. Þessi félög eru framsæknustu fyrirtæki heims á neytendamarkaði (svona eins langt og það nær) og hafa öll hellt sér út í þróun gervigreindar til að styðja við rekstur sinn og eru mörg hver orðin leiðandi þar. Stjórnendum þessara félaga líkar hins vegar ekki við að vera háðir neinum og að endingu gæti farið svo að eitthvert af MAG7 fyrirtækjunum hefjist handa við að hanna þessa örgjörva undir eigin hatti og sérsniðna fyrir sínar þarfir. En fjárfestar í Nvidia treysta á að það sé hægara sagt en gert, að þróa nýja örgjörva.Chips-ARM_Nvidia

Segja má að þetta sé eitt af því fáa í heiminum sem ekki verður leyst með því að eyða nóg af peningum, hvað sem verður. Það hefur einfaldlega reynst gríðarlega vandasamt að hanna örgjörva af þeim gæðum sem Nvidia býður uppá. Hvað þá að leysa þau mál sem þarf til að koma þeim í fjöldaframleiðslu. Því telja fjárfestar í Nvidia að félagið muni áfram njóta sinnar einstöku markaðsstöðu.

Allar leiðir liggja til Taívan

Á bak við framleiðsluna er síðan fyrirtækið Taívan Semiconductor Manufacturing sem er eins og áður sagði á Taívan. Því getur spenna í samskiptum Kína og Bandaríkjanna haft áhrif á þróun mála, þó kannski sérstaklega taugakerfi fjárfesta. Félagið var stofnað 1987 og hefur nánast frá upphafi haft yfirburðastöðu í framleiðslu örgjörva. Þeir eru með langmestu framleiðslugetuna og er merkilegt til þess að hugsa hver rækilega Intel hefur sofnað á verðinum. Intel hefur í tvo áratugi verið stærsti hönnuður og framleiðandi örgjörva í Bandaríkjunum.

Nýlegt frumvarp Bidens Bandaríkjaforseta veitir innlendum framleiðendum miklar ívilnanir í nafni þjóðaröryggis, en margir þessara örgjörva eru notaðir í hernaðarstarfsemi og falla því undir þjóðaröryggismál. Það er því til mikils að vinna að hafa örugga innlenda framleiðslu. Þegar hafa verið settar einhverjar hömlur á hvað Nvidia má selja til Kína sem er þó stór viðskiptavinur félagsins, aðallega í gegnum Hong Kong. Að ákveðnu leyti er heimurinn að horfa upp á nýtt vopnakapphlaup. Enginn vill sjá andstæðinginn ná forskoti þegar kemur að gervigreind.Jensen Huang

Maðurinn sem allir fylgjast með

Ekki er hægt að skoða sögu Nvidia án þess að ræða Jensen Huang. Hann stendur nú á sextugu og er heldur betur að uppskera fyrir þrautseigju sína. Hann er bandarískur kaupsýslumaður, ættaður frá Taivan, menntaður rafmagnsverkfræðingur, meðstofnandi, forseti og forstjóri Nvidia, auk þess að vera frændi Lusa Su, framkvæmdarstjóra AMD. Jensen Huang stofnaði Nvidia árið 1993 þegar hann var 30 ára ásamt tveimur öðrum verkfræðingum. Þremenningarnir sáu fyrir sér uppgang í grafískri tölvuvinnslu, en á þeim tíma var tölvutæknin að mestu leyti bundin við textavinnslu.

Nú í júní 2024 varð félagið annað stærsta fyrirtæki í heimi miðað við markaðsvirði. Tímaritið Forbes áætlar nettóeign Huangs á 105,8 milljarða dollara, sem gerir hann að 14. ríkasta einstaklingi í heimi, næst á eftir á eftir Michael Bloomberg. Hlutabréf Nvidia hækkuðu um 240% á síðasta ári og hafa hækkað um ríflega 50% það sem af er ári þannig að hlutirnir breytast hratt.

Jensen Huang er maðurinn sem allir eru að fylgjast með núna. Þegar hann kemur til Taívan er honum tekið eins og rokkgoði og hann er fjörugur og skemmtilegur fyrirlesari og hefur stundum verið líkt við Steve Jobs stofnanda Apple. Í ágúst 2018 varð Apple fyrsta fyr­ir­tækið í heim­in­um sem er skráð á al­menn­an hluta­bréfa­markað sem er metið á yfir þúsund milljarða Bandaríkjadala eða bill­jón Banda­ríkja­dala (e. trilli­on doll­ars). Ein bill­jón sam­svar­ar millj­ón millj­ón­um. Það er eins gott að hafa þessi núll á hreinu í heimi örgjörvanna!