c

Pistlar:

24. júní 2024 kl. 22:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Róttæka vinstrið á lausu?

Það blæs ekki byrlega fyrir Vinstrihreyfingunni – grænt framboð (VG) sem fagnaði nýlega 25 ára afmæli sínu. Kannanir sýna að fylgi flokksins dansar nú í kringum hin örlagaríku 5% sem þarf til að ná jöfnunarsæti. VG er hætt að leiða ríkisstjórnina sem var forsenda fyrir því að hún var mynduð á sínum tíma. Óvíst er hver mun leiða VG í framtíðinni og áhrifafólk í flokknum hefur sagt sig úr honum með tilheyrandi fjölmiðlayfirlýsingum. Svo virðist sem að almennir flokksmenn eigi erfitt með að styðja stjórnina og lýsa margir þeirra yfir andstöðu sinni við flest mál ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er eðlilegt að hafa efasemdir um langlífi ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar en ekki síður hafa áhyggjur af stöðu VG, sem er nú í svæsinni tilvistarkreppu.vg franmt

Þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð 2017 setti Katrín það skilyrði að hún leiddi stjórnina þó að VG hefði minnstan þingstyrk stjórnarflokkanna. Pistlaskrifari veit að þessi ríkisstjórn var þegar á teikniborði Sigurðar Inga Jóhannessonar í kjölfar kosninganna haustið 2016 þegar Bjarni Benediktsson kaus að mynda ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð sem tók til starfa 11. janúar 2017. Síðarnefndi flokkurinn sleit svo samstarfinu eftir tilfinningaþrunginn kvöldfund á heimili formannsins Óttars Proppé þann 14. september 2017. Atburðarásin þar sýndi reynsluleysi flokksmanna og ekki síður formannsins enda þurrkaðist Björt framtíð út í framhaldinu.

Eftir hina skammlífu ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar var augljós vilji og þörf fyrir því að skapa meiri stöðugleika undir forystu reyndra stjórnmálamanna og Bjarni og Sigurður Ingi biðluðu aftur til Katrínar. Það sýnir sterka stöðu hennar í viðræðunum að báðir voru þeir tilbúnir til að samþykkja að hún leiddi ríkisstjórnina sem var alger forsenda þess að aðrir flokksmenn í VG samþykktu samstarfið. Á þeim tíma voru persónulegar vinsældir Katrínar miklar og allt fyrra kjörtímabil ríkisstjórnarinnar naut hún meira trausts en ríkisstjórnin í heild.

Stöðugleiki eða stöðnun innan VG?

Ákveðinn stöðugleiki ríkti innan VG, en á þessum 25 árum hafa aðeins verið tveir formenn. Steingrímur J. Sigfússon ríkti fyrstu 14 árin og svo Katrín frá 2013. Lengi vel virtist flokkurinn dæmdur til eilífrar eyðimerkurgöngu í stjórnarandstöðu en bankahrunið opnaði dyr fyrir flokkinn inn í ríkisstjórn þar sem síðan Steingrímur J. og Jóhanna Sigurðardóttir réðu ríkjum. Katrín sat í þeirri stjórn sem menntamálaráðherra. Hennar tími kom síðan þegar hægrið og miðjan í íslenskum stjórnmálum færu henni forsætisráðherrastólinn á silfurfati. VG var eftir allt saman ekki breytingarafl og stöðugleikinn varð að lokum að stöðnun í huga margra vinstri manna.vg logó 2

Núverandi formaður VG, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, var kallaður inn í flokkinn úr framkvæmdastjórastöðu hjá Landvernd, stöðu sem fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins gegnir nú, enda deilir flokkurinn starfsmannamálum með ýmsum samtökum, Ríkisútvarpinu og verkalýðshreyfingunni. Guðmundur Ingi er nýgræðingur í stjórnmálum miðað við Svandísi Svavarsdóttur sem er líklegust til að taka við flokknum á næsta flokksþingi. Ýmsir pólitískir álitsgjafar virðast telja (eða vona) að VG muni sprengja ríkisstjórnina sem hefur umboð fram á haustið 2025.

Róttæka vinstrið á lausu?

Á heimasíðu VG segir að flokkurinn sé róttækur vinstriflokkur sem leggur höfuðáherslu á jöfnuð og sjálfbærni. „Stefna Vinstri grænna byggist á fjórum grunnstoðum: Umhverfisvernd, kvenfrelsi, alþjóðlegri friðarhyggju og félagslegu réttlæti. Vinstri græn eru nú leiðandi afl í ríkisstjórn Íslands, eru með þrjá ráðherra og átta þingmenn á Alþingi.“

Róttæka vinstrið er oft heldur útópískt ástand og því hentar illa að taka ábyrgð. Hér var í pistli fyrir stuttu bent á átakasögu Verkamannaflokksins í Bretlandi sem sveiflast frá því að vera talinn lítt stjórntækur í að leiða þróun breskra stjórnmála. Ávallt þegar flokkurinn tekur við stjórnmálum er hann talinn svíkja hugsjónir sínar eins og birtist skýrast í tali vinstri manna um árin undir stjórn Tonys Blair. Eins öflugur stjórnmálamaður og hann annars var þá eiga til dæmis íslenskir sósíalistar ekki nógu sterk orð til að lýsa svikum hans.

Sjálfsagt sér Sósíalistaflokkur Íslands nú sér leik á borði í baráttunni um róttækustu sálirnar á vinstri væng stjórnmálanna. Hlutverk sem VG hefur lengst af haft en líklega fórnað því til þess að vera stjórntækur. Einstaka breytingar á málaefnasviðinu, svo sem í nýju öryrkjafrumvarpi eða stofnun sérstakrar mannréttindastofnunar breytir því ekki og virðist lítil áhrif hafa á fylgið. Hugsanlega vildu sósíalistar eiga sína aðkomu að forsetakosningunum eða var það tilviljun að Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir beindi svo mjög skeytum sínum að Katrínu í forsetabaráttunni? Svo mjög að Kolbrún Bergþórsdóttir, menningarblaðamaður Morgunblaðsins, líkti framferði Steinunnar Ólínu við nýlega sjónvarpsþáttaröð um óvenjulegan eltihrelli (Baby Raindeer). Steinunn Ólína ákvað að bjóða sig fram vegna framboðs Katrínar (og augljóslega persónulegrar fæðar á Katrínu, sem ef til vill skýrist af tilfinningum eins og afbrýðisemi) og birti við það tilefni sérstaka yfirlýsingu á Facebook sem hugsanlega getur sýnt áherslur hennar ef hún býður sig fram til þings: „Baráttan um Ísland snýst aðallega um íslenska náttúru og auðlindirnar sem eiga að vera sameign þjóðarinnar. Það fjöregg fengum við í arf og okkur ber að skila því heilu til næstu kynslóða. Nú vegur þyngst að ég treysti ekki Katrínu Jakobsdóttur, að fenginni reynslu, til að gæta þessa fjöreggs okkar. Það er þyngra en tárum taki.“vg logo 3

Hógværð eða öfgar?

Sósíalistaflokkur Íslands náði ekki fólki inn á þing í síðustu kosningum þótt allt benti til þess um tíma. Líklega hefur öfgafullur og illskeyttur talandi Gunnars Smára Egilssonar, leiðtoga flokksins, fælt kjósendur frá á lokametrunum. Rétt eins og eftirminnileg frammistaða Ingu Sæland sópaði fylgi að hennar flokki. En Sósíalistaflokkurinn tryggði sér þó um 120 milljónir úr ríkissjóði á kjörtímabilinu sem nýtt er til að reka áróður flokksins sem birtist skýrast á Samstöðinni sem er rekin af „hálf-atvinnumennsku“ í blaðamennsku eins og Gunnar Smári upplýsti í nóvember í fyrra þegar hann falaðist eftir fólki í vinnu. Þá stendur flokkurinn á bak við alls kyns skipulagðan aktivisma, sem formaður framkvæmdastjórnar flokksins gætir sín þó á að vera hvergi tengdur.

Verða sósíalistar færir um að leysa VG af hólmi sem róttækasta eða jafnvel villta vinstrið? Framtíðin sker úr um það en víst er að þeir hafa nú haft dágóðan tíma til að byggja upp flokksstarf sitt. Eini kjörni fulltrúi Sósíalistaflokksins er Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista í Reykjavík. Á Samstöðinni hefur verið upplýst að hún hafi leitt skipulagsvinnu fyrir framboð Sósíalista til Alþingis. Um leið hefur hún sjálf verið hvött til að bjóða sig fram til þings. Sanna er sjálfsagt ágætur fulltrúi fyrir flokkinn en hún talar af mun meiri stillingu og hógværð en margir flokksmenn hennar sem virðast verja mestum tíma sínum í að gagnrýna og tala niður það þjóðfélag sem hér hefur verið byggt upp. Stundum með vísun í að breytingar verði að gera með róttækum hætti án þess að nákvæm útlistun liggi fyrir. VG reyndist ekki byltingarafl þegar á reyndi en hugsanlega fær Sósíalistaflokkur Íslands tækifæri til að bæta þar úr!