c

Pistlar:

26. júní 2024 kl. 10:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Orkumál: Með vindinn í fanginu

Orkustofnun er með til meðferðar virkjunarleyfi vegna Búrfellslundar en þar hefur Landsvirkjun lagt fram ósk um að fá að reisa 120 MW vindmyllugarð sem yrði sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi. Vindmyllur finnast ekki hér fyrir utan þær tvær sem hafa verið endurreistar í Þykkvabæ. Líklegt verður að telja að Landsvirkjun fái virkjunarleyfi vegna Búrfellslundar innan tíðar og þar með verði vindmyllur hluti af orkukerfi Íslendinga.vindm

Breytingar gætu gerst hratt í framhaldinu. Fyrir verkefnastjórn rammaáætlunar liggja nú 30 umsóknir um vindorkugarða. Samanlögð fyrirhuguð orkuvinnslugeta garðanna er um 3.300 MW. Búið er að samþykkja tvo á vegum Landsvirkjunar, við Búrfell og Blöndu, sem munu skila 220 MW. Eins og áður segir bíða þeir endanlegs leyfis Orkustofnunar. Margir einkaaðilar eru að skoða þessa möguleika og er franska orkufyrirtækið Qair þar stærst en þeir þróa nú og undirbúa vindorkugarða víða um land.

Mótvindur í málinu

Augljóslega eru mjög skiptar skoðanir um ágæti þess að reisa vindmyllur hér á landi og er andstaðan úr tveimur áttum, annars vegar af umhverfisástæðum og svo telja margir að vindmyllur geri lítið fyrir orkuöflun landsmanna. Landvernd vekur athygli á því að nú séu á Íslandi yfir 50 hugmyndir um vindorkuver um heiðar, sveitir og strendur landsins. Hugmyndirnar eru mislangt á veg komna en félagsskapur sem kallar sig Mótvind Ísland hefur hafið undirskriftarsöfnun gegn vindmyllum. Sá félagsskapur nýtur velþóknunar Landverndar.

Kynningartextinn við undirskriftarsöfnun, sem Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur og stjórnarmaður í Landvernd stendur að, er afgerandi: „Vindorkuver valda óafturkræfum umhverfisspjöllum, stórfelldu landraski, sjón- og hljóðmengun, skaða vistkerfi og samfélög og ógna líffræðilegum fjölbreytileika. Þess er krafist að löggjafinn skapi sterkan lagaramma svo orkuinnviðir þjóðar, framleiðsla og dreifing, verði í almannaeigu til framtíðar. Ef fylgja á eftir áformum um einkavædd vindorkuver hringinn í kringum landið krefjumst við þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir rétt náttúru Íslands og komandi kynslóða.“

Augljóst má vera að þau sjónarmið sem ráða uppbyggingu vindorku erlendis ná ekki hingað en þar er hún talin mikilvæg til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Vitaskuld er það svo að Íslendingar eru í einstakri stöðu með sín orkumál en það er alla jafnan ekki viðurkennt af Landvernd.vindm2

Er til millivegur?

Eins og oft áður gæti verið einhver millivegur, sem gæti til dæmis falist í því að virkja ekki endilega allt sem menn vilja virkja en leyfa þó vindmyllur á afmörkuðum og takmörkuðum svæðum sem að einhverju leyti hefur verið raskað áður. Það gætu verið svæði eins og við Búrfell og Blöndu, aðrar virkjanir og iðnaðar- og hafnarsvæði. Í það minnsta hljóta landsmenn að eiga heimtingu á að farið verði varlega við úthlutun leyfa til uppbygginga á vindmyllum. Sumar staðsetningar sem komið hafa fram eru ekki viðunandi.

Stundum er farsælt að vera ekki fyrstur að gera hlutina. Þjóðir, fyrirtæki og frumkvöðlar eru ekki endilega sammála því en vindmyllur hafa verið að ryðja sér rúms í orkufrekum löndum Vestur-Evrópu undanfarin 20 til 30 ár og breytt ásýnd til fjalla og út við strendur. Það er ekkert sérstaklega gaman að horfa á þær í landslaginu en margar þjóðir telja sig ekki eiga val því án orku verður nútímasamfélag ekki rekið. Við Íslendingar komum seint að borðinu og vonandi að það sé búið að laga mikið af þeim byrjunarerfiðleikum sem fylgt hafa vindorku.

Ísland hefur mikla orku og hefur ákveðið að binda stóran hluta hennar í föstum samningum við stóriðjuver. Það hefur reynst ágætlega, tryggt fjármögnun virkjananna og byggt upp mikla þekkingu eins og oft hefur verið rætt hér. Það þýðir þó ekki að það geti ekki breyst. 70% allrar raforku er framleidd með vatnsafli og 30% með jarðvarma. Það eru einstakar tölur. En nú getur vindorka fikrað sig inn og leikið mikilvægt hlutverk ef vel tekst til.

Ferli skynsamlegrar sáttar

Það má rifja upp að upphaf lagasetningarinnar um rammaáætlun má rekja til þess vilja að reyna búa til ferli sem gæti skapað skynsama sátt. Kveðið var á um að eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti liggi frami á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í verndar og orkunýtingaráætlun skal í samræmi við markmið laga lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið til verndunar. Verndar- og orkunýtingaráætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira, eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Þetta virkar nógu einfalt en er það ekki í framkvæmd.

Höfum í huga að orku- og veituþjónusta er sú grunnþjónusta sem allt samfélagið byggir á og er undirstaða lífsgæða í landinu. Skilvirkur orku- og veitugeiri er einnig forsenda þess að standast alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og til að nýta þau sóknarfæri sem gefast nú þegar eftirspurn eftir grænum lausnum eykst um allan heim. Við höfum margt áhugavert fram að færa þar.