c

Pistlar:

28. júní 2024 kl. 11:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Flugklasi og flughermar

Flug hefur eins og gefur að skilja verið okkur Íslendingum mikilvægt og segja má að millilandaflug hafi frá upphafi verið tengt fullveldi landsins. Það var því engin tilviljun að slíkt flug hófst einmitt þjóðhátíðardaginn 17. júní 1947. Þá fór fyrsta flugvélin, sem Íslendingar keyptu til millilandaflugs, Hekla, í eigu Loftleiða hf. í sína fyrstu áætlunarferð til útlanda. Það þurfti mikinn stórhug og kjark til að afráða kaup á íslenskri millilandaflugvél á þessum tíma og var framtakið af vel flestum talið orka mjög tvímælis. Um leið vafðist fyrir mörgum að skilja rekstrargrundvöll hennar. Þekking Íslendinga hefur vaxið stórum á flugi í gegnum tíðina en þetta er um margt kvik og erfið starfsgrein þó að hún hafi skipt atvinnusögu okkar Íslendinga gríðarlega miklu mál.icelanairsaf

Í dag skiptir flugið enn miklu máli og hefur gefið okkur mikið af áhugaverðum og vel launuðum störfum. Tvö stór íslensk millilandaflugfélög eru nú í rekstri, bæði skráð í Kauphöll Íslands, annað á aðallista og hafa bæði fengið stuðning fjárfesta þó rekstrarstaða beggja sé erfið og fjárfestar hafi litla ávöxtun fengið. En það er stundum eins og stjórnvöld og almenningur átti sig ekki á möguleikum og þeim tækifærum sem flugi fylgja. Þó fáum við reglulega frásagnir sem segja okkur slíka sögu.

Úr ríkiseigu til stjarnanna

Í Morgunblaðinu í vikunni mátti lesa forvitnilegt viðtal við Magnús Már Þórðarson framkvæmdastjóra hugbúnaðarfyrirtækisins Tern Systems, sem hefur í næstum 30 ár þróað hugbúnaðarlausnir fyrir stjórn flugumferðar á Íslandi og selt síðan í Evrópu, Asíu og Afríku. Hjá fyrirtækinu starfa í dag 80 manns, þar af 65 á Íslandi. Áætluð velta Tern Systems er 1.500 milljónir króna í ár og er 80% af því launakostnaður.

Tern Systems stendur nú á ákveðnum tímamótum en mikil eftirspurn er eftir hugbúnaði félagsins. Eignarhaldið er því hins vegar fjötur um fót ef það á að þróast í alþjóðlegt fyrirtæki. Í viðtalinu kemur fram að óformlegar þreifingar eru hafnar um framtíðareignarhald félagsins sem er nú í ríkiseigu í gegnum Isavia ANS.

Tern Systems hefur um nokkurra ára skeið selt kerfi sín víða um heim en þrjú ár eru síðan fyrsti evrópski viðskiptavinurinn bættist í hópinn, HungaroControl í Ungverjalandi. Búnaðinn kaupa Ungverjar sem varakerfi fyrir aðalflugumsjónarkerfið. Í Asíu er búnaður Tern Systems notaður sem aðalkerfi og/eða varakerfi á yfir 10 flugvöllum, í S-Kóreu, Indónesíu og Taílandi. Megnið af þeim eru stórir flugvellir sem þjóna tugum milljóna farþega á hverju ári. Í viðtalinu við Magnús Má kemur fram að eru veruleg tækifæri eru til að þróa félagið áfram með breyttu eignarhaldi.Flug1

Nýr flugklasi?

Magnús Már bendir á hve mikilvægt flugið sé fyrir Íslendinga. „Fyrir mér er flugið auðlind sem við ættum að gera meira úr. Sú hugmynd hefur komið upp í samræðum við Isavia og flugfélögin að hér verði stofnaður flugklasi. Þar myndu sprotar geta haft aðstöðu til að byggja upp þjónustu sem tengdist ekki bara flugumferð heldur líka flugvellinum.”

Það má taka undir þessa hugmynd en nú í vikunni var sérstakur fæðuklasi settur upp og verður vonandi til að styðja við landbúnaðarframleiðslu okkar. Flug á Íslandi býður upp á gríðarleg tækifæri.

Tern byrjaði sem sproti í Háskóla íslands á níunda áratugnum og varð formlegt fyrirtæki árið 1997 og hefur vaxið og dafnað síðan þá. Tern Systems þróar og rekur fjöldann allan af kerfum í dag fyrir Isavia en markmiðið er að skerpa fókusinn og þróa einungis 2 til 3 kerfi. Það yrðu þá Polaris og Orion, flughermir fyrir flugumferðarstjóra og í þriðja lagi lítið flugumsjónarkerfi sem notað er á 25 litlum flugvöllum á Íslandi og Grænlandi. Þróun þess kerfis hefur verið hætt að mestu en viðhaldi er sinnt af Tern Systems.

Fleiri flughermar

Önnur frétt sýndi einnig tækifærin í flugheiminum, þá í starfsemi sem var ekki endilega fyrirséð að væri hér á landi. Rekstur flugherma hófst hér árið 2015 og hefur fært miklar tekjur inn í landið með því að færa hingað þjónustu sem ella þyrfti að sækja út fyrir landsteinanna.flug2

Greint var frá því að Icelandair hefði samið við fyrirtækið CAE um kaup á flughermi fyrir Airbus A321 flugvélar sem félagið tekur í notkun síðar á árinu. Nýi Airbus hermirinn verður sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Flughermirinn verður settur upp í þjálfunarsetri Icelandair í Hafnarfirði seinni hluta árs 2025 og verður rekinn af CAE Icelandair Flight Training sem hefur rekið flugherma fyrir Boeing flugvélar Icelandair í þjálfunarsetrinu í Hafnarfirði frá árinu 2015. Fyrir þann tíma fór hermaþjálfun flugmanna Icelandair fram erlendis. Flughermar félagsins í Hafnarfirði hafi einnig verið vinsælir hjá erlendum flugfélögum og rekstur félagsins hefur gengið vel og stækkað jafnt og þétt.

„Það er mjög ánægjulegt að tilkynna samninginn við CAE og styrkja frekar það góða samstarf sem við höfum átt við fyrirtækið um árabil. Sem eyja í miðju Atlantshafinu reiðir Ísland sig á flug og mikilvægur þáttur í því að halda uppi góðum flugsamgöngum til og frá landinu er að hér sé aðstaða til þess að bjóða upp á fyrsta flokks þjálfun flugmanna,“ sagði Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, þegar greint var frá samningnum. Það má taka undir þau orð.