c

Pistlar:

2. júlí 2024 kl. 18:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kosningakvíði vinstri manna í Fakklandi

Eftirtektarverðar kosningar eru nú víða um hinn vestræna heim og fréttaflutningur af því mikil og stöðugur eins og gefur að skilja. Það er oft forvitnilegt að fylgjast með umfjöllun Ríkisútvarpsins af kosningum erlendis og hvernig þær eru túlkaðar fyrir áhorfendum. Sjónvarpsmaðurinn kunni, Egill Helgason, sagði frá því í fyrra að kosning Donalds Trump 2016 hefði haft veruleg áhrif á andlega heilsu hans. Hér í pistli var sagt frá sérstökum fundi um loftslagskvíða þar sem fréttamaður Ríkisútvarpsins hafði framsögu og lýsti angist sinni gagnvart fréttaefninu. Ljóst er að fréttamenn Ríkisútvarpsins eru mjög næmir fyrir því sem þeir eru að fjalla um sem auðvitað hefur áhrif á hlutlægni fréttaflutningsins. Áhorfendur upplifa umfjöllunina þannig, að ef ekki beinlínis yfirlýstir vinstri flokkar eru að sigra í kosningum þá er öfgahægrið að taka yfir með ófyrirséðum afleiðingum!frakkland kos

Þetta sást greinilega í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins á sunnudagskvöldið þegar Torfi Tulinius prófessor kom í settið en hann er kynntur sem „sérfræðingur um frönsk stjórnmál“ enda má segja að hann hafi öðlast einkarétt á að túlka frönsk stjórnmál fyrir áhorfendur Ríkisútvarpsins. Hann var þarna mættur til að fjalla um fyrri umferð þingkosninga í Frakklandi sem fram fóru um helgina. Engum duldist að Torfi var í einhverskonar losti yfir kosningasigri Þjóðfylkingarinnar sem fékk um 33% atkvæða. „Þetta verður mjög spennuþrungin vika framundan. Þeir flokkar sem ekki vilja fá meirihluta Þjóðfylkingarinnar yfir sig þurfa að vinna saman og það er spurning hvort þeim takist það. Nú fara þeir í skaðaminnkandi aðgerðir,“ sagði Torfi Tulinius en þess má geta að kosningaþátttaka hefur ekki verið meiri í áratugi í Frakklandi sem sýnir vel áhuga franskra kjósenda á breytingum. Torfi var síðan mættur í Morgungluggann á Rás 1 daginn eftir til að endurtaka áhyggjur sínar af þróuninni í Frakklandi. Það skal tekið fram að ekki verður dregið í efa að Torfi hefur ágæta þekkingu á málefnum Frakklands en það hafa án efa fleiri sem gætu þá haft aðra skoðun en hann á þróun mála. Framundan eru kosningar í Bretlandi þar sem vinstri mönnum er spáð stórsigur. Skyldu hægri sinnaðir álitsgjafar fá eins frítt spil til að lýsa yfir áhyggjum sýnum að þeim loknum?

Giorgia Meloni, endurtekið efni

Ástandið núna minnir á hina furðulegu umræðu sem fór af stað þegar Giorgia Meloni vann síðustu kosningar á Ítalíu fyrir tveimur árum. Þá kynntu fjölmiðlar hana gjarnan til leiks sem öfgahægrimann með „rætur í nasisma“. Ríkisútvarpið sagði í sinni kynningu að hún hefði verið höll undir Mussolini sem dó reyndar 32 árum áður en hún fæddist. BBC, breska ríkisútvarpið, hamraði á því að hægri öfgakona væri að verða forsætisráðherra á Ítalíu, í mestu hægri öfgastjórn sem komist hefði til valda í landinu frá seinustu heimsstyrjöld! Þrátt fyrir ýmsar bölbænir hefur Meloni styrkt stöðu sína og þannig komið mestu úrtöluröddum á óvart. Um leið hefur hún gert sig gildandi í heimsmálunum og á síðasta ári tilnefndi Forbes hana sem fjórðu valdamestu konu heims.

Rifja má upp að Katrín Jakobsdóttir, þá forsætisráðherra, var harðlega gagnrýnd fyrir að taka á móti Giorgiu Melon í móttöku Leiðtogafundarins í Hörpu fyrir ári síðan og var sökuð um að vingast við fasista, meðal annars af íslenskum sósíalistum. Nú segir Gunnars Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, að „hatrið hafi sigrað“ í Frakklandi og líkir Þjóðfylkingarinnar við nasistaflokkinn og bætir við: „Líklega eru þetta endalok Frakklands eins og við þekkjum (og elskum sum).“frakk kos

Fleiri vinstri menn eru uggandi. „Fólk er óttaslegið, fólk er einfaldlega hrætt. Ég hef ekki upplifað viðlíka spennu í frönsku samfélagi,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi þingmaður VG sem nú er búsett í París við Vísi. Ástæða er til að óttast að þessi uggur vinstri manna leiði til ofbeldisfullra mótmæla af þeirra hálfu eins og oft gerist við hliðstæðar aðstæður.

Hert innflytjendastefna

En hver voru kosningamál Þjóðfylkingarinnar undir stjórn Marie Le Pen? Þar fer fyrst loforð um að herða innflytjendastefnu Frakklands sem er í takt við það sem er að gerast í flestum löndum Vestur-Evrópu og var meðal annars eitt af helstu stefnumálum Giorgia Meloni á sínum tíma. Enda má líta svo á að óstöðugleiki í kjölfar óheftrar innflytjendastefnu ógni öryggi Frakklands eins og fjölmörg dæmi sanna og mörg hafa verið rakin hér í pistlum.

Þjóðfylkingin hefur heitið því að binda enda á ríkisborgararétt sem einhverskonar frumburðarrétti. Nú fá börn sem fædd eru af tveimur erlendum foreldrum í Frakklandi sjálfkrafa franskan ríkisborgararétt við 18 ára aldur. Breytingartillaga Þjóðfylkingarinnar fellst í því að til að vera gjaldgeng verði þau að búa í landinu þegar þau verða 18 ára og hafa búið á landinu í a.m.k. fimm ár frá 11 ára aldri. „Sjálfvirk öflun fransks ríkisfangs er ekki lengur réttlætanleg í heimi átta milljarða manna. Sérstaklega þegar við fáum daglega vísbendingar um erfiðleika fólks við að aðlagast og samlagast frönsku þjóðlífi,“ sagði Jordan Bardella, forsætisráðherraefni Þjóðfylkingarinnar, en hann er aðeins 28 ára.

Þjóðfylkingin hyggst einnig setja hömlur á fjölskyldusameiningar innflytjenda með því að innleiða viðbótarskilyrði um atvinnu og tekjur. Einnig hafa verið kynnt áform um að draga úr aðgangi að læknisþjónustu fyrir ólöglega innflytjendur. Þeim verði eingöngu sinnt í neyðartilvikum og þá á að takmarka aðgang þeirra að velferðarbótum.le pen

Styrkja lögreglu og öryggi ríkisins

Í umfjöllun breska blaðsins The Telegraph kemur fram að Þjóðfylkingin hefur reynt að staðsetja sig sem flokk hertrar löggæslu og hefur talað fyrir því að skera niður velferðarbætur og félagslega aðstoð við þá sem endurtekið brjóta af sér. Einnig yrði réttað yfir unglingum 16 ára og eldri sem fullorðum vegna alvarlegra glæpa.

Franskar lögreglusveitir hafa verið þekktar fyrir að taka á mótmælendum en Þjóðfylkingin vill veita lögreglunni meiri vörn og sterkari heimildir til að bregðast við telji lögreglan sér ógnað.

Eitt umdeildasta kosningamál Þjóðfylkingarinnar laut að því að efla öryggi landsins, meðal annars með því að meina þeim sem voru með tvöfaldan ríkisborgararétt að gegna störfum á „viðkvæmum stefnumótandi stöðum“ eins og varnarmálum. Slík störf væri fyrir Frakka eina. Pólitískir andstæðingar voru fljótir að gagnrýna tillöguna og sögðu hana mismunun og hræsni.

Skera niður framlög til ESB

Á alþjóðavettvangi hefur Þjóðfylkingin heitið því að skera niður fjárframlög til Evrópusambandsins um allt að 3 milljarða evra á ári og ætlar þannig að fjármagna lækkun á virðisaukaskatti heima fyrir.

Þjóðfylkingin hefur heitið því að halda áfram að styðja Úkraínu, en Bardella hefur gefið til kynna að hernaðaraðstoð Frakka gæti minnkað verulega. Þannig hefur Bardella sagt að hann dragi línu þegar kemur að því að senda eldflaugar, hergögn eða franska hermenn til Úkraínu vegna þess að Rússar muni líta á það sem stigmagnandi aðgerðir.

Marine Le Pen hefur oft átt í erfiðleikum með að víkja sér undan ásökunum um að vera höll undir málstað Pútíns, sérstaklega eftir að mynd af henni og Rússlandsforseta hefur verið notuð sem vopn í kosningabaráttunni af andstæðingum hennar. Varðandi átökin á Gasa hefur Þjóðfylkingin sagst vera á móti því að viðurkenna palestínskt ríki.macron lepen

Gamla góða lífeyriskerfið

Þjóðfylkingin hefur í farteski sínu margvíslegan vinstri pópúlísma og hefur lofað að afnema breytingar Emmanuels Macron á lífeyriskerfinu franska sem fólu í sér hækkun á eftirlaunaaldri og var mjög umdeilt. Það myndi færa eftirlaunaaldurinn aftur niður í 62 ára aldur. Þeir sem hófu störf fyrir 20 ára aldur og hafa unnið í 40 ár fá að hætta 60 ára en Frakkar reka gegnumstreymiskerfi í lífeyrismálum.

Breytingar á atvinnuleysisbótum Macron yrðu einnig felldar úr gildi. Núverandi stefna skerðir aðgang að atvinnuleysisbótum og styttir bótarétt úr 18 mánuðum í 15 mánuði. En Þjóðfylkingin leggur á herslu á að félagslegar bætur yrðu einnig bundnar við franska ríkisborgara, eða þá sem hafa starfað í Frakklandi í að minnsta kosti fimm ár. Hvernig sem fer í seinni umferðinni er mikilvægast að pópúlistar til hægri og vinstri stilltu sig og leyfi hjólum lýðræðisins að hafa sinn gang.