c

Pistlar:

4. júlí 2024 kl. 15:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Jarðgöng í stað stokka

Skipulagsmál í höndum meirihlutans í Reykjavík hafa byggst á mikilli óskhyggju sem hefur leitt til þess að engar stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar og frestun á óhjákvæmilegum framkvæmdum sem þarf til að tryggja eðlilegar samgöngur í Reykjavík. Verst er að í þessu ferli öllu hefur verið stundaður mikil blekkingaleikur sem felst í því að reyna að selja íbúum Reykjavíkurborgar fullkomlega óraunhæfar lausnir á meðan þeir eru látnir þjást ár eftir ár í sífellt tímafrekari umferðatöfum.stokkur

Fyrir nokkrum misserum lagði meirihlutinn í Reykjavík mikla áherslu á að selja Reykvíkingum þá hugmynd að stokkar gætu leyst þau umferðavandamál sem hafa verið að hlaðast upp undanfarna áratugi þar sem menn hafa hundsað allar viðvaranir og neitað að ráðast í eðlilegar umbætur á gatnakerfi borgarinnar. Þessar hugmyndir voru gagnrýndar hér í pistlum strax 2019 en meirihlutinn gaf bara í. Ekki skipti síður máli að þessar nýju lausnir áttu að leiða til nýs og betra mannlífs og aðlaðandi borgarhverfa. Fjölmörg rándýr kynningamyndbönd voru gerð sem hefðu í raun átt að skrifast á auglýsingakostnað meirihlutans. Mjög rammt kvað að þessu árið 2021 eins og má sjá af fjölmörgum slíkum myndböndum um stokkalausnir á Miklubraut og Sæbraut sem finna má á Youtube.

Gríðarlegur ráðgjafakostnaður

Fjöldi ráðgjafa eins og T.Ark, Verkís, Studio Egret West og Integrated Transport Planning sameinuðust um að gera þessi myndbönd eftir mikla undirbúningsvinnu. Væntanlega Reykvíkingum ekki að kostnaðarlausu en fjölmiðlar tóku þátt í blekkingunni enda fengu þeir skrautleg framtíðarmyndbönd til að sýna í fréttum. Þessi myndbönd voru í raun hluti af pólitísku kynningaefni meirihlutans.stokkur3

Þann 15. júní 2021 var haldin opinn fundur borgarstjóra um tillögur um Miklubrautarstokk og Vogabyggðarstokk á Sæbraut. Fundurinn var einnig í beinu streymi og má sjá hann í heild sinni á Youtube. Fundarstjóri var Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi og formaður skipulags- og samgönguráðs en hann sagði í upphafi fundarins að hér væri verið að horfa fram á við til næstu ára og áratuga. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í inngangsræðu sinni að verkefnin væru svo stór og margþætt að þau hafi ekki öll fengið þá athygli sem eðlilegt væri. Eins og svo oft við svona tækifæri dró Dagur ekki af sér í lýsingum og sagði að það að setja Miklubraut og Sæbraut í stokk væru hinir stóru burðarásar samgönguáætlunar höfuðborgarsvæðisins. Með þessu væri verið að stíga inn í nýja tíma með þessi svæði enda bar glærukynning hans heitið: „Reykjavík á tímamótum.“ Gerði hann meðal annars grín að fyrri skipulagshugmyndum í Reykjavík um hraðbraut á annari hæð við Tollhúsið. Einnig sagði hann að Miklubrautin væri ógn við lífsgæði fólks í nágreninu.stokkur2

Fimm hópar arkitekta, landslagsarkitekta, hönnuða, og verkfræðinga kynntu tillögur sínar um hönnun stokkanna og byggðar á hvoru svæði fyrir sig. „Landslið arkitekta og skipulagsfræðinga“, sagði borgarstjóri í kynningu sinni. Teymin höfðu öll unnið myndbönd sem munu sýna hönnunartillögurnar á myndrænan hátt. Teymin voru eftirfarandi: Tröð – Kanon - VSÓ, Yrki- DLD – Hnit, ASK – Efla – Gagarín og T.ark – SEW – Verkís – ITP. Fulltrúar frá öllum þessum stofum og fyrirtækjum héldu framsögu á fundinum og kynntu vinnu sína. En svo gerðist auðvitað ekkert í framhaldinu.

Það sem allir máttu sjá

Árið 2022 skrifaði pistlaskrifari þetta um þessar hugmyndir: „En á höfuðborgarsvæðinu hefur verið rekin stefna gegn bílnum sem er og hefur verið aðal samgöngutæki borgarinnar. Þessi stefna bítur í og nú þarf að ráðast í dýrar lausnir. Yfirleitt þegar í óefni stefnir birtist borgarstjóri og talar um stokk sem eina allsherjarlausn. Ennþá hefur engin stokkur risið og óvíst með öllu að það verði. Sem endranær tala skipulagsyfirvöld í Reykjavík og Vegagerðin með ólíkum hætti. Þegar raunveruleikinn bankar á dyr reynir Vegagerðin að tala fyrir jarðgöngum sem lausn. Við vitum að þjóðhagslega hagkvæmasti kosturinn vegna Sundabrautar var tekin undir íbúabyggð. Fyrirhyggjuleysið var algert. En nú þarf að leysa samgöngumál vegna Sundabyggðar með 40 milljarða stokki sem krefst gríðarlegrar flókinnar úrlausnar enda virðist Vegagerðin tala nú fyrir jarðgöngum. Vegna stokksins þarf að lækka Sæbrautina um 16 metra og enginn veit hvert umferðin á að fara. Sömu annmarkar eru vegna Miklubrautarstokks, enginn veit hvert umferðin á að fara á meðan stokkurinn er lagður. Þar virðist Vegagerðin einnig horfa til jarðgangna hvað sem verður. Engar skynsamlegar lausnir virðast vera á leið í framkvæmd.“Sæbrautarstokkur 05

Þrátt fyrir skrautsýningar, mikla vinnu verkfræðistofa og annarra hönnuða og fjölda rándýrra kynningamyndbanda hefur ekkert gerst. Nema það að nú loksins sér meirihlutinn það sem aðrir sáu þá, að allt þetta tal um stokka var óraunhæft og illa framkvæmanlegt. Því eru jarðgöng dregin fram á sjónarsviðið á ný. Svo virðist sem hvorki verði af Miklubrautarstokki né Sæbrautarstokki þrátt fyrir allan hönnunar- og kynningarkostnað. Rifja má upp að í áðunefndu myndbandi segir Dagur. B Eggertsson borgarstjóri að Reykjavíkurborg leggi höfuðáherslu á Miklubraut í stokk. Nú virðist veruleikinn hafa gripið inní þau áform.