c

Pistlar:

6. júlí 2024 kl. 17:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Um hvað er kosið í Frakklandi?

Það dylst engum að um þessar mundir er sterk undiralda í frönskum stjórnmálum og tekist á um ýmis grundvallaratriði svo sem frönsk gildi, öryggi borgaranna, utanríkismál og samleiðina með Evrópusambandinu þar sem Frakkland er annað tveggja lykilríkja ásamt Þjóðverjum. Þróun velferðarkerfisins og ekki síst fyrirkomulag lífeyrismála eru einnig undir í kosningabaráttunni sem og efnahagsmál í sinni víðustu mynd en seinni umferð þingkosninganna fer fram nú um helgina.frakkl

Við sáum mikil umskipti í Bretlandi í kosningunum á fimmtudaginn þar sem Íhaldsflokkurinn beið einn sinn versta kosningaósigur um leið og Verkamannaflokkurinn tryggði sér sterkan meirihluta þó hann fengi aðeins um þriðjung atkvæða. Svipað fyrirkomulag er í Frakklandi þar sem þriðjungur atkvæða getur einnig fært Þjóðfylkingunni (RN) meirihluta. Öfugt við það sem gerðist í Bretlandi meðal hægri manna, hafa franskir vinstri menn ákveðið að skipuleggja sig, stofnað nokkurskonar hræðslubandalag og ætla þannig að nýta sér hið tvöfalda kosningakerfið til að koma í veg fyrir sigur Þjóðfylkingarinnar. Í Bretlandi fengu Íhaldsflokkurinn og hægriflokkur Nigels Farage (Reform UK) fleiri atkvæði en Verkamannaflokkurinn. Ef þeir hefðu snúið bökum saman eins og vinstri menn ætla að gera í Frakklandi hefðu þeir hugsanlega getað komið í veg fyrir stórsigur Verkamannaflokksins. En þetta eru bara vangaveltur.

Sundruð þjóð?

En hvernig sem allt fer, velta margir fyrir sér hvernig franska þjóðin verði sameinuð nú þegar hún þarf að takast á við margvísleg sundrunaröfl, hvort sem þau koma frá hægri eða vinstri eða úr ranni trúarinnar. Eðlilegt er að spyrja hvort landsmenn séu að hverfa sitt í hvora áttina og hvernig stjórnmálastéttinni gengur að leiða hana í gegnum þennan ólgusjó. Frakkland er land byltinga og átaka þegar kemur að stjórnmálum og trúarsagan er ekki síður átakamikil. Áhrif íslam hafa aukist undanfarna áratugi samfara mikilli fjölgun múslima í landinu. Um leið hefur gyðingum þótt að sér þrengt og mikil fjöldi þeirra flúið Frakkland sem lengst af hefur verið talið þokkalega öruggt land fyrir gyðinga og gyðingar hafa haft talsverð áhrif á menningu Frakka og lifað að mestu í sátt og samlyndi við franskt þjóðfélag.

Háttsettur rabbíni í París varaði við því í viðtali við Jerusalem Post á miðvikudaginn að gyðingar ættu enga framtíð í Frakklandi. „Það er ljóst í dag að það er engin framtíð fyrir gyðinga í Frakklandi. Ég segi öllum sem eru ungir að fara til Ísraels eða öruggara lands,“ sagði Moshe Sebbag, aðalrabbíni Grande-samkundunnar í París.paris2

Frakkland, eins og önnur lönd Evrópu, býr við það að hluti almennings upplifir innflytjendastefnuna sem yfirþyrmandi og að þjóðin sé að breytast of hratt án þess að séð verði hvernig það muni ganga. Í flestum löndum beinast þessar efasemdir að fólki frá svokölluðum MENAPT löndum, en það er fólk sem er upprunið í Mið-Austurlöndum og Norður Afríku auk Pakistan og Tyrklands, nánast eingöngu múslimar sem færa með sér nýja trúarmenningu en í Frakklandi hefur kaþólska verið ríkjandi. Eining frönsku þjóðarinnar, eins og svo margra þjóða Vestur-og Mið-Evrópu, hvíldi á kristninni á miðöldum sem var síðan leyst af hólmi af upplýsingunni sem lagði grunn að þeim að mörgu leyti veraldlegu þjóðfélögum sem múslimar streyma nú inní, hvort sem þeir átta sig á þessum grunnforsendum sinna nýju samfélaga eða ekki. Þess má geta í framhjáhlaupi að þýska ríkisstjórnin lögfesti það skilyrði í síðustu viku að enginn fengi þýskan ríkisborgararétt, nema að viðkomandi virti þýsk gildi.flotta2


Menningarlegt afturhvarf

Efasemdir almennings á Vesturlöndum byggjast á því að fólk frá MENAPT-löndum ber oft með sér menningu sem Evrópubúum finnst heldur ógeðfelld og jafnvel frumstæð, það sé í raun afturhvarf frá þeim mannréttindum sem Evrópubúar hafa verið að innleiða í löndum sínum undanfarnar tvær aldir eða frá því að upplýsingin hélt innreið sína eins og áður sagði.

Þessi umdeilda menning MENAPT-landanna byggist meðal annars á því að staða karla er ráðandi, það er nánast hægt að tala um karlaveldi. Það birtist í sínum verstu verstu tilfellum þannig að konur eru hreinlega drepnar ef upp kemur ágreiningur eða þær ganga gegn karlaveldinu. Um leið ríkir alger höfnun á samkynhneigð og frávikum varðandi kyngervi, einnig það getur réttlætt dráp í hugum sumra íslamista. Umskurður stúlkna þekkist enn í samfélögum þeirra þó það sé ekki endilega íslamskur siður og slík viðhorf eru tekin með til Evrópu þar sem heilbrigðisstarfsmenn verða að fást við fáfræði sem í flestum tilfellum hafði verið útrýmt. Harkaleg trúarinnræting fylgir múslimum og raunar eru öll börn meira og minna neydd til að læra trúarkver og Kóraninn og stúlkur þvingaðar til að ganga í ákveðnum klæðnaði.

Allt er þetta eitthvað sem fæstir vestrænir foreldrar myndu sætta sig við og barnaverndaryfirvöldum uppálagt að grípa inní þegar upp kemst. Það sem meira er, þetta gerist í löndum þar sem margir hafa amast við kennslu á kristinni trú og viljað draga úr aðkomu trúarhreyfingar að börnum í gegnum stofnanir samfélagsins.

Þessi vandamál skella á stofnanauppbyggingu vestrænna samfélaga en væru það hugsanlega ekki ef MENAPT-fólkið sýndi raunverulegan áhuga og vilja til að ganga inn í menningu Evrópu. Það er bara alls ekki svo heldur keppast þessir nýju þegnar Vesturlanda við að halda í sína gömlu menningu með frumstæðu feðraveldi, stutt trúarlegri undirokun. Franskt samfélag á að sumu leyti erfitt með að verjast þessu. Í áðurnefndu viðtali benti Parísarrabbíninn einmitt á að þó að það ríki trúfrelsi í Frakklandi væri það „ekki til sýnis í opinberum rýmum“. Allt síðan múslimar hófu að streyma til Evrópu hefur verið tekist á um þetta bann við trúartáknum í opinberum rýmum.frakk5

Orsök og afleiðing

Það er erfitt að fá nákvæma eða hlutlæga lýsingu á þróun mála í Frakklandi og hvaða vandamál sé í raun við að glíma. Hvaða vandamál tengjast í raun innflytjendastefnunni eða hvort þau eru afrakstur annarra breytinga í samfélaginu. Þannig hafa frönsk yfirvöld hafið aðgerðir gegn ofbeldi meðal ungmenna í kjölfar fjölgun unglingaglæpa. En sumir rannsakendur og fræðimenn segja að ofbeldi ungmenna sé ekki endilega að aukast heldur séu stjórnmálamenn að leggja ofuráherslu á það sem einhverskonar kosningabrellu. Það er líklega í stíl við aðra staðreyndaóvissu sem fylgir upplýsingastreymi nútímans.

Því er það svo að fyrir þessum sömu fræðimönnum getur vafist að útskýra ýmsar mótsagnir. Þó að tölfræði sýni ekki endilega aukningu á ofbeldi af hálfu ungs fólks, þá eru áhrif og völd gengja sem stunda glæpastarfsemi vaxandi vandamál en þau laða til sín ungt fólk frá heimilum, svæðum og þjóðfélagshópum sem eiga undir högg að sækja af ýmsum félagslegum ástæðum. Sláandi var að sjá lýsingar á þessu í myndinni Athena! eftir leikstjórann Romain Gavras sem var hér til umfjöllunar fyrir nokkru. Menn sjá að líf innan glæpagengja getur orðið að „lífsmáta“ fyrir þessi ungmenni og til að bæta úr þarf að gera meira en að senda börn í heimavistarskóla eða setja upp skólabúninga. Margt af þessu unga fólki sem tekur þátt í gengjum elst upp á óstöðugum heimilum og er með lélegan árangur í skóla og sér fá tækifæri í hverfum sem oft eru illa stödd.

Frakkland hefur löngum haft yfirbragð gleði, munaðar og einhverskonar höfgi og heimamenn hafa gjarnan lagt sig eftir að varðveita lífsgleðina (joie de vivre), jafnvel svo að sumum þykir nóg um. Hvernig mun þessum gildum reiða af í breyttu þjóðfélagi þar sem ný ágeng trú kemur inn í samfélag sem var að sumu leyti á kyrrlátri leið til trúleysis? Snúast kosningarnar á morgun ekki öðrum þræði um það?