c

Pistlar:

8. júlí 2024 kl. 20:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Í skotlínu íslamista

Margir sögðu eftir morðið á hollenska stjórnmálamanninum Pim Fortuyn að Evrópa yrði aldrei söm. Pim Fortuyn var á margan hátt skrautlegur maður og vakti athygli á mörgum vandamálum í Hollandi, sérstaklega þegar kom að innflytjendum og afstöðu til íslams. Pim Fortuyn var prófessor við Erasmus háskólann í Rotterdam en snéri að viðskiptum og var ráðgjafi hollenskra stjórnvalda. Hann varð síðan áberandi í Hollandi sem dálkahöfundur, rithöfundur og fjölmiðlaskýrandi áður en hann snéri sér að stjórnmálum. Á yngri árum var hann marxisti en snérist í stjórnmálum, sérstaklega vegna vaxandi áhrifa íslam í Hollandi sem hann sagði bera með sér afturhvarf til trúarlegrar- og menningarlegrar kúgunar.Monument_Pim_Fortuyn

Fortuyn var myrtur í kosningabaráttunni 2002 af Volkert van der Graaf, vinstrisinnuðum umhverfis- og dýraverndunarsinna. Í réttarhöldunum yfir honum sagði van der Graaf að hann hefði myrt Fortuyn til að koma í veg fyrir að hann gerði múslima að blóraböglum fyrir því sem úrskeiðis færi í samfélaginu. Flokkur Fortuyn fékk nokkra samúð í kjölfarið og náði öðru sætið í kosningunum en átti litlu láni að fagna upp frá því.

Theo van Gogh myrtur

En ofbeldi beitt gegn fólki sem gagnrýndi íslam var þar með ekki lokið í Hollandi. Einn góðan veðurdag í nóvember 2004 var Theo van Gogh á leið til vinnu sinnar í kvikmyndafyrirtæki sem hann átti í Amsterdam. Hann tók fram gamla reiðhjólið sitt og hélt leiðar sinnar niður götuna. Í dyragætt á leiðinni beið hans marokkóskur maður, vopnaður skammbyssu og tveimur slátrarahnífum.minnism theo

Múhameð Bouyeri steig fram þegar Theo hjólaði niður Linnaeusstratt. Hann tók fram byssuna og skaut Theo nokkrum sinnum. Theo datt af hjólinu og skjögraði yfir götuna og hné svo niður. Bouyeri elti hann. Theo grátbað hann: „Getum við ekki rætt málið?“, en Bouyeri skaut hann fjórum sinnum í viðbót. Því næst tók hann annan slátrarahnífinn og skar Theo á háls. Með hinum festi hann fimm síðna bréf í brjóst Theos. Bréfið var stílað á Ayaan Hirsi Ali þar sem henni var hótað sömu örlögum en þessi frásögn er einmitt í inngangi bókar hennar Frjáls, stórbrotin saga hugrakkrar konu, sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2007. Hér fylgir með mynd af minnismerki um Theo í Amsterdam. 

Treystu sér ekki til að vernda Ayaan Hirsi Ali

Ayaan Hirsi Ali fæddist í Sómalíu og alin upp í múslimskri fjölskyldu í Sómalíu, Sádi Arabíu, Eþíópíu og Kenýja. Hún hlífir hvorki fjölskyldu sinni né íslamska samfélaginu í bók sinni og hefur æ síðan verið ötul talskona gegn áhrifum íslams. Hún komst á þing í Hollandi, var samstarfskona Theos og fékk lífverði eftir morðið á honum og var ekið um í brynvörðum bíl. En hollensk yfirvöld treystu sér ekki til að hafa hana í landinu. Í apríl 2006 skipaði hollenskur dómstóll henni að flytja úr griðastað sínum, íbúð sem hún leigði af ríkinu. Dómarinn úrskurðaði nágrönnum hennar í vil en þeir töldu að sér stafaði hætta af veru hennar í húsinu enda bjó hún við ítrekaðar hótanir íslamista. Hún flutti að lokum til Bandaríkjanna og hefur haldið baráttu sinni gegn íslam áfram þó hún búi við stöðugar hótanir.Ayaan Hirsi Ali

Sjálfsagt dregur það ekki úr ofsóknunum að Ayaan Hirsi Ali greindi frá því að hún væri orðin kristin en lengst af hefur hún kynnt sig sem trúleysingja. Rök hennar fyrir trúskiptunum eru að mestu leyti pólitísk, þó hún taki einnig fram að trúleysi gæti ekki fært henni „merkingu og tilgang lífsins“.

Banvænn söngur Satans

En ekki einu sinni Bandaríkin eru öruggur staður fyrir þá sem móðga íslamista. Rithöfundurinn Salman Rushdie var stunginn í háls og andlitið þegar hann var á sviði í New York fyrir tæplega tveimur árum og beið varanlega skaða, meðal annars blindaður á öðru auga. Rushdie hefur sætt ofsóknum árum saman eftir útgáfu bókar sinnar Söngvar Satans sem kom út árið 1988. Bókin olli miklu fjaðrafoki innan íslamstrúar vegna þess hvernig mynd var dregin upp af Múhameð spámanni og var Rushdie dæmdur til dauða (fatwa) af æðstaklerki Írans, Ruhollah Khomeini fyrir þessi skrif. Bókin var allstaðar bönnuð af íslamistum og þeir sem komu nálægt útgáfu hennar hættu lífi sínu. Þannig var William Nyga­ard, út­gef­andi Söngv­a Satans í Nor­egi, skot­inn í þrígang og skil­inn eft­ir til að deyja í út­hverfi Ósló­ar 11. októ­ber 1993.

Árið 1991 var Ett­ore Capri­olo, sem þýddi bók­ina yfir á ít­ölsku, stung­inn í Mílanó af manni sem vildi fá Capri­olo til að upp­lýsa, án ár­ang­urs, um íverustað Rus­hdie. Capri­olo lifði árás­ina af eins og Nyga­ard en nokkr­um dög­um síðar var prófessor Hitos­hi Ig­arashi, sem þýddi bók­ina á japönsku, stung­inn til bana í Tókýó. Rannsóknin á atlögunni að Nyga­ard var hneyksli en norska lögreglan virtist ekki treysta sér til að rannsaka málið sem pólitíska atlögu. Sama henti Capri­olo en hann var illa slasaður en taldi sig kenna að árásarmaðurinn væri frá Íran. Eigi að síður treysti ítalska lögreglan sér ekki til að rannska málið á þeim forsendum að það tengdist bókinni og hótunum íslamista. Capri­olo naut þó lögregluverndar þar til hann dó 2013.salaman

Hinn langi armur íslams

Armur íslams er langur en prófessor Mushirul Hassan, íslamskur sagnfræðingur, var hótað lífláti af indverskum múslimum í Nýju Delí eftir að hann hvatti stjórnvöld til að aflétta banni við bók Rushdies.

Tyrkneski rithöfundurinn Aziz Nessin, sem birti brot úr bókinni í Tyrklandi, var skotmark múgs íslamskra bókstafstrúarmanna sem réðust á fund vinstrisinnaðra listamanna og rithöfunda 2. júlí 1993 í austurhluta Tyrklands. Þrjátíu og sex létu lífið þegar múgurinn kveikti í hótelinu. Nessin lifði af.

Ríkisstjórn Írans hefur fyrir löngu reynt að setja sig í armslengd frá tilskipun Khomeinis en lengi vel buðu írönsk stjórnvöld þrjár milljónir dollara verðlaun fyrir að drepa Rushdie. Árið 2012 hækkaði hálfopinber írönsk trúarstofnun verðlaunin fyrir Rushdie úr 2,8 milljónum í 3,3 milljónir dala.

Árið 2012 sagði Salman Rushdie í viðtali við breska rík­is­út­varpið BBC að bókin myndi ekki vera gefin út nú á tímum vegna andrúmslofts „ótta og taugaveiklunar“. Það lýsir ágætlega ástandinu í þeim löndum sem láta reyna á tjáningarfrelsið í samskiptum við þá menningarstjórnun sem nú hefur borist til Vesturlanda.