c

Pistlar:

22. júlí 2024 kl. 20:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Diljá, María Lilja og vestræn menning

„Stærsta ógnin við vestræna menningu er vestræn menning sjálf,“ sagði sómalska baráttukonan Ayaan Hirsi Ali, sem hefur helgaði sig baráttu gegn kúgun múslimakvenna, þegar hún mætti á hádegisfund á vegum alþjóðlegu bókmenntahátíðarinnar í Reykjavík í september 2007. Hirsi Ali var þá gestur hátíðarinnar í tilefni af því að sjálfsævisaga hennar var  nýútkomin á íslensku undir heitinu Frjáls.hijab_jerusalem_040516

Með þessum orðum, að vestræn menning sé mesta ógnin við sjálfa sig, átti Hirsi Ali við að sú menningarlega afstæðishyggja, sem mjög hefði grafið um sig á Vesturlöndum, kunni ekki góðri lukku að stýra. „Sú trú, að öll menning sé jafngild, er á villigötum,“ sagði Hirsi Ali. Hún sagðist trúa því að allir einstaklingar séu jafngildir, en ekki öll menning. Að sínu mati sé sú menning sem þróast hafi á Vesturlöndum einfaldlega betri en sú siðmenning sem í boði sé annars staðar meðal mannkynsins.

Það er merkilegt að skoða þessi ummæli Hirsi Ali í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað undanfarið og birst í skoðanaskiptum þeirra Diljár Mist Einarsdóttur, formanns utanríkismálanefndar og þingkonu Sjálfstæðisflokksins og Maríu Lilju Ingveldar-Þrastardóttur Kemp fjölmiðlakonu. Þær Drífa Snædal, talskona Stígamóta og Linda Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka um kvennaathvarf mættu síðan á Bylgjuna á föstudag þar sem ummæli Diljár voru rædd. Báðum virðist umhugað um að smætta það ofbeldi sem fylgir innflytjendum og þeirra menningu og trú.

Engin umræða eldfimari

Þetta er ekki með öllu ný umræða en segja má að kveikjan að henni núna sé hlaðvarpsviðtal Diljár þar sem hún sagði það sláandi hvernig femínistar á Íslandi kjósi að horfa í gegnum fingur sér þegar um sé að ræða kynbundið ofbeldi innflytjenda. Ákveðnum hópum hafi verið veittur „súkkulaðipassi“ í mannréttindamálum sem hún sagði að væri hræsni. Það kann að koma einhverjum á óvart hve heit þessi umræða er en rifja má upp að tveimur árum eftir heimsókn sína hingað sagði Hirsi Ali: „Engin umræða er eldfimari, viðkvæmari, ruglingskenndari og skelfilegri heldur en rökræðan um framtíð íslams í Evrópu."

Þessi umræða Diljár og Maríu Lilju snýst ekki endilega um framtíð íslam en hún er sannarlega um framtíð íslensks samfélags. Og hún fær þekkta femínista til að líkja andstæðingum sínum við rasista. En hún fær okkur einnig til að hugleiða hver séu gildi vestrænnar menningar og hve langt eigi að ganga til að verja þau? Hver hefur rétt fyrir sér? Þeir sem vilja opna hana fyrir erlendri menningu eða þeir sem vilja varðveita menninguna þó að erlent fólk komi og setjist hér að. Við getum jöfnum höndum talað um vestræna og íslenska menningu í þessu sambandi því umræðan er síður en svo bundin við Ísland þó við séum hugsanlega nokkrum árum á eftir nágrannalöndum okkar eins og dæmin sanna.Ayaan Hirsi Ali

Vestræn menning best?

Hirsi Ali benti á áðurnefndum blaðamannafundi að vestræn menning sé ekki fullkomin frekar en aðrar afurðir mannanna, en hún standi öðrum framar, meðal annars vegna þess að einn grundvallarþátta hennar sé að ala upp fullveðja, frjálsa einstaklinga, hvort sem þeir séu karlar eða konur. „Það þýðir ekki að ég horfi framhjá voðaverkum sem unnin hafa verið í fortíð eða nútíð af Vesturlandabúum eða í nafni frelsis og lýðræðis, en þegar ég ber saman vestræna menningu við annars staðar, þá íslömsku, kínversku, rússnesku, þá er sú vestræna þegar allt kemur til alls sú besta,“ sagði hún og er hér vitnað í endursögn Fréttablaðsins af fundinum.

„Menning sem leyfir að börn séu limlest er ekki jöfn menningu þar sem kvenleikinn og fæðing stúlkubarns er hyllt. Menning sem beitir nýjustu tækni til að kyngreina fóstur í því skyni að gera kleift að eyða fóstrum stúlkubarna er ekki jöfn menningu sem gefur stúlkum öll hugsanleg tækifæri; menning sem innrætir börnum sínum gildi „heilags stríðs“ er ekki jöfn menningu sem leitast við að ala börn sín upp í nýsköpun, þekkingarleit og skilningi á heiminum,“ sagði Hirsi Ali og sagði sofandahátt og skilningsleysi gagnvart þeim ógnum sem vestræn menning standi frammi fyrir hafa auðveldað hnignun hennar innan frá. Ein þessara ógna sé tvímælalaust herská útlegging íslams. Hún sé öflug hnattræn hreyfing, sem hvorki beri að of- né vanmeta. Hættulegast sé að umbera það að slík kúgunarhugmyndafræði fái þrifist á Vesturlöndum í skjóli „fjölmenningar.“FRjáls

Er Ayaan Hirsi Ali óvinurinn?

Það er auðvitað merkilegt að talsmenn femínisma skuli vera í fararbroddi þeirra sem gera helst athugasemd við þessa baráttu Hirsi Ali og fleiri gegn feðraveldi íslam. Þá helst undir einhverskonar formerkjum afstæðishyggju eins og áður sagði. María Lilja segir að Diljá birti „mjög skaðlegar hugmyndir“ og tali af vanþekkingu um málefni innflytjenda, menningu og heimilisofbeldi og ber fyrir sig tölfræði en Hirsi Ali hefur einmitt gagnrýnt alla tölfræði í kringum innflytjendur á þeim forsendum að hún taki ekki til menningartengds ofbeldis. Hægt er að taka undir það en gagnrýni á Hirsi Ali kemur úr ýmsum áttum og stundum má undrast röksemdafærsluna eins og í þessari málsgrein Bjargar Hjartardóttur.

„Að sama skapi má spyrja hvort ákveðnum skugga hafi verið varpað á arfleið Simone de Beauvoir þegar Ayaan Hirsi Ali áskotnuðust verðlaun í hennar nafni? Það er deginum ljósara að það getur reynst erfitt fyrir marga femínista að horfast í augu við þá staðreynd að konu sem er boðberi jafn-mótsagnakenndra viðhorfa til múslimskra kvenna sé hampað sem baráttukonu fyrir frelsi kvenna víða um heim. Það kæmi mér alla vega ekki á óvart ef Simone de Beauvoir hefði nú þegar snúið sér við í gröfinni,“ skrifaði Björg í Lesbók Morgunblaðsins 21. júní 2008 en hún er með M.A.-gráðu í kynjafræði frá Háskólanum í Utrecht, Hollandi. Björg ætti því öðrum betur að þekkja þá baráttu og ofsóknir sem Ayaan Hirsi Ali varð að þola í Hollandi eftir að herskáir íslamistar snérust gegn henni og gerðu hana að skotmarki dauðasveita sinna.