Í janúar 2000 birti pólitíski álitsgjafinn Paul Scheffer greinina „Fjölmenningarharmleikurinn“ (Het multiculturele drama) í NRC Handelsblad, virtu síðdegisblaði í Hollandi. Greinin var strax á allra vörum í landinu og allir höfðu skoðanir á henni. Í grein sinni sagði Scheffer að í landinu hefði orðið til ný lágstétt innflytjenda sem hefði einangrað sig um of. Þessi nýja lágstétt hafnaði þeim gildum sem hnýttu saman hollenskt samfélag og hefði skapað nýjan, skaðlegan aðskilnað milli þeirra sem fyrir voru og aðkomufólksins. Um leið gagnrýndi Scheffer að það væri ekki nóg áhersla lögð á aðlögun innflytjenda: kennarar drægju meira að segja í efa gagnsemi þess að kenna innflytjendabörnum hollenska sögu og heil kynslóð slíkra barna væri afskrifuð frá hollenskum gildum undir yfirskini umburðarlyndis. Scheffer sagði að í Hollandi væri ekkert pláss fyrri menningu sem hafnaði aðskilnaði ríkis og trúar og almennum mannréttindum, svo sem réttindum kvenna og samkynhneigðra.
Í grein sinni spáði Paul Scheffer að innflytjendastefnan myndi skapa ófrið í Hollandi. Hvort sem það var grein Paul Scheffer eða annað, þá má segja að umræða um innflytjendamál hafi tekið stakkaskiptum í Hollandi í framhaldinu eins og rakið er í bókinni Frjáls eftir sómölsku baráttukonuna Ayaan Hirsi Ali. Smám saman fór að koma í ljós hinn huldi heimur óheftrar innflytjendastefnu sem skilaði inn í landið fólk sem ýmist vildi ekki eða gat ekki aðlagast samfélaginu. Það var gríðarlegt áfall fyrir hið umburðalinda samfélag Hollands að komast að þessu. Við höfum nýleg dæmi um hvernig málefni innflytjenda geta haft endaskipti á ýmsu í umræðunni.
Innflytjendamál og stjórnmálin
Þetta breytti einnig stjórnmálunum í Hollandi og smám saman fóru innflytjendamál að hafa marktæk áhrif á stjórnmálin, stjórnmálafræðingum þar (eins og annars staðar) til undrunar. Stjórnmálamaðurinn Pim Fortuyn var þar í fararbroddi en hann var á margan hátt skrautlegur maður. Hann vakti athygli á mörgum vandamálum í Hollandi, sérstaklega þegar kom að innflytjendum og afstöðunni til íslams sem hann var mjög gagnrýnin á. Pim Fortuyn var prófessor við Erasmus háskólann í Rotterdam en snéri að viðskiptum og var ráðgjafi hollenskra stjórnvalda. Hann varð síðan áberandi í Hollandi sem dálkahöfundur, rithöfundur og fjölmiðlaskýrandi áður en hann snéri sér að stjórnmálum. Á yngri árum var hann marxisti en snérist í stjórnmálum, sérstaklega vegna vaxandi áhrifa íslam í Hollandi sem hann sagði bera með sér afturhvarf til trúarlegrar- og menningarlegrar kúgunar.
Fortuyn var myrtur í kosningabaráttunni 2002 af Volkert van der Graaf, vinstrisinnuðum umhverfis- og dýraverndunarsinna og allir fundu að hollenskt samfélag var að taka miklum breytingum en fram að þessu höfðu hollenskir stjórnmálamenn getað hjólað óáreittir um götur borga og bæja. Í réttarhöldunum yfir honum sagði van der Graaf að hann hefði myrt Fortuyn til að koma í veg fyrir að hann gerði múslima að blóraböglum fyrir því sem úrskeiðis færi í samfélaginu. Flokkur Fortuyn fékk nokkra samúð í kjölfarið og náði öðru sætið í kosningunum en átti litlu láni að fagna upp frá því.
Fleiri ofbeldisverk - Theo van Gogh myrtur
En hollensk stjórnmál voru að breytast og ofbeldi gegn fólki sem gagnrýndi íslam var þar með ekki lokið í Hollandi eins og hér hefur áður verið fjallað um. Einn góðan veðurdag í nóvember 2004 var Theo van Gogh á leið til vinnu sinnar í kvikmyndafyrirtæki sem hann átti í Amsterdam. Hann tók fram gamla reiðhjólið sitt og hélt leiðar sinnar niður götuna. Í dyragætt á leiðinni beið hans marokkóskur maður, vopnaður skammbyssu og tveimur slátrarahnífum.
Múhameð Bouyeri steig fram þegar Theo hjólaði niður Linnaeusstratt. Hann tók fram byssuna og skaut Theo nokkrum sinnum. Theo datt af hjólinu og skjögraði yfir götuna og hné svo niður. Bouyeri elti hann. Theo grátbað hann: „Getum við ekki rætt málið?“, en Bouyeri skaut hann fjórum sinnum í viðbót. Því næst tók hann annan slátrarahnífinn og skar Theo á háls. Með hinum festi hann fimm síðna bréf í brjóst Theos. Bréfið var stílað á Ayaan Hirsi Ali þar sem henni var hótað sömu örlögum en þessi frásögn er einmitt í inngangi bókar hennar Frjáls, stórbrotin saga hugrakkrar konu, sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2007 og nokkuð hefur verið fjallað um hér í pistlum.
Ayaan Hirsi Ali flýr Holland
Ayaan Hirsi Ali fæddist í Sómalíu og alin upp í múslímskri fjölskyldu í Sómalíu, Sádi Arabíu, Eþíópíu og Kenýa. Hún hlífir hvorki fjölskyldu sinni né íslamska samfélaginu í bók sinni og hefur æ síðan verið ötul talskona gegn áhrifum íslams. Hún komst á þing í Hollandi, var samstarfskona Theos og fékk lífverði eftir morðið á honum og var ekið um í brynvörðum bíl. En hollensk yfirvöld treystu sér ekki til að hafa hana í landinu. Í apríl 2006 skipaði hollenskur dómstóll henni að flytja úr griðastað sínum, íbúð sem hún leigði af ríkinu. Dómarinn úrskurðaði nágrönnum hennar í vil en þeir töldu að sér stafaði hætta af veru hennar í húsinu enda bjó hún við ítrekaðar hótanir íslamista. Hún flutti að lokum til Bandaríkjanna og hefur haldið baráttu sinni gegn íslam áfram þó hún búi við stöðugar hótanir.
Sjálfsagt dregur það ekki úr ofsóknunum að Ayaan Hirsi Ali greindi frá því að hún væri orðin kristin en lengst af hefur hún kynnt sig sem trúleysingja. Rök hennar fyrir trúskiptunum eru að mestu leyti pólitísk, þó hún taki einnig fram að trúleysi gæti ekki fært henni „merkingu og tilgang lífsins“.
Innflytjendur einangraðir
Hirsi Ali hefur bent á að niðurstaðan af innflytjendastefnu Hollendinga hafi verið sú að innflytjendur lifðu út af fyrir sig, lærðu út af fyrir sig, umgengust hverjir aðra. Þeir sóttu sérstaka skóla, sérstaka múslímaskóla eða venjulega skóla í borgunum sem aðrar fjölskyldur síðan flúðu. Um það skrifar hún í bók sína:
„Þessi meðaumkun með innflytjendum og vanda þeirra í nýju landi leiddi hins vegar til viðhorfa og stefnumótunar sem ól á grimmd og viðhélt henni. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því að þúsundum múslímskra kvenna og barna var misþyrmt kerfisbundið. Litlar stúlkur voru umskornar á eldhúsborðum - þetta vissi ég frá Sómölum sem ég þýddi fyrir. Stelpur sem völdu sér sjálfar kærasta voru nánast barðar til bana eða hreinlega drepnar; enn fleiri sættu reglulegum barsmíðum. Þessar konur liðu ólýsanlegar þjáningar. Og á meðan Hollendingar voru rausnarlegir í framlögum sínum til alþjóðlegra hjálparsamtaka, litu þeir framhjá þöglum þjáningum múslímskra kvenna og barna í þeirra eigin landi.
Fjölmenningarstefna Hollands - virðing þeirra fyrir lífsháttum múslíma - skilaði engum árangri. Hún svipti margar konur og börn réttindum sínum. Hollendingar vildu vera umburðarlyndir og sáttfúsir en sú sátt var innantóm. Menning innflytjenda var varðveitt og það voru konurnar og börnin sem supu seyðið af því, auk þess sem ekkert varð úr aðlögun innflytjenda að hollensku samfélagi. Margir múslímar lærðu enga hollensku og höfnuðu hollenskum gildum á borð við umburðarlyndi og einstaklingsfrelsi. Þeir gengu að eiga ættingja úr heimaþorpum sínum og endursköpuðu á hollenskri grund lítin skika af Marokkó eða Mogadishu.“(bls.325)
Paul Scheffer hefur starfað sem prófessor víða en árið 2007 kom út bók hans, Het land van anjamming, sem kom út á ensku árið 2011 undir heitinu „Innflytjendaþjóðir“ (Immigrant Nations) sem fjallar um skörun fjölmenningar í Hollandi og innflytjenda til landsins. Í bókinni reynir hann að grafast fyrir um hvað gerist innan fjölmenningar en meginhugsun bókarinnar er að „innflytjendur hafi alltaf skapað ferli firringar fyrir bæði nýbúa og innfædda“.