Stundum rifja menn upp að stríðinu á Kóreuskaga hefur í raun aldrei lokið. Því er það svo að tæknilega eiga Kóreuríkin tvö enn í stríði vegna þess að Kóreustríðinu á árunum 1950-1953 lauk með vopnahléi en ekki friðarsamningum. Segja má að þarna sé um að ræða vopnaðan frið enda ríkir gagnkvæmt vantraust á milli ríkjanna. En á Kóreuskaganum hafa samt ekki verið alvarleg átök í bráðum 75 ár, sem skiptir mestu fyrir heimamenn og heimsfriðinn.
Margir velta eðlilega fyrir sér hvernig átökum milli Úkraínu og Rússlands muni ljúka. Hvorug þjóðin getur bent á ávinning eins og stendur og sumir tala um að biðstaða sé að myndast fram yfir kosningar í Bandaríkjunum í haust en Donald Trump, forsetaefni repúblikana, hefur sagt að hann geti leyst málið á einum degi. Stórkallaleg yfirlýsing að hans hætti en hvaða lausn er hægt að sjá fyrir sér nú þegar stríðið er búið að standa yfir í tvö og hálft ár? Augljóslega eru allir að þreytast á stríðinu og athyglin færðist yfir á átökin fyrir botni Miðjarðarhafsins eftir 7. október á síðasta ári. Pistlaskrifari keypti sér fyrir stuttu júlí/ágúst heftið af tímaritinu Foreign Affairs sem er ekki í frásögur færandi nema að það vakti athygli að þar var ekki ein einasta grein sem fjallaði með beinum hætti um Úkraínustríðið! Kína, Bandaríkin, Miðausturlönd og Arabaheimurinn fengu hins vegar sína athygli.
Þjáningar á þjáningar ofan
Stríðið hefur fært óumræðanlegar þjáningar fyrir íbúa Úkraínu og stór landssvæði í rúst, innviðir eyðilagðir. Margir hafa látist og særst og óhugnanlegt að lesa lýsingar á ránum Rússa á úkraínskum börnum. Rússar eru árásaraðilinn og þó að þeir hafi náð stórum sneiðum af Úkraínu er það dýru verði keypt, meðal annars vegna þess að Nató hefur dregið lærdóm af innrásinni. Segja má að samtökin hafi tekið sig saman í andlitinu og aðildarþjóðir bandalagsins keppast nú við að styrkja varnir sínar. Fyrir innrásina hefðu fæstir geta ímyndað sér að Finnland og Svíþjóð yrðu aðildarríki að Nató með svo skjótum hætti og raun bar vitni. Það er ekki niðurstaða sem Rússum hugnast. Um leið hafa nágrannaríki Rússa, við Eystrasaltið og í Austur-Evrópu styrkt mjög varnir sínar og það ætti einnig að vera Rússum hörð lexía.
Í vikunni skrifuðu varnarmálaráðherrar Bretlands og Þýskalands undir sameiginlega yfirlýsingu um aukna samvinnu í öryggis- og varnarmálum. Er þetta sögð vera fyrsta yfirlýsing af þessu tagi, sem Nató-ríkin tvö gera með sér. Sá samningur styður við varnarstefnu Nató, miklu frekar en skammsýnar hugmyndir um sérstakan ESB her.
Stendur innlimun Pútíns?
Þegar landvinningar Rússa eru skoðaðir sést að þar er að mestu um að ræða svæði sem voru tekin að færast yfir til þeirra strax árið 2014 þegar þeir innlimuðu Krím og átökin hófust í austur-Úkraínu. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lýsti formlega því yfir í september 2022 að hann hefði innlimað hluta Úkraínu en á þeim tíma töldu margir að Úkraínumenn væru að snúa stríðinu sér í hag. Um leið tilkynnti Pútín á fundi öryggisráðs Rússlands að herlög væru í gildi alþýðulýðveldinu Donetsk, alþýðulýðveldinu Luhansk og héruðunum Kherson og Zaporizhzhia. Þetta er það svæði sem hann vill öðru fremur halda og nú er spurningin hvort að Úkraínumenn geti sætt sig við það og fallist á einhverskonar vopnahléssamninga sem gætu leitt til kóreansks friðar.
Menn sem vilja ekki semja
En þá berst talið óhjákvæmilega að því hverjir eru haukar eða dúfur í Úkraínu? Það er auðvelt fyrir vesturlandabúa að tala digurbarkalega en mannfall Úkraínumanna er farið að hafa veruleg áhrif og ekki gengur eins vel og áður að fylla í skörðin. Þó að þeim hafi tekist að lama Svartahafsflota Rússa eru þeir vígmóðir. Það sama verður sagt um Rússa en sagan segir okkur að fáar þjóðir geti þolað jafn miklar þjáningar. Um leið og þeir hafa reynt að eyðileggja orkuinnviði Úkraínu hafa þeir sjálfir þurft að þola mikið tjón á olíuhreinsunarstöðvum sínum.
En mun Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti geta fallist á frið en hann hefur ekki viljað ljá máls á slíku tali hingað til? Tilvera hans byggist á því að semja ekki, rétt eins og tilvera Benjamíns Netanjahús, forsætisráðherra Ísraels, byggist á því að ganga milli bols og höfuðs á Hamas. Hvorugur þessara manna virðist telja það þjóna persónulegri stöðu sinni að semja. Eins og aðrir stjórnmálamenn eru þeir að varðveita söguna um sjálfan sig og stöðu sína. Það hefur ekki endilega neitt með skynsemi að gera.