c

Pistlar:

6. ágúst 2024 kl. 18:12

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Barnamorð og útlendingahatur

Síðustu daga hafa átt sér stað óeirðir í mögum borgum Bretlands. Þeim hafa fylgt alvarlegar árásir á lögregluna. Miklar fréttir eru fluttar af þessu. Sumir reyna að draga upp einfalda mynd af ástandinu á meðan aðrir telja dýpri þjóðfélagsbreytingar að baki. Breskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum undanfarna áratugi. Þótt margt gerist í stóru landi þá má segja að hnífstunguárásin í Southport á mánudaginn í síðustu viku hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Fyrstu fréttir af árásinni settu óhug að Bretum enda ráðist að börnum í dansnámsskeiði tileinkað Taylor Swift. Fjölmörg þeirra voru lífshættulega særð sem og þeir fullorðnu sem reyndu að koma börnunum til bjargar. Þrjú barnanna, sex, sjö og níu ára stúlkur létust eftir hnífsstunguárásina og enn eru börn á gjörgæslu en vonandi úr lífshættu. Alls slösuðust átta börn og tveir fullorðnir alvarlega í árásinni.soyhport

Hnífaárásir hafa færst í vöxt í Bretlandi og veldur almenningi þungum áhyggjum. Auðvitað er margt að í Bretlandi eins og mörgum öðrum Evrópulöndum en þessar hnífaárásir eru ný ógn og hafa verið tengdar innflytjendum, með réttu eða röngu. Fljótlega fóru á kreik flökkusögur um uppruna árásarmannsins og trúarbrögð, þar sem hann var sagður vera hælisleitandi og múslimi. Árásarmaðurinn reyndist svo vera Axel Muganwa Rudakubana, 17 ára, sonur innflytjenda frá Rúanda. Hann er breskur þegn, fæddur og uppalinn í Cardiff í Wales en flutti til Southport 2013. Engar skýringar hafa borist af því hvað fyrir honum vakti.

Staðalmynd flóttamannsins

Þessi árás kemur inn í samfélag sem er í hálfgerðri upplausn. Þar er undirliggjandi mikil óánægja með innflytjendastefnu stjórnvalda. Axel Rudakubana fellur að nokkru inn í staðalmynd flóttamannsins sem eru að stórum hluta ungir karlmenn. Þeir hafa nú þegar skapað vandamál í mörgum þeim samfélögum þar sem þeir búa í eins og Erla Rafnsdóttir, sem býr í Bretlandi, benti á í morgunútvarpi Bylgjunnar í dag. Breskur almenningur verður nú æ meira var við að stórir hópar ungra karla, sem komu sem flóttamenn, flestir ólöglega, vafri um götur í reiðaleysi og áreiti konur. Af þessu eru fluttar margar fréttir í Bretlandi þó íslenska menningarelítan sjái þær ekki í fréttum BBC og vinstri dagblaðinu Guardian. Hugsanlega sjáum við kynslóðaskipti hjá íslenskum umræðustjórum því hlaðvarpsstjórnendurnir Frosti Logason og Þórarinn Hjartarson hafa báðir gagnrýnt fréttaflutning íslenskra fjölmiðla af atburðunum.soutport

Það blasir við að megn óánægja hefur grafið um sig með þróun mála í Bretlandi undanfarið en um 150 þúsund flóttamenn komu yfir Ermasundið með bátum á síðasta ári og um 15 þúsund það sem af er þessu ári. Eins og Erla benti á þá þarf að fæða og klæða þetta fólk sem margt dvelst á hótelum, en eitt þeirra varð fyrir árásum núna.

Það er ekki eins og að kjósendur hafi ekki látið heyra í sér. Sigur Íhaldsflokksins tvær kosningar í röð vannst meðal annars vegna loforða um að taka á innflytjendamálunum. Sama má segja um Brexit, meirihlut Breta kaus að yfirgefa Evrópusambandið í von um að þannig væri hægt að stemma stigu við þeim mikla fjölda flóttamanna sem streyma til landsins. En allt kom fyrir ekki. Stjórnmálin hafa reynst fremur ráðalaus, fólkið heldur áfram að koma og almenningur upplifir fullkomið stjórnleysi í málaflokknum, sem auk þess leggur gríðar miklar byrðar á illa fjármagnað félagskerfi landsins.

Ofmat á samfélagsmiðlum?

Að óeirðum núna standa hópar sem samanstanda mestmegnis af tekjulágum og lítt menntuðum hvítum Bretum, en nóg er af þeim í norðurhluta Bretlands. Þeim finnst ekki á sig hlustað af ráðamönnum og þeir eru undir áhrifum af misáreiðanlegum upplýsingum sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum. Það er í raun áhugavert að hlusta sífellt á einhverskonar samfélagsmiðlagreinendur koma með útlistun á upplýsingaóreiðu og uppruna hennar. Þeir sem töldu augljóst að allt slíkt kæmi frá Rússum, meðal annars í Brexit-kosningunni og forsetakosningum Bandaríkjanna, gera nú lítið úr áhrifum Rússa í Bretlandi núna. Áhrif samfélagsmiðla eru kannski fyrst og fremst hvernig þeir nýtast við að skipuleggja og samræma aðgerðir mótmælenda.soutport

Sá hópur sem stendur að óeirðunum núna er úr allt öðru þjóðfélagslagi en árið 2011 þegar síðast urðu átök af þessari stærðargráðu. Þá skaut lögreglan Mark Duggan, 29 ára svartan Breta, til bana í Tottenham í Norður-London. Duggan var vopnaður byssu en þegar yfir lauk höfðu 3000 mótmælendur verið handteknir og eignartjón gríðarlegt.

Engin hugmyndafræði - bara óánægja

Erlendur Magnússon viðskiptafræðingur, sem vel þekkir til í Bretlandi, benti á það í Facebook-færslu að í sjálfu sér virðist þessi hópur sem núna mótmælir ekki hafa neina ígrundaða hugmyndafræði að baki, en hann er almennt kallaður „öfga hægrimenn“, sem Erlendur bendir réttilega á að eigi ekkert skylt við hefðbundna frjálshyggju eða íhaldsstefnu í skoðunum. „Mest af þessu fólki hefur hátt, en er ekki ofbeldisfullt, en svo er minnihluti sem finnst hann eiga fullan rétt á að hafa uppi ofbeldi og ýmsir tækifærissinnar sem ganga til liðs við hópinn til þess að kveikja elda og brjótast inn í fyrirtæki og láta greipar sópa,“ skrifar Erlendur.

Ofbeldi á götum úti er ekkert nýtt, þó að umfangið undanfarna daga sé meira en við eigum að venjast. Margt eykur á vanda lögreglunnar sem nú þarf að takast á við þennan hóp mótmælenda. Það eykur ofbeldi svokallaðir andfasistar (öfga vinstrisinnar) hafa líka mætt út á götur til að taka slaginn við þessa hvítu ofbeldisseggi og þá lendir lögreglan mitt á milli. Þessar myndir birtast ekki í Ríkisútvarpinu en á X (áður Twitter) og fleiri samfélagsmiðlum flæða slík myndbönd, meðal annars af hópum múslima sem telja sig í skotlínunni og hafa snúist til varnar oft með mjög ofbeldisfullum hætti. Erlendur bendir á að það sé alveg ljóst að þessum öfga vinstrisinnum finnst mikilvægara að taka slaginn við andstæðinga sína fremur en að lögreglan nái að stilla til friðar, enda nærist fólk sem þetta á ofbeldi.

Fordæmi fyrir ofbeldisverkum

En hvers vegna finnst þessum öfgamönnum til hægri og vinstri sjálfsagt að hafa uppi þetta ofbeldi gagnvart almennum borgurum og lögreglu og telja sig geta komist upp með það? Jú, á síðustu árum hefur lögreglan í Bretlandi tekið afar vægt á því þegar mótmælendur hafa verið með óspektir og viðhaft ofbeldi. Þau mótmæli eru þá nafni vinstrisamtaka eins og Black Life Matters, Just Stop Oil eða eru hreinlega að lýsa yfir stuðningi við hryðjuverkasamtök eins og Hamas og klerkastjórnina í Íran. Rétt eins og hinum megin Ermasundsins hafa Frakkar þurft að glíma við samskonar vanda.

Við þekkjum sum þessara mótmæla á Íslandi. Spyrja má hvernig almenningur hér myndi bregðast við ef upp kæmi jafn hörmulegt atvik og það sem gerðist í Southport? Eins og fyrri daginn hafa fordæmi yfirvalda í einu máli áhrif á hegðun borgaranna í öðrum sambærilegum málum. Nú líður almenningur í Bretlandi fyrri linkind gagnvart mótmælendum. Lögreglan er sökuðu um tvöfeldni og bent er á, að fyrst hafði hún sig ekkert í frammi þegar múslimar mótmæltu hart árásum Ísrael á Palestínu með tilheyrandi ofbeldi og skemmdarverkum, þá séu viðbrögð hennar núna miklu harðari gegn hinum óánægðu innfæddu Bretum.