c

Pistlar:

7. ágúst 2024 kl. 20:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bretland: Sannleikurinn er ekki rasískur

Bretland er í hópi þeirra landa sem flestir Íslendingar heimsækja og við teljum okkur þekkja breska menningu mjög vel, hvort sem það er á sviði tónlistar eða kvikmynda. Þá höfum við gríðarlegan áhuga á ensku knattspyrnunni, svo mjög að margir eiga í tilfinningasambandi við enska liðið sitt. Þá eru margir virkir stuðningsklúbbar enskra liða á Íslandi. Við þekkjum einnig vel breska sögu og stjórnmál enda eru íslenskir fjölmiðlar duglegir við að flytja fréttir þaðan.

Það getur verið erfitt að fá yfirsýn yfir breytingar sem birtast með skyndilegum og allt að því öfgafullum hætti eins og umrót það sem gengur núna yfir Bretland. Er upplausn í Bretlandi eða eru þetta staðbundin mótmæli öfgafólks? Mun allt hjaðna skjótt og falla í ljúfa löð eða ber framtíðin í skauti sér alvarleg átök.uk2024

Útbreitt vandamál

Áhugi okkar Íslendinga á bresku menningarsvæði skekkir stundum áherslur fjölmiðla. Það getur verið undarlegt að hlusta á mat fréttastofu Ríkisútvarpsins á stöðunni í Bretlandi, sérstaklega ef Íhaldsflokkurinn er við völd. Flest öll ríki Vestur-Evrópu hafa glímt við erfiðleika undanfarin ár, meðal annars vegna stöðnunar í efnahagslífinu, en einkum þó vegna skautunar og klofnings í samfélagsgerðinni. Hún kemur æ betur í ljós í kjölfar lítt ígrundaðrar innflytjendastefnu og bresta í innleiðingu nýs fjölmenningarsamfélags. Því er ætlað að falla að þeirri menningu, trú og tungu sem er fyrir en árangurinn lætur á sér standa. Sagnfræðilega þenkjandi menn með þekkingu á þjóðflutningum fyrri tíma gætu freistast til að segja að slík samlögun hafi aldrei gengið. Aðrir virðast halda að sá ávinningur sem veraldarhyggja upplýsingarinnar hafi veitt okkur færist sjálfkrafa yfir á trúarheim íslams. Um þessa blöndun hefur verið fjallað hér í fjölmörgum pistlum.

Einsleitt samfélag

Það er mikilvægt að skilja að Bretland er ólíkt Bandaríkjunum þótt löndin eigi með sér sérstakt samband á stjórnmálasviðinu og deili menningu og tungu. Fram til síðustu aldamóta voru hvítir Bretar næstum 90% íbúanna og samfélagið einsleitt, öfugt við til dæmis Bandaríkin. Bretland er ekki og hefur aldrei verið „þjóð innflytjenda“ í sama skilningi og Bandaríkin. En það hefur breyst hratt og stefnir allt í að hvítir Bretar verði innan eins mannsaldurs minnihluti í sínu eigin landi. Litlu virðist skipta að að breskir kjósendur hafa greitt atkvæði gegn þessum breytingum við hvert tækifæri. Þeir kusu gegn þeim í kosningum árin 2010, 2015 og svo sérstaklega í Brexit-kosningunni 2016 og svo aftur 2017 og 2019. Í öll skiptin kaus almenningur þá sem lofuðu að stöðva fjöldainnflutning fólks og binda enda á ólöglegan straum innflytjenda sem er farin að ganga nærri félagslega kerfinu í mörgum samfélögum. Í síðustu kosningum gáfust kjósendur upp á að kjósa Íhaldsflokkinn og kusu annað hvort umbótaflokk Nigel Farage og þannig gegn ríkjandi getuleysi eða stefnu í innflytjendamálum eða kusu alls ekki sem meðal annars leiddi af sér minnstu kjörsókn í heila öld.Uk2024a

Flestir sagnfræðingar eru þeirrar skoðunar að lítill sem enginn vafi sé á því að árekstur Evrópu og annarra menningarheima, sem hófst með siglingum Portúgala og Spánverja á fimmtándu öld, hafði oft haft sorglegar afleiðingar. Líklega myndum við halda að það sem gerðist við nýlenduvæðinguna myndi ekki endurtaka sig, hvað þá þegar íbúar margra nýlenda flytja til gamla nýlenduveldsins. En menningarmunurinn er mikill og fjöldinn miklu meiri. Það kann að vera skýringin á því sem nú er að gerast í Southport og nágrenni í norður-Bretlandi og að það tengist atburðum í Rochdale sem er ekki í nema klukkustunda aksturs fjarlægð frá Southport.

Barnanauðgunarhringir í Rochdale

Í upphafi árs kom út hrikaleg skýrsla um hvað gekk á í Rochdale frá 2004 til 2013 þegar þar voru reknir umsvifamiklir barnanauðgunarhringir. Skýrslunni var ætlað að fara yfir ábyrgð lögreglu og félagsmálayfirvalda á Manchester-svæðinu en viðkvæmni yfirvalda við að taka á málinu var beint rakið til ótta við áskanir um útlendingahatur eða kynþáttafordóma. Rishi Sunak, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, lét málið mikið til sín taka og heimsótti Rockdale þegar skýrslan kom út. Þá voru fjölmiðlar mjög uppteknir af niðurstöðum hennar og um hana mikil umræða í breska þinginu. En þó að skýrslan hafi haft veruleg áhrif meðal almennings í Bretlandi fékk hún litla sem enga umræðu hér á landi þó af henni væru sagðar fréttir.rockdalepapers

Rochdale-skýrslan var upp á 173 blaðsíður og duldist engum að hún hafði djúpstæð áhrif á hælisleitenda/innflytjendaumræðuna. Suella Braverman, innanríkisráðherra Íhaldsflokksins, sagði í viðtali við GB News snemma árs 2023 að það væri hneyksli að gengi nauðgaranna hefðu fengið að athafna sig svo lengi. Stúlkur í viðkvæmri stöðu hefðu verið hunsaðar þegar þær höfðu kvartað um kynferðislega misnotkun, seldar í vændi, gefin eiturlyf eða áfengi og verið nauðgað kerfisbundið.

Í janúar 2024 höfðu alls 42 karlmenn verið sakfelldir sem leiddu til fangelsisdóma upp á 432 ár. Fjörutíu og sjö stúlkur á barnsaldri voru skilgreindar sem fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar við fyrstu rannsókn lögreglu. Fórnarlömbin eru þó miklu fleiri. Sakborningar voru allir breskir Pakistanar utan eins flóttamanns úr röðum Afgana. Stúlkurnar voru aðallega hvítir Bretar af lágstéttarættum.rocdale sex

Sannleikurinn er ekki rasískur

Suella Braverman sagði að allt kerfið hefði brugðist fórnarlömbunum, yfirvöld, félagsráðgjafar, kennarar og lögreglan. Til að vinna gegn þessu rótgróna vandamáli hefði hún ásamt forsætisráðherranum samið aðgerðapakka sem gerðu öllum sem vinna með börnum skylt að tilkynna, vakni grunur um að þau séu í hættu vegna misnotkunar. Suella segir í viðtalinu að sannleikurinn sé ekki rasískur og það væri óumdeild staðreynd að flestir meðlimir gengjanna væru af pakistönskum uppruna. Hér er slóð á skýrsluna.

Málið hafði lengi fylgt bresku þjóðinni og þarna var um þriðju skýrslna að ræða sem fór yfir málið. Það er ástæða til að rifja upp að Ríkissjónvarpið sýndi leikna mynd, Þrjár stúlkur (Three Girls), um atburðina sem var mjög sláandi. Sérstaklega að upplifa viðhorf fullorðinna múslimskra karlmanna til stúlknanna sem þeir voru að misnota. Einnig kom út heimildarmynd árið 2017, The Betrayed Girls: The Rochdale Scandal, sem finna má á Youtube. Enginn treystir sér til að segja til um hve margar stúlkur voru fórnarlömb þessara asísku nauðgunargengja. Þetta er án efa einn svartasti blettur í sögu breskrar löggæslu og þá ekki síður félagsmálayfirvalda, sem aðhöfðust ekkert þótt margar stúlknanna væru skjólstæðingar þeirra.