c

Pistlar:

9. ágúst 2024 kl. 9:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Alþjóðavæðing glæpaheimsins og Norðurlönd

Nýlega var sagt frá því í fréttum Ríkisútvarpsins að lögregla í Danmörku hafi upplýst að glæpamenn þar í landi séu í auknum mæli teknir að fá sænsk ungmenni til að fremja ódæði fyrir sig. Tilefni ummælanna voru þau að tveir unglingar voru í haldi vegna tilrauna til manndráps. Unglingspiltarnir eru sænskir ríkisborgarar, sextán og sautján ára gamlir. Annar var handtekinn í Kolding á Jótlandi en hinn í Kaupmannahöfn. Báðir voru grunaðir um að hafa skotið á fólk. Í frétt Ríkisútvarpsins sagði að Torben Svarrer hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn hefði sagt í samtali við danska ríkisútvarpið að danskir glæpamenn hafi fært sig yfir á annað stig með því að fá sænska unglinga til að vinna fyrir sig „skítverkin“, eins og hann orðar það. Það sé ískyggileg þróun.danmörk

Komi upp deilur milli glæpamanna, til dæmis um fíkniefni, sé gripið til harðra aðgerða, þar á meðal eru manndráp. „Á vissum samfélagsmiðlum eru boðin út verkefni gegn greiðslu, ofbeldisglæpir og þar á meðal morð.“ Svarrer segir að þau mál sem séu á hans borði séu tilraunir til manndrápa, en vitað sé að fólk hafi verið myrt eftir þessum boðleiðum í Svíþjóð. Um það sem gekk á í Svíþjóð á síðasta ári var fjallað um hér.

Norrænir barnahermenn?

Í Svíþjóð hafa fjölmiðlar eins og Expressen stimplað þessa gerendur sem „barnahermenn“. Torben Svarrer segist ekki vilja nota það orð, og segir við DR: „Hver er munurinn? Hér erum við með mjög ungt fólk sem, til að öðlast stöðu, fer inn og býður sig fram fyrir glæpsamlegt athæfi, sem getur verið endanlegt, því það getur verið morð sem það býður upp á. Hvað á að kalla það?“ segir hann.

Staðreyndin er sú að flest erum við farin að venjast svona fréttum frá Norðurlöndunum, svæði sem við í eina tíð töldum nokkuð friðsælt. Hugsanlega var það byggt á misskilningi en staðreyndin er sú að glæpir og ekki síður gerendur þeirra hafa breyst. Á Norðurlöndunum eru nú starfandi stórar glæpaklíkur með tengsl á milli landa og suður í Evrópu. Þessar klíkur sækjast eftir nýjum svæðum og vilja helst starfa í auðugari löndum, fyrir þær, rétt eins og aðra viðskiptastarfsemi, skiptir kaupmáttur fólks miklu. Þess vegna elta glæpaklíkur oft innflytjendur og hælisleitendur og leitast við að koma upp samböndum í nýjum löndum. Það er hluti af alþjóðlegri þróun eins og hefur verið bent á áður hér í pistlum. Allar meiriháttar ákvarðanir í undirheimum Belgíu, svo dæmi sé tekið, eru teknar suður í Marokkó.

Kostar 4 milljónir að láta myrða mann

En skoðum nánar þessi mál sem Ríkissjónvarpið og DR tæpa á. Jótlandspósturinn kafar dýpra og bendir á að í júní hafi 15 ára sænskur drengur og daginn eftir 16 ára samlandi hans verið handteknir í máli þar sem klúbbhús rokkarahópsins Comanche í Brøndby var sagt skotmark fyrir árás. Comanches hafa áður verið þekkt undir nafninu Satudarah. Og þá erum við komnir inn á slóðir skipulagðra glæpahópa en sérstakar deildir innan norrænu lögreglunnar rannsaka þessa hópa. Við þær rannsóknir kemur fram mynstur sem er að þróast í stöðugt harðari glæpaheimi enda kostar nú ekki nema 200 þúsund danskar krónur að láta myrða mann í Danmörku eða um fjórar milljónir króna.

Glæpaklíka innflytjenda

Nafnbreytingar á glæpaklíkum (og glæpamönnum) eru auðvitað bara til að blekkja en Satudarah er einhver verst þokkaða glæpaklíka Evrópu. Satudarah sækir uppruna sinn til Hollands en klíkan var stofnuð af innflytjendum frá Austur-Asíu, nánar tiltekið Mólúkaeyjum eða Malukueyjar sem er eyjaklasi í Indónesíu, hluti Malajaeyja. Eyjarnar voru áður þekktar sem Kryddeyjar.

Satudarah MC er mótorhjólaklúbbur sem var stofnaður árið 1990 í hollenska bænum Moordrecht. Klúbburinn var bannaður í Hollandi árið 2018, en heldur áfram starfsemi sinni í gegnum alþjóðlegar deildir og ýmsa samstarfsaðila. Meðlimir mótorhjólaklúbbsins hafa iðulega verið tengdir við ofbeldisglæpi, fjárkúgun, ólögleg fíkniefnaviðskipti og vopnasölu.victim

Árið 2014 var sænska deild Satudarah leyst upp eftir að allir meðlimir hennar voru handteknir fyrir vopnaeign og fíkniefnabrot. Í febrúar 2015 var mótorhjólaklúbburinn bannaður af þýskum stjórnvöldum og í kjölfarið voru miklar aðgerðir lögreglunnar.

Hin erlendu tengsl og uppruni innan innflytjendasamfélaga sjást enn betur af því að stór hluti hinnar ofbeldisfullu stigmögnunar sem hefur orðið undanfarin ár í Svíþjóð tengist blóðugum deilum milli Foxtrot-stjórans Rawa Majid, sem er einnig þekktur sem Kúrdíski refurinn, og Ismail Abdo sem stundum er kallaður Jarðaberið (Jordgubben).

Höfuðpaurarnir í tyrknesku skjóli

Ismail Abdo er fyrrverandi félagi Rawa Majid en að endingu gátu þeir ekki náð sátt um hvernig deila ætti eiturlyfjamarkaðinum í Svíþjóð og á milli þeirra brutust út blóðug átök sem skekið hafa undirheima Svíþjóðar. En þó að Svíar fengju sannarlega að þjást þá lifðu báðir höfuðpaurarnir í vellystingum í Tyrklandi og stýrðu starfsemi sinni þaðan. Ismail Abdo var svo handtekinn í Adana héraði í Tyrklandi í vor í kjölfar þess að hann var eftirlýstur af Interpol.glæpdanm

Majid var einnig handtekinn af tyrkneskum yfirvöldum í Tyrklandi í kjölfar beiðni Interpol. Þegar til átti að taka höfnuðu Tyrkir framsalsbeiðni Svía og slepptu honum nokkrum vikum síðar. Í ljós kom að Majid hafði fengið tyrkneskan ríkisborgararétt.

Talið er fullvíst að Majid hafi verið ábyrgur fyrir morðinu á móður Abdo, sem bjó í Uppsölum í Svíþjóð, í september 2023. Hörð átök milli hópanna tveggja hafa leitt til þess að margir meðlimir glæpagengja hafa reynt að komast ólöglega inn í Tyrkland.

Svíar hafa átt í mestu vandræðum með að koma lögum yfir þessa glæpakónga sína og að lokum var Abdo einnig sleppt. „Enginn ætti að geta refsilaust haldið áfram að stjórna og taka þátt í glæpum í Svíþjóð frá útlöndum. Ríkisstjórnin gerir allt sem við getum til að aðstoða við réttarsamstarf milli landa," sagði Gunnar Strömmer dómsmálaráðherra Svíþjóðar við fjölmiðla sem fannst armur sænskra laga ekki langur.