c

Pistlar:

18. ágúst 2024 kl. 18:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Alvotech á flug?

Í tilkynningu sem lyfjaþróunarfélagið Alvotech sendi frá sér fyrir helgi kom fram að félagið skilaði mettekjum og metframlegð á öðrum ársfjórðungi og á fyrri helmingi ársins. Viðbrögð fjárfesta voru mjög jákvæð og bréf félagsins hækkuðu mikið og ekki er laust við að vellíðunarstuna hafi farið um íslenskan fjárfestaheiminn vegna afkomunnar. Svo virðist sem þetta verðmætasta félag íslensku kauphallarinnar sé að komast á beinu brautina og það þarf ekki að taka fram að íslenskt samfélag á mikið undir að vel takist til. Fjöldi fólks vinnur hjá félaginu og fjárfestar hafa stutt við það langhlaup sem viðskiptamódel félagsins gengur út á.alvot

Fyrir fjórum árum var hér í pistli vangaveltur um það hvort íslenskur lyfjamarkaður væri að rísa á ný en þá voru íslenskir lífeyrissjóðir að undirbúa sig undir að fjárfesta í Alvotech. Uppbygging félagsins hefur reynt á þolinmæði fjárfesta en vonandi að þeir séu að uppskera núna. Uppgjörið núna sýnir heildartekjur upp á 236 milljónir dollara á fyrri helmingi ársins, sem er meira en tíföldun frá sama tímabili í fyrra. Um leið jukust tekjur af vörusölu á fyrri helmingi ársins um 190% frá sama tímabili í fyrra í 66 milljónir dollara, en þar af voru tekjur á öðrum fjórðungi 53 milljónir dala.

Mestu munar núna að aðlöguð EBITDA framlegð á fyrri árshelmingi reyndist vera 64 milljónir dala, en hún var neikvæð um 147 milljónir dala á sama tíma í fyrra. Aðlöguð EBITDA framlegð á öðrum fjórðungi var 102 milljónir dala.

Mikilvægir áfangar í lyfjaþróun

Svo virðist sem áform félagsins í lyfjaþróun og sölu séu að ganga eftir en Lyfjastofnun Evrópu samþykkti að taka fyrir umsókn um markaðsleyfi fyrir AVT06 fyrirhugaða hliðstæðu við Eylea (aflibercept).

„Þetta eru afar spennandi tímar fyrir félagið. Á fyrri helmingi ársins setti Alvotech met í tekjum og framlegð. Heildartekjur jukust meira en tífalt frá sama tímabili í fyrra og aðlöguð EBITDA framlegð var jákvæð í fyrsta sinn í sögu félagsins, bæði á ársfjórðungnum og fyrri árshelmingi. Sölutekjur vaxa hratt, þar sem við erum nú með tvö lyf í sölu á mörkuðum um allan heim. Þá voru áfangagreiðslur sérlega háar á öðrum ársfjórðungi vegna góðs árangurs í þróun og markaðssamstarfi,“ sagði Róbert Wessman, stjórnaformaður og forstjóri Alvotech í tilkynningu félagsins. Um leið var upplýst að pantanabókin í Bandaríkjunum fyrir hliðstæðuna við Humira lyfið hefði þegar vaxið úr 1 milljón eininga eins og félagið hafði áður kynnt, í um 1,3 milljónir eininga í dag. Tekjur af þessari sölu munu að meginhluta verða bókfærðar á síðari hluta ársins.

Eins og Róbert benti á hefur stefna Alvotech frá upphafi verið að selja breitt úrval líftæknilyfjahliðstæða um allan heim og telur hann núna að hún sé óðum að raungerast. Dæmi um það er að fyrirtækið hefur nú markaðssett hliðstæðuna við Stelara í Kanada, Japan og fjölda Evrópuríkja. Félagið hefur þegar byrjuð að fá endurteknar pantanir frá söluaðilum til að fylla á birgðir.“alvot2

Það má rifja upp að Alvotech einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga og er með alla þætti í þróun og framleiðslu í eigin höndum. Stundum hefur manni virst sem Alvotech ætli sér um of en það vinnur meðal annars að þróun líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Félagið ætlar sér stóra hluti og hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.

Samanburður við norræna risa

Norðurlöndunum eru nokkur skráð fyrirtæki sem eru svipuð Alvotech, sérstaklega innan líftækni- og lyfjaiðnaðarins ef fjárfestar vilja gera samanburð. Hér eru nokkur dæmi:

Novo Nordisk (Danmörk) er þar þekktast enda eitt af stærstu lyfjafyrirtækjum í heiminum með um 70 þúsund starfsmenn og sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á lyfjum, sérstaklega fyrir sykursýki og hormónaaðferðir. Bréf félagsins hafa verið á miklu skriði undanfarin misseri og hafa hækkað um 47% síðasta ári.

Bavarian Nordic (Danmörk) er fyrirtækið sem sérhæfir sig í þróun hagnýtra líftæknilyfja, sérstaklega gegn veirusýkingum. Hjá félaginu starfa 1400 manns og bréf félagsins hafa tvöfaldast í verði síðasta árið.

Galecto (Svíþjóð) er lítið félag og einbeitir sér að þróun nýrra meðferða fyrir lungnasjúkdóma og aðrar sjúkdóma og lítil hreyfing hefur verið á bréfum félagsins.

Faron Pharmaceuticals (Finnland) er líka fremur lítið félag sem einbeitir sér að rannsókn og þróun við krabbameini og öðrum alvarlegum sjúkdómum. Bréf félagsins hafa lækkað um fjórðung síðasta árið.