c

Pistlar:

20. ágúst 2024 kl. 21:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tyrkjaránið og saga þrælahalds

Í hvert skipti sem Vestmannaeyjar eru heimsóttar rifjast Tyrkjaránið óhjákvæmilega upp. Atburðurinn hafði slík áhrif á íslenskt samfélag að sagt er að landsmenn hafi beðið almættið um vernd frá ránsmönnum næstu hundrað árin á eftir. Tyrkjaránið og Eyjagosið 1973 eru tveir stærstu atburðirnir í sögu Vestmannaeyja og bærinn gerir margt til að halda þessari sögu á lofti. Nýir atburðir í Íslandssögunni, svo sem Icesave, hafa fengið suma til að rifja upp þessa atburði sem augljóslega hafa enn sterka sögulega nærveru.  ran

Atvik voru með þeim hætti að sumarið 1627 gerðu ránsflokkar frá Norður-Afríku strandhögg í Grindavík, á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum. Talið er að þeir hafi drepið um 50 manns en tekið hátt í 400 manns til fanga sem þeir seldu á þrælamörkuðum í heimahöfnum sínum. Um 50 manns voru keyptir aftur heim með lausnargjaldi en flestir dóu drottni sínum í Afríku. Ránsmenn voru í tveim hópum og var annar upprunninn í borginni Salé í Marokkó og hinn var frá Algeirsborg sem nú er höfuðborg Alsírs.

Miðstöðvar þrælaverslunar

Þessar tvær borgir voru miðstöð þrælaverslunar í Norður-Afríku á 17. öld og er talið að ein til tvær miljónir þræla hafi farið þar um á öldinni. Að því leyti varðveittu þær hlutverk Norður-Afríku í þrælaverslun sem hafði verið mikil allt frá tíma Rómverja. Meirihluti þeirra þræla sem fóru um Sale og Algeirsborg komu að norðan á þessum tíma en athafnir ránsflokkanna hér á Íslandi sýndu vel hvernig þrælaverslun gekk fyrir sig en fólk var í raun verðmætasti ránsfengurinn.

Saga þrælaverslunar er nánast jafngömul manninum og Biblían varðveitir frásagnir þar um og í Gamla Testamentinu má lesa nokkuð nákvæmar leiðbeiningar um meðhöndlun þræla og kunn er sagan af því þegar bræður Jósefs seldu hann í þrældóm. Þegar gyðingar voru leiddir út úr Egyptalandi af Móses voru þeir þrælar farós. Enginn heimshluti var undanskilin þrælahaldi og þrælasölu. Á þeim tíma sem norrænir menn settust að á Íslandi ráku þeir umfangsmikla þrælaverslun og stærsti þrælamarkaður þeirra var í Dyflinni, borg sem norrænir menn stofnuðu og réðu þar lögum og lofum.afrikþræl

Afríkuþrælahaldið mótar söguna

En þrælaverslun yfir Atlantshafið og þrælahald í Ameríku og sérstaklega í Bandaríkjunum hefur í hugum margra orðið að einhverskonar sögulegri fyrirmynd þrælahalds. Sumir tala um Hollywood-áhrifin, að bandarísk menning móti afstöðu alls heimsins gagnvart tilteknum þáttum sögunnar. Í þessu tilviki með þeim hætti að það sem gerðist í kringum flutning þrælakaupmanna á Afríkubúum til Ameríku hafi verið einstakt í mannkynssögunni, sem það var vissulega á sumum sviðum.

En eins og svo margt í sögunni þá geta samhengið og staðreyndir máls verið aðrar en mýtan eða menningarsagan bíður uppá. Evrópubúar stofnuðu sannarlega til þrælaverslunar meðfram ströndum Afríku á 15. öld og viðskipti við Ameríku hófust á 16. öld og stóðu fram á 19. öld. Mikill meirihluti þeirra þræla sem fluttir voru yfir Atlantshafið voru frá Mið- og Vestur-Afríku og höfðu verið seldir af vestur-afrískum þrælasölum til evrópskra þrælakaupmanna en sumir höfðu verið teknir beint í árásum á strandbyggðir. Evrópubúar gengu þannig inn afrískt kerfi þrælaverslunar sem hafði lengi verið til staðar en án efa hafa þeir aukið umfangið verulega. Franski sagnfræðingurinn Pierre Chaunu ræddi um afleiðingar evrópskra siglinga sem „afnám“ eða þáttaskil, þar sem það hafi markað endalok einangrunar fyrir einstaka samfélög og aukin samskipti fyrir flest önnur. Þrælaverslun fann þannig ný markaðssvæði með landafundunum.

Samkvæmt Wikipedíu er nú áætlað að um 12 til 12,8 milljónir Afríkubúa hafi verið fluttar yfir Atlantshafið á 400 ára tímabili. Fjöldinn sem kaupmennirnir keyptu var töluvert hærri, þar sem flutningarnir höfðu í för með sér háa dánartíðni, en talið er að á milli 1,2 og 2,4 milljónir hafi dáið í þrælaskipunum og milljónir til viðbótar í búðum í Karíbahafinu eftir komuna til Nýja heimsins. Einnig er vert að muna að milljónir manna dóu vegna árása til að ná í þræla, styrjalda og meðan á flutningi stóð til sölu til evrópskra þrælakaupmanna.þrælar

Tyrkjaránið og Ottómanaveldið

Það verður að hafa í huga að hin miðjan í þrælaheimi nýaldar var innan Tyrkjaveldisins eða Ottómanaríkisins sem hér hefur verið fjallað um í pistlum. Þrælahald var mikilvægur hluti af efnahagskerfi Tyrkjaveldisins og undirsamfélaga þess. Helstu uppsprettur þræla fyrir Tyrkjaveldi voru stríð og skipulagðir þrælaleiðangrar miðstjórnarvaldsins til landa Kákasus, Austur-Evrópu, Suður-Evrópu, Suðaustur-Evrópu og Afríku. Einnig er talið að um tvær milljónir þræla hafi verið fluttir frá Rússlandi og Póllandi til Tyrkjaveldis á milli 15. og 17. aldar.

Að því leyti sem Salé og Algeirsborg voru á áhrifasvæði Ottómanaveldisins má segja að þrælarnir sem fóru frá Íslandi árið 1627 hafi verið hluti af þessu miðstýrða veldi þó að þeir sem komu til Íslands hafi fyrst og fremst verið sjóræningjar í leit að auðsóttum gróða.