c

Pistlar:

22. ágúst 2024 kl. 20:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Menningarkristni í trúlausum heimi

Stjörnufræðingar sjá lengra en aðrir inn í framtíðina og hafa spáð því að Vetrarbrautin okkar og Andrómeduvetrarbrautin muni lenda í árekstri eftir svo sem fjóra milljarða ára! Þetta verður sjónarspil því þegar vetrarbrautirnar renna saman munu þær að öllum líkindum mynda stóra vetrarbraut í laginu eins og egg eða kúla. Á Stjörnufræðivefnum er okkur sagt að við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af þessum árekstri. Það er einfaldlega vegna þess að þegar að honum kemur mun eiginlega allt annað í okkar sólkerfi vera farið til fjandans! Því til viðbótar séu hverfandi líkur á því að sólin okkar rekist á aðra stjörnu. Geimurinn sé einfaldlega gríðarstór og svo miklar vegalengdir á milli stjarnanna að árekstrar séu fátíðir. En árekstrar geti þó orðið.

Sumum kann að virðast það langsótt samlíking en eins og þróun mála er núna á Vesturlöndum virðast vera að rekast saman tvö trúarkerfi, hið aðflutta kerfi múslimaheimsins og það kristna sem fyrir er. Þeir sem minnstar áhyggjur hafa af þessu nýja sambýli hafa tekið upp þriðja kerfið, trúleysi. Sumir gera það í kerskni en aðrir eftir meiri íhugun.dawkins

Menningarkristinn trúleysingi

Víkur þá sögunni að hinum fræga breska trúleysingja Richard Dawkins, höfundi bókarinnar Ranghugmyndin um guð („The God Delusion“). Richard Dawkins, sem er þróunarlíffræðingur að mennt, hefur lagt sig mjög eftir því að setja trúleysi sitt í heimspekilegt og menningarlegt samhengi og margir hafa horft til hans eftir leiðsögn í trúlausum heimi. Því vakti það verulega athygli þegar hann sagði í nýlegu viðtali að hann skilgreindi sig sem „menningarkristinn“ og kjósi kristna trú fremur en íslam, þó að hann taki skýrt fram að hann trúi ekki „orði“ um kristin trú.

Í viðtali við Rachel Johnson sem var útvarpað 31. mars sl. á LBC sagði Dawkins að hann hefði orðið „örlítið skelfdur“ þegar hann frétti að á Oxford Street í London væri verið að kynna Ramadan, föstumánuð múslima, í stað páska. Dawkins bætti við: „Ég held að við séum menningarlega kristið land. Ég kalla mig menningarkristinn.“

Dawkins heldur áfram: „Ég er ekki trúaður, en það er greinarmunur á því að vera trúaður kristinn og menningarkristinn,“ sagði Dawkins og bætir við: „Ég elska sálma og jólalög og mér líður eins og heima í kristnu siðferði, og mér finnst að við séum kristið land í þeim skilningi.“

Eftir að hafa lýst yfir ánægju sinni með það sem hann lítur á sem fækkun kristinna manna, sagði hinn frægi trúleysingi að hann „væri ekki ánægður ef við töpuðum til dæmis öllum dómkirkjum okkar og fallegu sóknarkirkjunum okkar. Þannig að ég kalla mig menningarkristinn og ég held að það væri hræðilegt ef við skiptum kristni út fyrir önnur trúarbrögð.“

Upprisa íslam er vandamál

Dawkins var spurður hvort hann líti á samdrátt í kirkjusókn og byggingu um 6.000 moska og margar fleiri fyrirhugaðar sem vandamál, svaraði Dawkins: „Já, ég geri það. En ég verð að velja orð mín vandlega: Ef ég þyrfti að velja á milli kristni og íslams, myndi ég velja kristni í hvert einasta skipti. Mér sýnist kristni vera almennileg (e.decent) trúarbrögð, á þann hátt sem ég held að íslam sé ekki,“ sagði hann.

Þegar Dawkins var spurður út í þá yfirlýsingu sagði Dawkins: „Það hvernig komið er fram við konur í kristni er ekki endilega til fyrirmyndar, kristinn trúarheimur hefur átt í vandræðum með kvenkyns presta og kvenbiskupa, en meðal múslima er virk andúð á konum sem er ýtt undir að ég held af heilögum bókum íslams."
Eftir að hafa tekið fram í viðtalinu að hann væri ekki að vísa til einstakra múslima heldur kenningarinnar sem er að finna í bókum eins og „Hadith og Kóraninum, sem eru í grundvallaratriðum fjandsamlega konum og fjandsamleg hommum,“ lagði hinn frægi trúleysingi áherslu á að honum líkar að „lífa í menningarlegu umhverfi. Kristnu landi þó ég trúi ekki orði af kristinni trú.“dawkins

Gagnkvæm tortryggni

En auðvitað hafa múslimar ekki setið þegjandi undir þessum skoðunum Dawkins og bent á ódæði Vesturlanda síðustu aldir og verk unnin í nafni kristninnar, svo sem krossferðirnar, þrælahald og rannsóknarréttinn. Viðbrögðin staðfesta þá tortryggni sem ríkir milli þessara trúarheima sem meðal annars byggist á þröngri sögulegri túlkun sem oft hefur verið vikið að hér í pistlum.

Árið 2006 var gerð könnun á viðhorfum íbúa heimsins sem sýndi að tortryggni virtist ríkja á milli múslimaheimsins og Vesturlanda og reyndist hún gagnkvæm. Margir Vesturlandabúar litu þá á múslima sem ofstækisfulla og óumburðarlynda ofbeldismenn og margir múslimar á hinn bóginn telja Vesturlandabúa sjálfselska, siðlausa og gráðuga. Könnunin var gerð af rannsóknarstofnuninni Pew í Washington.

Í rannsókninni voru könnuð viðhorf 14.000 manna í 13 löndum. Roger Hardy, sérfræðingur í málefnum íslams hjá BBC, taldi þá að atburðir eins og sprengjuárásirnar í London 7. júlí árið á undan og uppnámið vegna skopmyndanna af Múhameð spámanni í Jótlandspóstinum, hafa haft áhrif á viðhorf beggja.

Höfundar rannsóknarinnar töluðu um „djúpa gjá“ á milli þessara samfélaga sem endurspeglist meðal annars í því að bæði fordæmi hitt fyrir hvernig komið sé fram við konur hjá þeim. Fjöldi Vesturlandabúa telji að múslimar „sýni konum ekki virðingu“ á meðan fjórir af hverjum fimm múslímum sögðu hið sama um Vesturlandabúa. Þarna virðist vera óbrúanleg gjá.