c

Pistlar:

23. ágúst 2024 kl. 15:57

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Um hvað er barist í Bandaríkjunum?

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það verður kosið í Bandaríkjunum í haust og leiðtogi hins frjálsa heims valinn, svo vitnað sé til vinsællar klisju. Bandaríkin eru mikið land, það þriðja stærsta að flatarmáli og mannfjölda. Þar búa nú um 340 milljónir manna í ríkasta hagkerfi heims. Við höfum vanist fullyrðingunni um að allt sé stórt í Ameríku og það á sannarlega við. Bandaríkin eru eina ríki heimsins sem getur fallið undir þá skilgreiningu að vera heimsveldi, bæði hernaðarlega og efnahagslega. Þó að margir hafi spáð því að Kína myndi velta Bandaríkjunum úr sessi á efnahagssviðinu þá er staðreyndin sú að heldur dregur sundur með löndunum aftur. Bandaríkin eru endalaus uppspretta nýsköpunar á öllum sviðum og þar eru framsæknustu og stærstu fyrirtæki heims. Því til viðbótar hefur bandarísk dægurmenning verið ráðandi í heiminum í bráðum hundrað ár.amerika

Á lokaáratug kalda stríðsins voru Bandaríkin og Sovétríkin svipuð að mannfjölda, með um 230 milljónir manna, í dag búa rétt um 140 milljónir manna í Rússlandi en Bandaríkjamenn eru 340 milljónir eins og áður sagði. Rússum fækkar og nú er mannfjöldaþróunin einnig að ná í skottið á Bandaríkjunum en þróunin þar er nú svipuð því sem gerist í Bretlandi og Frakklandi. Munurinn er sá að Bandaríkjamenn eru mun meira á faraldsfæti innan eigin lands. Við þekkjum það úr bandarískum kvikmyndum að fólk er stöðugt að flytja á milli landshluta og ríkin 50 eru í stöðugri samkeppni um fólk. Reyndin er sú að Bandaríkjamenn færa sig hiklaust til bjóðist betra starf annars staðar og því er mikil keppni milli hinna einstöku ríkja um fólk.

Fólksflutningar milli ríkja breyta stöðunni

Jaðararnir á vestur- og austurströndinni hafa lengi sogað til sín fólk og þar eru stærstu borgirnar og mestur uppgangur, svo mjög að Kaliforníuríki eitt og sér er 5. stærsta hagkerfi heims með um 14% af landsframleiðslu Bandaríkjanna. Hagkerfi Texas, sem er 2,4 trilljónir dollara, er áttunda stærsta hagkerfið meðal þjóða heims, stærra en Rússland, Kanada, Ítalía og fleiri. Hagkerfi Texas hefur stækkað hraðar en meðaltal Bandaríkjanna sjö ársfjórðunga í röð. Í Texas eru nú 52 Fortune 500 höfuðstöðvar og sækir ríkið fast að til dæmis Kaliforníu sem hefur átt við margs konar erfiðleika að stríða undir stjórn demókrata.

Sum ríki Bandaríkjanna hafa átt einstökum uppgangi að fagna. Þannig hefur mannfjöldi Nevada-ríkis tífaldast á síðustu 60 árum en áður var ríkið svo dreifbýlt að það taldist heppilegt til að prófa kjarnorkusprengjur Bandaríkjamanna. Á sama tíma hefur mannfjöldi Texas þrefaldast.ameríka2

Fólki fækkar í 17 ríkjum

Lengi vel var það svo að fólk fluttist til sólarríkjanna (sunbelt states) í suðrinu og niður á Flórídaskaga. Það skapaði ekki vandamál á meðan landsmönnum var að fjölga, nýir íbúar komu bara í stað þeirra sem fluttu og átti það sérstaklega um Miðvesturríkin. En það er að breytast. Á milli áranna 2010 og 2020 voru það aðeins tvö ríki sem bjuggu við fólksfækkun, Mississippi og Vestur-Virginía. Illinois stóð nánast í stað en öll hin 47 ríkin voru að vaxa. Það hefur breyst og það hratt, árið 2021 dróst mannfjöldi saman í 17 af 50 ríkjum. Kóvid-faraldurinn hafði án efa áhrif en um leið færðust fólksflutningar milli hinna einstöku ríkja Bandaríkjanna mjög í vöxt.

Fólksfækkun er slæm af mörgum ástæðum. Þegar fólkið fer hverfur margvísleg þjónusta og það atvinnulíf sem eftir stendur á í vök að verjast. Skóla- og menningarstarf breytist. Þegar nemendum fækkar verður að sameina skóla og leita hagræðingar. Um leið breytist félagslíf og erfiðara er að sinna íþróttalífi sem allt snýst um í Bandaríkjunum. Sögulega er þróunin í Detroit þekktust eins og hefur verið fjallað um hér í pistli áður en borgin varð gjaldþrota 2013 en var talin ríkasta borg Bandaríkjanna á sjöunda áratugnum. Það kom að endingu í hlut Michigan-ríkis að standa við lífeyrisskuldbindingar Detroit.ameríka3

Félagsauður hverfur

Erfiðast er þó að þegar fækkun hefst þá fer af stað keðjuverkun sem erfitt er að stöðva. Með minni ásókn fellur fasteignaverð sem getur orðið til þess að húseigendur og eigendur fasteigna draga úr viðhaldi, hús og heilu hverfin fara að drabbast niður og um leið getur öryggistilfinning fólks minnkað. Í sumum tilfellum breytist íbúasamsetningin og félagsauður hverfur.
Uppbygging bandaríska stjórnkerfisins getur ýtt undir þetta en aðeins 8% af útgjöldum til neðri skólastiga kemur frá Washington. Um 48% skatttekna í Bandaríkjunum kemur frá sveita- og ríkjasviðinu en til samanburðar er þetta hlutfalla 20% í Frakklandi og aðeins 6% í Bretlandi. Stuðningur frá alríkisstjórninni miðast við fólksfjölda og því hefur fólksfækkunin þar einnig áhrif. Skattheimta er mjög ólík milli ríkja og einstaka ríki eins og Delaware eru hreinlega skilgreind sem skattaskjól og margir íslenskir athafnamenn, sem hafa verið með rekstur tengdan Bandaríkjunum, hafa skrá félög sín þar, í einhverskonar skúffum.

Ástandið í Illinois er mjög erfitt núna en erfiðlega gengur að aðlaga þjónustu að minnkandi skatttekjum. Rannsóknir sýna að útgjöld lækka alls ekki eins hratt og tekjur þegar fólki fækkar. Landsþing demókrata var haldið í Chicago sem undanfarna tvo áratugi hefur glímt við mikla erfiðleika, bæði vegna glæpa og efnahagslegs samdráttar en demókratar hafa stýrt borginni frá 1927.ameríka4

Flóttamannavandi Chicago

Hægri sinnaðir stjórnmálamenn hafa löngum lýst Chicago sem fyrirmynd þess sem gerist undir stjórn demókrata og bent á glæpatölfræði, spillingu og efnahagsvanda. Nú síðast hafa þeir bætt meðhöndlun borgarinnar á flóttamannavanda sínum á listann.
Meira en 46.000 flóttamenn hafa komið til Chicago síðan 2022, þar af tæplega 37.000 sem Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, lét flytja í rútum norður. Gert er ráð fyrir áframhaldandi straumi flóttafólks en 5.500 manns búa nú í 17 virkum skýlum á vegum borgarinnar.

Stjórnendur Chicago áætla að kostnaður verði meira en 400 milljónir Bandaríkjadala vegna flóttamannakrísunnar. Það skapar mikinn þrýsting á fjárhagsáætlun borgarinnar. Gert er ráð fyrir að það skorti um einn milljarð Bandaríkjadala á næsta ári í rekstur borgarinnar. Það getur verið snúið að finna lausn á því þar sem einnig þarf að takast á við önnur vandamál eins og vanda þeirra heimilislausu, glæpi og til að ná stjórn á fjármálum borgarinnar þarf að taka erfiðar ákvarðanir.