Nú þegar landsmenn eru að meta orsakir slyssins í íshellinum í Breiðamerkurjökli um helgina horfa margir til þess hvernig koma eigi í veg fyrir að slíkt gerist. Sýndu ferðaþjónustuaðilar gáleysi eins og lesa má úr orðum vísindamanna? Og ef svo er, hvernig er hægt að koma í veg fyrir að fólk sé sett í hættu því tæpast er hægt að ætlast til að ferðamenn geti metið áhættuna. Þarf eftirlit til þess eins og margir tala núna. Ferðaþjónustueftirlitið?
Hvað um það, í dag birti Viðskiptaráð samantekt um það sem mætti kalla íslenska eftirlitsþjóðfélagið. Þar kemur fram að á Íslandi starfa 3.750 manns hjá 49 opinberum stofnunum sem sinna eftirliti. Tæplega 2.200 manns starfa við eftirlit á borð við löggæslu, tollgæslu og eftirfylgni með greiðslu skatta og gjalda, en sú tegund eftirlits nefnist stjórnsýslueftirlit. Það gerir engin athugasemdir við löggæslu (nema þá hugsanlega Píratar) og margir telja nauðsynlegt að fjölga í röðum lögregunnar.
Um 1.600 manns starfa við svokallað sérhæft eftirlit eins og þeir hjá Viðskiptaráði skilgreina það. Hlutverk sérhæfðra eftirlitsstofnana er frábrugðið öðrum að því leyti að þær framfylgja afmörkuðum eftirlitsreglum sem beinast að fyrirtækjum og einstaklingum. Til viðbótar við það starfar fólk við eftirlit innan ráðuneyta og hjá sveitarfélögum. „Til dæmis er bæði heilbrigðiseftirlit og eftirlit með mannvirkjagerð á sveitastjórnarstigi. Í þessari skoðun er átt við sérhæfðar eftirlitsstofnanir en ekki stjórnsýslueftirlit þegar talað er um eftirlitsstofnanir,“ segir í áliti Viðskiptaráðs.
Eykur smæð landsins eftirlitskostnað?
Á Íslandi starfar hærra hlutfall íbúa hjá eftirlitsstofnunum en á öðrum Norðurlöndum. Til dæmis er hlutfallið þrefalt til sexfalt þegar kemur að fjármála-, lyfja- og samkeppniseftirliti. Hver starfsmaður í eftirliti skapar samfélagslegan kostnað. Smæð Íslands verður þannig til þess að kostnaður vegna eftirlits vegur þyngra en á öðrum Norðurlöndum.
Gullhúðað fjármálaeftirlit
Einn mesti munurinn í þessu samhengi er í tilfelli fjármálaeftirlits en um vöxt þess hefur verið fjallað hér í pistlum. Sex sinnum fleiri starfa við fjármálaeftirlit á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd segir í úttekt Viðskiptaráðs. Sé eftirlitið skoðað í samhengi við undirliggjandi starfsemi þá starfar einn við fjármálaeftirlit fyrir hverja 25 starfsmenn í fjármálageiranum. Svipaða sögu er að segja af öðrum sviðum eftirlits; þrefalt fleiri starfa við lyfja- og samkeppniseftirlit á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd.
Þegar kemur að stærð íslenska fjármálaeftirlitsins má rifja upp að það er ekki langt síðan Jesper Berg, forstjóri danska fjármálaeftirlitsins, sagði við Financial Times að regluverk Evrópusambandsins um fjármálamarkaði væri orðið of umfangsmikið og fyrir vikið væri hætta á að týnast í smáatriðum í stað þess að leggja áherslu á mögulegar áhættur. Þrátt fyrir hundruð starfsmanna gæti stofnunin ekki bæði haft umsjón með innleiðingu á flóknu regluverki og staðið fullnægjandi vörð um fjármálakerfið. Morten Baltzersen, forstjóri norska fjármálaeftirlitsins, tók í sama streng. Þrátt fyrir að fjármálaeftirlitið hér hafi verið fellt undir Seðlabankann er ekki að sjá að það leiði til hagræðingar í rekstri.
Stærri en á hinum Norðurlöndunum
Á Íslandi eru eftirlitsstofnanir mun stærri en á öðrum Norðurlöndum, hlutfallslega miðað við íbúafjölda. Til dæmis er hlutfallið þrefalt til sexfalt hærra þegar kemur að fjármála-, lyfja- og samkeppniseftirliti segir í úttekt Viðskiptaráðs. Þannig hefur starfsfólki eftirlitsstofnana fjölgað um 29% síðasta áratuginn, samanborið við 21% fjölgun í einkageiranum.
„Við val á útfærslu eftirlits hafa stjórnvöld í of miklum mæli falið opinberum aðilum framkvæmd þess. Hagkvæmari leiðir eins og faggilding hafa verið vannýttar þrátt fyrir jákvæða reynslu af slíkri útfærslu,“ segir í álitsgerðinni.
Um sex af hverjum tíu eftirlitsstofnunum hafa færri en 50 starfsmenn. Fyrir vikið fer of hátt hlutfall rekstrarkostnaðar í stoðþjónustu og stjórnun, auk þess sem gæði þjónustu og möguleikar til sérhæfingar eru takmörkuð. Skýrsla Viðskiptaráðs hlýtur að kalla á endurmat á eftirlitskerfi landsins.