c

Pistlar:

29. ágúst 2024 kl. 20:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stjórnleysi, íslam og Sómalía

Í reynd er hægt að segja að í nokkrum ríkjum Austur-Afríku sé langvarandi mannúðarkrísa sem engan endir sér á. Þar má fyrst nefna lönd eins og Súdan, Suður-Súdan og Sómalíu en vandamál þessara ríkja smitast yfir landamærin til nágrannaríkjanna. Í reynd hefur aldrei tekist að byggja upp vísi að stjórnkerfi í þessum löndum eða innleiða þau lýðræðislegu eða stjórnskipulegu tæki sem þarf til að nútímaríki geti starfað. Það er margt sem veldur, en mestu skiptir án efa hugarfar fólksins, fornir siðir og deilur sem má rekja til ólíkra ættbálka, trúar og menningar. Líklega er þó verst að í öllu þessu umróti hefur félagsauður og samkennd samfélaganna þorrið. Það hugarfar fylgir því miður mörgum Sómölum sem flytja sig til Vesturlanda.somalia

Það er erfitt að finna nokkur greinargóð svör um það hvað beinlínis orsakar það ástand sem er að finna í Sómalíu í dag. Samfélagið er ekki á nokkurn hátt fært um að reka sig við það sem mætti kalla eðlilegar aðstæður og er algerlega ófært um að takast á við ytri áföll, svo sem náttúruhamfarir. Þannig hefur Sómalía smám saman þróast yfir í að vera lögleysuríki þar sem ekkert lögmætt miðstjórnarvald er að finna og íbúar upp á náð og miskunn siðlausra stríðsherra sem lifa eins og ræningjabarónar miðalda. Suður-Súdan, Sómalía og Mið-Afríkulýðveldið voru fyrir vikið talin óstöðugustu ríki heims samkvæmt úttekt sem tímaritið Foreign Policy gerði fyrir tíu árum.

Kvikfjárrækt helsta atvinnugreinin

Sómalía var stofnuð 1960 við sameiningu tveggja fyrrverandi nýlendna, Breska Sómalíulands og Sómalíu, sem Ítalir stjórnuðu. Bretar höfðu lagt Breska Sómalíuland undir sig árið 1884 en áður var þetta landsvæði undir stjórn Egypta. Ítalir réðu Sómalíu þar til í heimsstyrjöldinni síðari en árið 1950 var þeim falið að fara með stjórn mála í landinu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Íbúar Sómalíulýðveldisins voru taldir vera um tvær milljónir við stofnun, en þar af bjuggu um 700 þúsund í Sómalíulandi. Í dag búa tæplega 20 milljónir manna í landinu.
Við stofnun var kvikfjárrækt í höndum hirðingja helsta atvinnugreinin og dálítið var flutt úr landi af landbúnaðarafurðum. Engar járnbrautir voru til staðar og fátt um vegi. Því miður hefur lítið breyst síðan. Allir Sómalar kunna sómalísku en hún er enn ónothæf sem ritmál. Flestir Sómalar eru Múhameðstrúar. Ættflokkar eru nokkrir en flestir einhvers konar hirðingjar sem hafa lengstum haft að engu þau landamæri sem ákveðin voru á síðustu öld.somalia2

Lögleysuríki

Vissulega er hægt að finna margvísleg tímamót í sögu Sómalíu en íbúar landsins í dag hafa aldrei kynnst neinu sem mætti kallast eðlilegt líf. Fræðimenn telja að eðli Sómalíukreppunnar hafi breyst frá 1990 til 2010, eða frá endalokum kalda stríðsins. Margt gekk á svo sem borgarastyrjöld sem ríkti á níunda áratugnum, endalaus og grimmúðleg ættbálkastríð, deilur um landsvæði og svo alvarlega hungursneyðin sem ríkti 1991-92. Þrátt fyrir alþjóðlega mannúðaraðstoð allan tíunda áratuginn gekk illa að taka á þeim áföllum sem komu með jöfnu millibili og skildu landið alltaf eftir í verra ásigkomulagi.

Sómalía hefur ekki verið undir stjórn einnar stjórnar síðan 26. janúar 1991, þegar herforingjanum og sósíalistanum Siad Barre var steypt af stóli. Þá muna án efa margir eftir mynd kvikmyndaleikstjórans Ridley Scott „Black Hawk Down“ en hún byggð á sönnum atburðum í Sómalíu. Árið 1993 var 100 manna sérsveit bandaríska hersins send til höfuðborgar Sómalíu Mogadishu til að fanga sómalskan stríðsherra. Aðgerðin mistókst herfilega og myndin sýnir ágætlega þá lögleysu sem þá þegar ríkti í landinu og hefur því miður lítið breyst.

Íslamistar láta til sín taka

Mikilvægur þáttur í átökum þessara tveggja áratuga var tilkoma margvíslegra hreyfinga íslamista sem leituðust við að stofna íslamskt ríki í Sómalíu. Þetta voru allt frá hefðbundnum sufi-söfnuðum til framsækinna íslamistahreyfinga, innblásnir hópar eins og Al Itihad Al Islamiya sem stunda svæðisbundna starfsemi og sækja í það alþjóðastarf sem býðst í von um fjármögnun.
Undanfarna tvo áratugi hefur eðli Sómalíukreppunnar og alþjóðlegt samhengi hennar stöðugt verið að breytast, frá borgarastyrjöldinni á níunda áratugnum yfir í hrun ríkisins og síðan einhvers konar veruleika stríðsherra á tíunda áratugnum. Seinna fór að bera á hnattvæddum hugmyndafræðilegum átökum, meðal annars með vísun í deilur múslíma.somalia3

Í Sómalíu er íslam ríkjandi trú eins og áður sagði en þar má einnig finna örsmáa kristna minnihlutahópa og einhvers konar hefðbundna afríska trú. Talið er að íslam hafi borist til Sómalíu um líkt leyti og til annarra hluta Afríku. Sómalskir múslímar eru súnnítar að stærstum hluta. Í þriðju grein bráðabirgðastjórnarskrár Sómalíu er íslam skilgreint sem ríkistrú Sambandslýðveldisins Sómalíu og sjaría-lög sem grunnuppspretta laga landsins. Greinin kveður einnig á um að ekki megi setja lög sem eru í ósamræmi við grundvallarreglur sjaría.

Stjórnmál og íslam

Sómalska baráttukonan Ayaan Hirsi Ali lýsir þessu ágætlega í bók sinni Frjáls sem hefur hér alloft verið vikið að. Hún segir þar meðal annars frá samtali við Abeh föður sinn um stjórnmál og íslam. Faðir hennar lifði einhvers konar pólitísku útlagalífi og sinnti eiginlega aldrei fjölskyldu sinni. Hann sá stóru myndina eins og segja má um fleiri af hans sauðahúsi!
Hirsi Ali segir að faðir hennar hafi bara viljað tala um Sómalíu, hið mikla ríki sem Sómalía yrði einn góðan veðurdag. „Og hann sagði fullum fetum að hann vildi íslamska ríkisstjórn, að stjórnað yrði í samræmi við lög Allah. Hvers kyns stjórnmálakerfi sem sprottin væru úr huga mannsins væru dæmd til að ganga illa.“

Hirsi Ali segist hafa tekið þveröfuga afstöðu í samtali við föður sinn. „Ég sagði að himnesk lög gætu ekki verið réttlát gagnvart þeim sem ekki væru múslímar. Jafnvel innan íslams væru ekki allir á einu máli. Hver ætti að setja lögin? Ég sagði föður mínum: Klerkaveldi er alræðishyggja. Það þýðir að fólk getur ekki valið. Mannkynið er af ýmsum toga og við eigum að sporna gegn því.“

Faðir minn sagði bara: „Við verðum öll að vinna að því að snúa öllum til íslams.“ Ég varð fyrir vonbrigðum með þessa einfeldningslegu röksemdafærslu og dapurlegan skort hans á raunsæi.“ (bls. 347).somalila4

Íslamsvæðing Afríku

Tilvist íslams í Afríku nær aftur til áttundu aldar og var útbreiðsla trúarinnar á svæðum sem nú eru nútímaríkin Senegal, Gambía, Gínea, Búrkína Fasó, Níger, Malí og Nígería í raun tekin í hægu og flóknu ferli. Margt af því sem við vitum um fyrstu sögu Vestur-Afríku kemur úr miðaldasögum skrifuðum af arabískum og norðurafrískum landfræðingum og sagnfræðingum. Sérfræðingar hafa ýmsar skýringar á því af hverju Afríkubúar snerust til íslamstrúar. Sumir leggja áherslu á efnahagslega hvata, aðrir benda á að andlegur boðskapur íslams hafi náð til innfæddra og enn aðrir leggja áherslu á áhrif arabíska stafrófsins og læsis til að auðvelda þá ríkisuppbyggingu sem varð. Íslam tók ekki aðeins yfir trú fólks á þessum svæðum heldur skapaði einnig áhugaverðan menningarheim.

Hægt er að draga sögu íslams í Afríku saman í þrjú stig, innilokun, blöndun og umbætur. Á fyrsta stigi brugðust afrískir konungar við áhrifum múslíma með því að aðgreina múslímsk samfélög frá öðrum þjóðfélagsþegnum, á öðru stigi blandaðist íslam við staðbundnar hefðir þar sem íbúar tileinkuðu sér íslamskar venjur. Á þriðja stiginu hafa afrískir múslímar þrýst á umbætur í viðleitni sinni við að losa samfélög sín við þessar blönduðu venjur sem komu til á öðru stigi og innleiða þess í stað sharia-lög. Þessi aðgreining í þrjú þrep segir vitaskuld ekki alla söguna en getur hjálpað til við að varpa ljósi á sögulega þróun miðaldaveldanna Gana, Malí og Songhay og 19. aldar jihads sem leiddu síðan til stofnunar Sokoto-kalífadæmisins í Hausalandi og Umarian-fylkisins í Senegambiu (Senegal og Gambíu).

Sómalar líta á sig sem eina þjóð og Araba fremur en blökkumenn en þeir eru eina múslímska þjóð Austur-Afríku.