c

Pistlar:

3. september 2024 kl. 20:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Loðnubresturinn litar uppgjörin

Það er ekki víst að allir átti sig á því að það var engin loðnuvertíð í ár. Satt best að segja var enginn héraðsbrestur og sá vandi sem fylgir loðnubresti lenti ekki á borði stjórnvalda og kallaði ekki á sértækar aðgerðir, styrki til byggðalaga eða fyrirtækja eins og átti sér stað fyrir tíma kvótakerfisins. Með kvótakerfinu má segja að það sé búið að útvista áhyggjum af loðnubresti. Hann kemur að því er virðist engum við nema stjórnendum og eigendum sjávarútvegsfyrirtækjanna. Mörg þau fyrirtæki sem eiga mestan loðnukvóta eru skráð í Kauphöll og vissulega finna hluthafar fyrir því að loðnan kom ekki. Nú birtist niðurstaðan með þessum orðum: „Loðnubresturinn litar uppgjörin“!hlutabréf

Það hefur sýnt sig að öflugur sjávarútvegur reynist hagkerfinu ómissandi stoð þegar á móti blæs. Við sáum það til dæmis gerast í bankahruninu og aftur í kórónuveirufaraldrinum, sjávarútvegurinn er hryggjarstykki þjóðarbúsins. Þannig hefur greininni tekist að standa af sér hvert áfallið á fætur öðru og laga sig að breyttum aðstæðum frá ári til árs.

Áföllin koma og fara

Það var til dæmis verulegur skellur þegar Rússlandsmarkaður lokaðist á sínum tíma en sjávarútvegurinn tókst á við vandann og fann nýja markaði fyrir afurðir sínar. Sumarið 2022 gekk hitabylgja yfir Evrópu og neytendur hættu að borða fisk. Í kórónuveirufaraldrinum þurfti að aðlagast breyttum mörkuðum, nánast yfir nótt. Þegar önnur eins áföll dynja á skiptir miklu máli að sjávarútvegurinn sé í stakk búinn til að takast á við slíkt, sem leiðir okkur aftur að því hve mikilvægt það er að stöðugleiki sé í því kerfi sem sjávarútvegurinn starfar innan. Nóg er af óstöðugleika í auðlindinni sem verið er að nýta og á mörkuðum fyrir afurðir. Þessi óstöðugleiki birtist okkur núna í loðnubresti sem landsmenn hafa ekki einu sinni áhyggjur af, það er einfaldlega sjávarútvegsfyrirtækjanna að takast á við það.grindavík2

Loðnubresturinn tekur í

En auðvitað kemur loðnubrestur illa við marga og heggur að þeim stöðugleika í atvinnu sem annars ríkti í sjávarútveginum. Á Íslandi eru flest störf í sjávarútvegi heilsársstörf, ólíkt því sem þekkist í mörgum nágrannalöndum okkar þar sem algengt er að vinna í kringum fiskveiðar og -vinnslu sé árstíðabundin. Þá hefur tæknivæðing greinarinnar líka breytt eðli þeirra starfa sem unnin eru í sjávarútvegi. Íslensk starfsemi í sjávarútvegi: Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru í auknum mæli að ráða til sín sérhæft og menntað starfsfólk. En loðnubresturinn hefur áhrif að því leyti að uppgrip sjómanna og fiskverkunarfólks hverfa. Þá kemur það sér illa fyrir nokkur sjávarpláss sem treysta mikið á uppsjávarfisk.

Erfitt samkeppnisumhverfi

Það er sterk tilhneiging til að ræða um sjávarútveginn öðruvísi en annað atvinnulíf í landinu. Það er auðvitað óþægilegt fyrir þá sem starfa í greininni sem þarf augljóslega að starfa í erfiðu samkeppnisumhverfi en 98% af framleiðslu sjávarútvegsins fer á erlenda markaði. Félög innan sjávarútvegs fjárfesta gríðarlega til að halda samkeppnisstöðu sinni um leið og þau skapa verðmæt störf út um allt land. En eins og á við um allar starfsgreinar þá geta forsendur breyst og starfsumhverfið um leið. Að starfa á viðkvæmum neytendamarkaði kallar á árvekni stjórnenda eins og sést núna þegar þarf að halda kaupendum loðnuafurða upplýstum og tryggja að þeir hafi aftur áhuga á að kaupa af okkur afurðir ef loðnan sést aftur.