c

Pistlar:

12. september 2024 kl. 21:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Dragi-skýrslan afhjúpar veikleika ESB

Í byrjun vikunnar kynnti Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, nýja skýrslu sem samin var undir forystu Mario Draghi, sem er hagfræðingur, bankamaður en þó mest um vert, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Evrópu. Á yfir 400 síðum gerir Dragi tilraun til að greina styrkleika og veikleika Evrópu í alþjóðlegri samkeppni, þó sérstaklega við Bandaríkin og Kína.

Óhætt er að segja að skýrslan dragi upp heldur dökka mynd af samkeppnisstöðu Evrópu en Dragi telur að með framlagi upp á 800 milljarða evra á ári sé hægt að færa Evrópusambandið nær heimsveldunum tveimur í framtíðinni. Um leið verði hægt að efla samkeppnishæfni Evrópu og styrkja framleiðni og hagvöxt í álfunni.dragi1

Skýrslan er ekki samin í tómarúmi. Ráðamenn í Evrópu hafa haft áhyggjur af því að hægt hefur á hagvexti frá því í upphafi þessarar aldar. Ýmsar tilraunir til að auka vöxt hafa verið reyndar en allt hefur stefnt í sama farið. Það er nokkurn veginn sama við hvað er miðað, bilið milli ESB og Bandaríkjanna hefur aukist verulega, sérstaklega í landsframleiðslu. Það stafar aðallega af minni framleiðniaukningu í Evrópu. Heimilin í Evrópu hafa greitt hátt verð fyrir ýmsar álögur og íþyngjandi regluverk. Við Íslendingar þekkjum það í gegnum gullhúðaða reglugerðarskrautið sem til okkar berst.

Tvöföld kaupmáttaraukning í Bandaríkjunum

Sé miðað við íbúatölu hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna vaxið næstum tvöfalt meira í Bandaríkjunum en í ESB síðan árið 2000. Lengst af töldu Evrópubúar að þetta væri ásættanlegur kostnaður vegna þeirra mörgu breytinga sem gerðar hafa verið, svo sem til að mæta auknum umhverfiskostnaði. Útflytjendur í Evrópu náðu vaxandi markaðshlutdeild í hratt vaxandi heimshlutum, sérstaklega Asíu. Um leið komu fleiri konur inn á vinnumarkaðinn og vinnuafl jókst samhliða. Eftir bankakreppunar 2008 til 2012 reyndist atvinna stöðug um alla Evrópu og hjálpaði til við að draga úr ójöfnuði og viðhalda félagslegri velferð. ESB naut þannig góðs af hagstæðu alþjóðlegu umhverfi. Heimsviðskipti jukust og Evrópa naut góðs af því.dragi

Falskt öryggi og rússneskt gas

Um leið tryggði bandaríska öryggisregnhlífin að ekki þyrfti að setja svo mikla fjármuni í varnarmál að unnt væri að verja þeim í annað. Lengst af öldinni virtist sem talsverður stöðugleiki ríkti í öryggismálum Evrópu sem gerði viðskipti auðveldari og herkostnað minni. Lengst af höfðu menn væntingar um að svo yrði áfram og verða stöðugt vaxandi orkuviðskipti við Rússa að skoðast í því ljósi. Öryggismat Evrópu gerði ráð fyrir stöðugleika og ógnin af Rússum var metin í lágmarki. Um leið leyfðu ríki Evrópu sér þann munað að svíkjast undan kröfum Nató um framlag til öryggismála og töluðu jafnvel um að stofna Evrópuher án þess að hafa hugsað það til enda. Á sama tíma gerðu lönd eins og Þýskaland sig nánast háð jarðgasi frá Rússum. Það hefur heldur betur snúist í höndum þeirra. „Undirstöðurnar sem við byggðum á eru nú að hristast,“ segir í skýrslu Dragis.

Engum dylst að þessi alþjóðlega hugmyndafræði er að hverfa. Tími örs vaxtar í heimsviðskiptum virðist vera liðinn um leið og fyrirtæki innan ESB standa frammi fyrir bæði meiri samkeppni erlendis frá og minna aðgengi að erlendum mörkuðum. Evrópa hefur skyndilega misst sinn mikilvægasta orkugjafa, bensínstöðina Rússland. Á sama tíma er stöðugleiki að minnka og í ósjálfstæði Evrópu hafa birst margir veikleikar segir í Dragi-skýrslunni.

Sitja eftir í tækni

Sem fyrr eru tæknibreytingar örar. Evrópa missti að mestu af stafrænu byltingunni sem varð með uppgangi Internetsins og framleiðniaukningu í kjölfarið. Í raun skýrist framleiðnibilið á milli ESB og Bandaríkjanna að miklu leyti af tæknigeiranum. ESB er veikburða hvað varðar nýja tækni sem mun knýja áfram vöxt í framtíðinni. Aðeins fjögur af 50 efstu tæknifyrirtækjum í heiminum eru evrópsk. Verðmætasta fyrirtæki Evrópu framleiðir lúxusvörur. Evrópa er eins og gömul kona sem á glæsilegan fataskáp en hefur ekki efni á að endurnýja bílinn. Ef Evrópa ætlar að taka mark á orðum Dragis verður að bretta upp á ermarnar.