c

Pistlar:

1. október 2024 kl. 18:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skuldaráðuneytið það þriðja stærsta

Í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta, uppgjörs við kröfuhafa gömlu bankanna þar sem þeir voru knúnir til að fallast á stöðugleikaskilyrði stjórnvalda og afhenda íslenskar eigur sínar gerbreyttist skuldastaða ríkissjóðs. Ríkissjóður varð nánast skuldlaus árið 2016. Það kann að hafa skapað andvaraleysi hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem brá á það ráð að láta ríkissjóð taka yfir stóra hluta hagkerfisins þegar Kóvid-faraldurinn gekk yfir. Við það tækifæri var skrifað hér í pistli:

„Forráðamenn ríkisstjórnarinnar hafa ákveðið að beita ríkissjóði sem sveiflujöfnunartæki og höfðu á orði í upphafi að betra væri að gera of mikið en of lítið. Allt er þetta umdeilanlegt og líklega hefur skort nokkuð á að ríkisstjórnin hafi myndað sér plan eða í það minnsta útskýrt fyrir landsmönnum hvernig hún sjái fyrir sér hlutina. En virðast ráðherrar ríkisstjórnarinnar vera að fást við smærri myndina og takast á við verkefni svona jafnóðum og þau detta inn á borð þeirra. Fjöldi aðgerðarpakka sýndi þetta glögglega. Er hægt að fara fram á heildstæðari eða viðameiri lausn á þessu stigi? Mætti útskýra betur hvað við er að eiga og hvaða framtíðarsýn stjórnvöld styðjast við.“aa

Efnahagslegar afleiðingar faraldursins

Það slagorð ríkisstjórnarinnar að betra sé að gera of mikið en of lítið kostaði ríkissjóð háar fjárhæðir og við erum að bíta úr nálinni með það hér á landi. Efnahagslegar afleiðingar faraldursins urðu meiri á Íslandi en annars staðar þó að verulega megi efast um að þannig hefði þurft að fara.

Nú þegar fjárlög næsta árs eru komin fram og til umræðu í þinginu er rétt að skoða fjármál ríkissjóðs. Heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári eru áætlaðar verða 1.448 milljarðar króna og heildarútgjöldin 1.489 milljarðar króna og aukast um 5,8% á milli ára. Það er því stefnt að því að reka ríkissjóð með um 41 milljarða króna halla á næsta ári. Reynslan segir okkur að þessi hallatala hækki í meðförum þingsins en hér á mynd má sjá hversu einstakt ár 2016 var.aa

Hrein skuld ríkissjóðs aukist um 170 milljarða

Skuldir eru að aukast og hrein skuld ríkissjóðs hefur aukist um 169 milljarða króna frá áramótum, eða úr 1.245 í 1.414 milljarða króna eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í vikunni þar sem meðal annars var stuðst við grein um þróun ríkisskulda í Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins. Þar af hafa verðtryggðar hreinar skuldir hækkað um 44 milljarða króna sem skýrist að mestu leyti af aukinni verðbólgu síðustu 12 mánuði.

Enginn vafi er á því að skuldir ríkissjóðs og aukin lánsfjárþörf hefur áhrif á verðbólguvæntingar og þar af leiðandi vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Margir mættu því horfa þangað þegar býsnast er yfir stýrivaxtastiginu. Ríkissjóður fjármagnar sig að hluta á lánamarkaði en samkvæmt ársáætlun í lánamálum ríkissjóðs fyrir yfirstandandi ár, sem kynnt var í lok síðasta árs, hafa verið gefin út ríkisbréf fyrir 120 milljarða króna að söluvirði í ár. Ákveðið var að auka útgáfuna um 30 milljarða króna og þá fyrst og fremst vegna viðbótarkostnaðar sem féll til vegna jarðhræringa í Grindavík. Gert er ráð fyrir að gefa út 32 milljarða af ríkisbréfum á síðasta ársfjórðungi. Heildarútgáfa fyrir þetta ár er því áætluð 150 milljarðar króna. Styrking krónunnar undanfarnar vikur sýnir að erlendir fjárfestar sækja enn hingað í hátt vaxtastig.aaa Meðfylgjandi graf úr Morgunblaðinu sýnir þó vel að erlendar skuldir er enn sögulega lágar. 

Vaxtagjöld þriðji hæsti útgjaldaliðurinn

Vaxta­gjöld eru nú þriðji hæsti út­gjaldaliður­inn, á eftir kostnaði vegna lífeyristrygginga og Landspítalans. Áður en stöðugleikagjöldin komu til sögunnar voru vaxtagjöldin orðin annar hæsti útgjaldaliðurinn. Á næsta ári eru vaxtagjöld áætluð vera 98 milljarðar króna sem sam­svara 300 þúsund krónum á hvern íbúa. Það gera 270 milljónir króna á dag að meðaltali.

Skuld­ir rík­is­sjóðs verða 1.906 milljarðar króna á næsta ári eða 31% af VLF, og er gert ráð fyrir þær minnki um eitt pró­sent. Það þrátt fyr­ir árlega 100 millj­örðum króna betri af­komu en áætlað var þrjú ár í röð. Þessa betri afkomu má að stórum hluta rekja til meiri hagvaxtar og meiri verðbólgu sem meðal annars hefur í för með sér hærri virðisaukaskatts með hærra vöruverði og síðan fjármagnstekjuskatts af verðbótum. Allt hangir þetta saman í einni langri keðju eins og öll fjárlög ríkisins.