c

Pistlar:

8. október 2024 kl. 20:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sögublinda og sögulegir tímar

Í gær var ár liðið frá því átökin hófust fyrir botni Miðjarðarhafsins með árás Hamas-liða inn í Ísrael þar sem mikill fjöldi fólks var drepinn á hroðalegan hátt. Þar með var friðurinn rofinn og átök síðasta árs hafa nánast yfirtekið heimsfréttirnar. En dagurinn í gær var að sumu leyti minningardagur þess að átökin eins og þau eru núna hófust og einnig þess sem dundi yfir íbúa Ísraels. Það var nefnilega svo að 7. október dó eingöngu fólk í Ísrael og dagurinn einn sá blóðugasti í sögu landsins. Ekki hafa fleiri gyðingar verið myrtir í einni árás síðan á dögum þjóðarmorðsins á gyðingum sem Þjóðverjar stóðu fyrir í síðari heimsstyrjöldinni.aa

Rithöfundurinn Salman Rushdie sagði aðspurður um átök Palestínumanna og Ísraela að þetta væru í raun tvær sögur. Báðar þjóðirnar ættu sína sögu af niðurlægingu, kúgun og morðum og þessar sögur sköruðust ekki. Þetta sést greinilega þegar þetta ár sem um er liðið er gert upp. Það er engin samstaða meðal þjóðanna og stuðningsmanna þeirra um lýsingu á aðdraganda og afleiðingum árásarinnar.

Samsæriskenningar og söguleg afstæðishyggja

Það er svo sem ekkert nýtt að heimurinn sé klofinn, við höfum séð öll merki þess að einhverskonar skautun hafi tekið yfir umræðuna. Fyrir vikið virðist heimurinn ekki hafa lengur sameiginlega sögu að segja og ekki einu sinni einstakar þjóðir. Söguleg afstæðishyggja hefur tekið yfir sem getur einnig haft í för með sér sögublindu. Hvað er átt við með orðinu sögublinda? Jú, henni má líkja við lesblindu en þeir sem eru lesblindir geta ekki séð stafi í samhengi og orðin koma því ekki. Á sama hátt má segja að þeir sögublindu geti ekki meðtekið eða skilið hina einstöku atburði og því hverfur frá þeim samhengi sögunnar. Þetta getur birst með skýrum hætti í samfélagsumræðunni en ekki er óalgengt að þátttakendur þar pósti allskonar furðuþráðum eða samsæriskenningum og eðlilega setur menn hljóða. Hvernig á að staðfesta nokkuð lengur þegar allt er dregið í efa? Eða er efin eina vopnið sem menn hafa til að takast á við sífellt flóknari heim þar sem tæknin getur snúist gegn sannleiksleit mannsins.

Auðvitað er hægt að segja að samfélagsmiðlaumræðan sé bara gára í þjóðfélagsumræðunni en stundum hnýtur maður um þráð sem hefur tekið sérkennilega stefnu og ber öll merki þessarar sögublindu sem vikið var að hér að framanverðu. Þannig var það að pistlaskrifari sá umræðu á vegg Gísla Tryggvasonar lögfræðings sem hafði birt mynd til minningar um atburðina 7. október fyrir ári. Ég læt hér fylgja með nokkur ummæli sem menn skrifa og gera það undir fullu nafni.aaa

Framhald á 76 ára hernámi

Þór Saari, fyrrverandi þingmaður: „Vitaskuld má og á að minnast hryðjuverkanna 7. október í fyrr og fordæma þau harðlega. Þetta var alger hryllingur hvernig sem á það er litið. Þau eru hins vegar ekki upphafið að neinu eins og gefið er oft í skyn og notað í réttlætingaskyni fyrir þjóðarmorðinu á Gaza. Aðgerðir Ísraelsmann á Gaza eru bara framhald á 76 ára hernámi og þjóðernishreinsana Ísraelsmanna í Palestínu.“

Ólafur Garðarsson, bætir við: „við ummæli Þórs má bæta að ekkert hefur komið fram sem bendir til að nauðganir hafi farið fram af hálfu vígamanna frá Gaza 7. okt '23. Megin markmið þeirra var að taka gísla, höggva skörð í raðir IDF og sýna fram á að þeir geti líka komið höggi á kvalara sína. Morðin á óbreyttum borgurum voru augljóslega hryllileg en IDF ber töluverða ábyrgð á að fella sína borgara líka í öllum æsingnum. Hannibal directive var virkjað og þess vegna dóu fleiri óbreyttir borgara en ella hefði verið. Persónulega finnst mér of mikið gert úr þessum viðburði og lítið gert úr öllum undanfaranum/kúguninni og fjöldamorðum sem hafa staðið yfir í langan tíma. Í ljósi þess, þ.e. uppsafnaðri reiði er ekkert skrítið að þessi árás hafi raungerst þegar IDF svaf á verðinum.“

Viðar Þorsteinsson, fræðslu­stjóri Efl­ing­ar og fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri stétt­ar­fé­lags­ins skrifar: „Rólegur. Markmiðið var að ná gíslum. Þetta þvaður um nauðganir hefur verið algjörlega jarðað af alvöru blaðamönnum og vertu nú ekki að dreifa svona rasísku bulli.“
Og bætir svo síðar við á þræðinum:

„Þetta, alveg eins og allar hinar "fréttirnar" af þessu, er atrocity propaganda byggt eingöngu á meintum frásögnum frá hlið Ísraels sem er engin leið að staðfesta. Það eru engin sönnunargögn, ekkert hlutlægt sem hönd á festir, ekki neitt. Þú þarft sem sagt að velja - í miðju áráðursstríði - að trúa einhliða frásögnum frá augljóslega hlutdrægum og ótrúverðugum aðilum, aðilum sem hafa þegar verið staðnir að fráleitum og fjarstæðukenndum lygum um allt milli himins og jarðar varðandi gagnárásina 7. október. Frásagnir sem þar að auki ganga út á eina ógeðfelldustu rasista-klisjuna sem hvítir rasistar hafa notað í gegnum söguna til að réttlæta ofbeldi án dóms og laga gegn brúnum og svörtum mönnum, að þeir séu jú nauðgarar.“aa

Dauður gísl er einskis virði

Kristján Sigurður Kristjánsson: „tilgangurinn var mannrán, gíslataka. Börn og gamalmenni eru "vondir" gíslar. Í svona aðgerð er enginn tími fyrir nauðganir, ofnsteikingar á börnum eða fjöldamorð. Það er búið að sanna að Ísraelsher banaði vísvitandi með skriðdrekum, árásarþyrlum, handsprengjum, skriðdrekaeldvörpum og hríðskotabyssum bæði gíslum og mannræningjum. Það er alveg óvíst að mannræningjarnir hafi drepið eða hafa ætlað að drepa nokkurn mann. Þeim er líka ljóst að dauður gísl er einskis virði. Atburðarásin er nákvæmlega eins og uppreisnin í Varsjágettoinu.“

Hjálmtýr Heiðdal, formaður Fé­lags­ins Íslands-Palestínu (FÍP): „Atburðirnir 7. október er ekki stór hluti af sögunni þótt þeir séu hryllilegir. Hamas er hreyfing meðal þjóðar sem berst gegn þjóðarmorði - það er meginatriði. Stór hluti þeirra ísraela sem voru drepnir þennan dag voru her- og lögreglumenn auk landtökufólks. Margir almennir borgarar voru einnig drepnir og eru það augljóslega stríðsglæpir. En það eru stjórnendur Ísraels sem bera ábyrgðina. Þú lokar ekki fólk inni í 17 ár og gerir reglulega morðárásir á það fólk og ætlast síðan til þess að það láti af andstöðu. 2018 skutu ísraelskar leyniskyttur yfir 200 óvopnaða Gazabúa sem kröfðust þess að hernáminu lyki. Enginn dreginn til ábyrgðar.“

Hér eru ummælin birt óritskoðuð og óleiðrétt og tekið skal fram að þau eru ekki þau verstu eða mest villandi sem birtust í tilefni þeirra tímamóta sem voru í gær. Það er þekkt klisja að sannleikurinn sé fyrsta fórnarlambið í stríði en það er merkilegt til þess að hugsa að nú þegar heimurinn hefur öll tæki og tól til að leita sér þekkingar er enn deilt um staðreyndir máls. Niðurstaðan er þó sú að alls féllu hátt í 1.200 manns fyrir vígamönnum Hamas, þúsundir særðust og 250 voru teknir í gíslingu þann 7. október fyrir ári síðan. Það ætti að vera í lagi að minnast þess.