c

Pistlar:

10. október 2024 kl. 14:05

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að segja söguna um Icesave

Það kom mörgum á óvart að Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherrann, skyldi birtast í pólitíska spjallþættinum Silfrinu á mánudagskvöldið. Þar hrukku margir við þau ummæli hans að Icesave-málið hefði í raun aldrei verið neitt mál, þrotabú Landsbankans hefði greitt útistandandi innistæður eins og allir hefðu vitað allan tímann! Þetta er reyndar ekki með öllu ný fullyrðing og hefur verið haldreipi þeirra sem studdu Icesave-samningana á sínum tíma en sem kunnugt er yfirtók þetta átakamál hina pólitísku umræðu um nánast tveggja til þriggja ára skeið eftir bankahrunið 2008. Sú umræða var ekki eins einföld og Steingrímur J. vill nú vera láta. Alþingi sat allt sumarið 2009 og ræddi Svavars-samninginn á þeim forsendum að það væri verið að knýja þjóðina í hálfgerða Verslasamninga. Í ræðustól á þingi heyrðust vangaveltur um að íslensk þjóð yrði að fara á kartöflukúr næstu árin enda yrði ekki mikið afgangs á meðan verið væri að greiða af samningnum.aa

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Steingrímur J. Sigfússon talar með þessum hætti. Haustið 2013 kom út bók hans, Frá hruni og heim, sem var uppgjör við pólitískan feril hans og þó sérstaklega árin í ráðherrastól eins og pistlaskrifari sagði í ritdómi á sínum tíma. Þegar hann vék að niðurstöðu Icesave-málsins í bók sinni horfði Steingrímur fram hjá hinni afdráttarlausu niðurstöðu EFTA-dómstólsins og afgreiddi málið með þessum hætti (bls. 195): „Og að lokum þetta: Hvernig hefði umræðan orðið og jafnvel Alþingiskosningar vorið 2013 farið ef við hefðum tapað málinu að einhverju leyti? Það hlálegasta af öllu er að málið er að leysast af sjálfu sér á grundvelli þeirrar leiðar sem náðist fram með samningum vorsins 2009. Gamli Landsbankinn mun borga Icesave, hverja einustu evru og hvert einasta pund af höfuðstólnum.“

Vissulega var það svo að þegar málaferlin voru frá og Íslendingar gátu andað léttar að þá fóru menn að horfa með meiri yfirvegun á hvað þrotabú Landsbankans gæti staðið undir ef eignasala þess gengi vel. En þarna horfir Steingrímur algerlega fram hjá helsta gagnrýnisatriðinu varðandi Svavars-samninginn, nefnilega þeirri staðreynd að íslenskir skattgreiðendur áttu að borga vexti af fjármununum sem Bretar og Hollendingar ætluðu að lána okkur svo þeir gætu greitt innistæðueigendum strax. Það voru upphæðir sem munaði um fyrir íslenskt samfélag. Það er ekki hægt að tala sig fram hjá því að samningurinn tryggði Bretum og Hollendingum þessar greiðslur óháð því hvernig lyktir þrotabúsins yrðu.

„Hressandi“ að hlusta á Steingrím J.

Það er greinilegt að enn á að reyna að snúa þessari umræðu sér í hag. Margir hlupu til og þar var fremstur í flokki Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir sem birti þessi ummæli á Facebook:
„Það var „hressandi“ að horfa á Silfrið á mánudagskvöldið og sjá þar Steingrím J. Sigfússon lýsa staðreyndum Icesave-málsins, á sinn kristaltæra hátt. Bretar og Hollendingar fengu allan höfuðstól krafna sinna vegna innistæðutryggingar greiddan úr þrotabúi Landsbankans, sem átti vel fyrir þeim kröfum og talsverðar fjárhæðir að auki. Þar að auki fengu þeir yfir 20 milljarða króna í gjaldeyri í vexti, greidda í forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.aa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Einar Þorsteinsson voru einnig þarna í þættinum og sögðust vera „ósammála“ Steingrími. Ekki skil ég hvernig hægt er að vera „ósammála“ staðreyndum málsins. Allt sem Steingrímur sagði þarna var sannleikanum samkvæmt. Það stangast hins vegar á við þjóðsöguna sem búið er að skapa í kring um málið, sem er mun skemmtilegra og meira kitlandi að trúa á heldur en sönnu og leiðinlegu söguna.“ Vilhjálmur var einn þeirra sem töldu að málaferlin fyrir EFTA-dómstólnum væru hreint glapræði. Hann var svo viss að hann hafði boðað til sérstaks fundar í aðdraganda dómsuppsögunnar þar sem hann ætlaði að fara yfir „mistökin“. Þegar niðurstaðan lá fyrir afboðaði hann fundinn en auglýsingin um hann er hér meðfylgjandi.

Bókaflóð gamalla samstarfsmanna

Augljóslega ætla vinstri menn að snúa vörn í sókn vegna Icesave og sigra söguna því þeir gátu ekki unnið umræðuna á sínum tíma. Síðar í mánuðinum hefur verið boðuð útgáfa bókar Svavars Gestssonar Það sem sannara reynist - Um Icesave. Svavar lést árið 2021 en hafði gert tilraun til að víkja að þessu máli sem öðru fremur mótaði hans pólitísku arfleifð. Augljóslega hefur málið hvílt þungt á honum úr því að hann hefur farið að vinna drög að þeirri bók sem nú er að koma út í hans nafni. Athyglisvert er að það skuli hittast svo á að á sama tíma er að koma út bókin Þjóðin og valdið - Fjöl­miðlalög­in og Ices­a­ve, eftir Ólaf Ragnar en í for­setatíð sinni hélt Ólaf­ur Ragn­ar ít­ar­leg­ar dag­bæk­ur. Svavar og Steingrímur J. koma ekki vel út úr þeirri bók. Sjálfur er Steingrímur J. að koma út með bók fyrir þessi jól Fólk og flakk – sagnakvöld af baksviði stjórnmálanna en efast má um að þar verði fjallað um Icesave-málið. Í kynningu á bókinni segir að þar rifji Steingrímur J. upp eftirminnilegar sögur frá ferðum sínum um landið og af Alþingi.
aa

Jóhanna skyldi ekki ráðningu Svavars

Við skulum halda áfram að rifja upp fyrri bókaskrif um þessi mál. Í bókinni Minn tími. Saga Jóhönnu Sigurðardóttur sem kom út jólin 2017 var fjallað um Icesave-málið þó að það væri heldur yfirborðslegt. Þar viðurkennir Jóhanna að ríkisstjórn hennar hafi gert ýmis mistök við vinnu að lausn á málinu. Mesta athygli hlýtur að vekja að hún segir í bókinni að á sig hafi komið hik þegar Steingrímur J. Sigfússon ákvað að ráða Svavar Gestsson til að stýra samningaviðræðum vegna Icesave fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Um það segir Jóhanna:
„Eftir á að hyggja þá viðurkenni ég hins vegar að betur hefði farið á að við hefðum strax fengið hlutlausan erlendan sérfræðing að málinu eins og Lee Buchheit“ (bls. 290).aa

Og enn fremur:

„(Það) má kalla það afdrifarík mistök hjá Steingrími að ráða pólitískan fóstra sinn, Svavar Gestsson, sem aðalsamningamann. Þar með fékk samninganefndin á sig flokkspólitískan blæ, sem var einmitt það sem hefði átt að forðast.“ (bls. 293)
Í umsögn um bókina í Morgunblaðinu sagði Anna Lilja Þórisdóttir blaðamaður af þessu tilefni: „Ekki er annað hægt en að velta fyrir sér hvers vegna forsætisráðherra lét mann sem hún efaðist um vera í forsvari í svo mikilvægu máli. Engin haldbær skýring er gefin á því.“ Undir þær vangaveltur má taka.

Rangfærslunum tengdum Icesave-málinu lýkur seint og blekkingaleikurinn heldur áfram og nú ætla menn að sigra söguna. Sá er þetta skrifar hefur haft fyrir því að halda úti umræðusíðu á Facebook allt síðan bók mín, Icesave-samningarnir – Afleikur aldarinnar kom út 2011. Þar hefur samviskusamlega verið haldið til haga því sem um málið hefur verið sagt. Þar kennir margra grasa og forvitnilegt er fyrir fólk að kynna sér þau ummæli sem fallið hafa um málið.