c

Pistlar:

16. október 2024 kl. 11:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Veruleiki íslenska hagkerfisins

Í gær voru tveir fundir sem fjölluðu um íslenskt efnahagslíf, samkeppnishæfni landsins og þau tækifæri sem eru framundan. Að því leyti voru þessir fundir dálítið á skjön við fyrsta kosningafundinn í aðdraganda kosninga sem fór fram í Silfrinu í Ríkissjónvarpinu kvöldið á undan. Á meðan pólitísk óvissa hefur helst yfir landsmenn reynir atvinnulífið að meta ástand og horfur út frá efnahagslegum forsendum og þeim raunveruleika sem birtist hverjum og einum.Skjámynd 2024-01-16 213602

Ný þjóðhags- og verðbólgu­spá Grein­ing­ar­deild­ar Lands­bank­ans 2024-2027 var kynnt í gærmorgun, en auk kynn­ing­ar­inn­ar voru pall­borðsum­ræður um tæki­færi í út­flutn­ingi. Lilja Björk Ein­ars­dótt­ir banka­stjóri Lands­bank­ans set­ti fundinn og sagði að það skipti verulegu máli að útflutningsgreinum landsins gengi sem best. Þess vegna voru fjórir forstjórar útflutningsgreina fengnir til að taka þátt í umræðunni. Það voru Eggert Þór Kristó­fers­son, for­stjóri First Water, Guðmund­ur Fer­tram, stofn­andi og for­stjóri Kerec­is, Ingvar Hjálm­ars­son, for­stjóri Nox Medical og Jón­ína Guðmunds­dótt­ir, for­stjóri Corip­harma. Um leið og Lilja kynnti forstjórana til leiks sagði hún að Íslendingar þurfi að treysta á lyfjaiðnað og fiskeldi til að auka útflutningstekjur landsmanna. Útflutningstekjur íslenska hugverkaiðnaðarins hafa sótt í sig veðrið og þrefaldast á síðasta áratug. Ingvar Hjálmarsson sagðist sannfærður um að hugverkaútflutningur yrði stærsta útflutningsgrein Íslendinga, einfaldlega vegna þess að þeir hefðu ekki val um annað.

Hagkerfið stendur í stað

Greiningardeild Landsbankans spáir því að hagkerfið standi nánast í stað á milli ára og að landsframleiðsla dragist saman um 0,1%. Bakslag í útflutningsgreinum setti svip sinn á fyrri hluta árs, loðnubrestur og hægari vöxtur ferðaþjónustu ollu samdrætti á sama tíma og háir vextir hafa kælt eftirspurnina sem engu að síður mælist nokkuð kröftug segir í spánni. Þetta er mikil breyting frá síðustu árum þar sem hagvöxtur hefur verið 5 til 9% árlega, en þeim mikla hagvexti hefur fylgt mikil og þrálát verðbólga. Greiningardeild Landsbankans gerir nú ráð fyrir öðrum og rólegri takti. Slaki hefur færst yfir hagkerfið sem nær andanum, verðbólga hjaðnar duglega, vextir lækka og hagkerfið fer aftur af stað hægt og rólega með um 2% hagvexti árlega næstu árin.virkjun2

Greiningardeild Landsbankans segir að spá sín sé almennt nokkuð björt þrátt fyrir horfur á samdrætti á þessu ári. Verðbólga hjaðnar hratt samkvæmt spánni og vextir halda áfram að lækka. Kólnun hagkerfisins getur engu að síður reynst mörgum sársaukafull. Raunvextir eru háir og gætu enn hækkað. Það þýðir að aðhaldið gæti aukist sem þrengir að heimilum og fyrirtækjum í landinu. Sem fyrr er spáin háð ýmiss konar óvissu. Má þar nefna ófrið víðsvegar í heiminum sem gæti haft áhrif á efnahag ýmissa viðskiptalanda okkar og þar með okkar. Eldsumbrot standa einnig enn yfir á Reykjanesskaga sem gæti ógnað innviðum á svæðinu.

Hvað næst í sjávarútvegi?

Á sama tíma og greiningardeildin kynnti spá sína var hinn árlegi Sjávarútvegsdagur Deloitte, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi haldinn undir yfirskriftinni Hvað næst? Fólk úr öllum greinum sjávarútvegs og fiskeldis gerði þar tilraun til að sjá fyrir sér næstu tíu ár og áhugaverð erindi voru flutt um stöðu og framtíðarhorfur í fiskeldi, útgerð og vinnslu. Þar héldu Jónas Gestur Jónasson, meðeigandi Deloitte og löggiltur endurskoðandi, Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Samherja, og Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells, erindi. Það var áberandi hjá þeim og þeim sem tóku til máls í kynningarefni tengdum fundinum að stjórnendur í sjávarútvegi eru sem fyrr að biðja um það eitt að stjórnvöld leyfi greininni að þróast áfram á eigin forsendum. Og að reglugerðafarganið verði einfaldað.fiskeldi2

Fiskeldi fær stöðugt meiri athygli á fundum sjávarútvegsins enda miklir vaxtarmöguleikar í greininni. Þannig sjá menn fram á verulegan vöxt næstu árin og að fiskeldi eitt og sér verði að mjög stórri útflutningsgrein. Helgi Þór Logason, hjá First Water, sagði að innan 10 ára ætti landeldi að geta verið grein sem framleiddi um 100 til 110 þúsund tonn og velti þá um 100 til 150 milljörðum króna sem yrðu þá fyrst og fremst útflutningsverðmæti.

En flestir fundarmanna voru á því að áframhaldandi fjárfesting sé það sem þurfi til að viðhalda samkeppnisforskoti Íslendinga í þessari grein. Það á svo sem við um aðrar greinar atvinnulífs hér á landi. Eftir að hafa hlustað á þessa fundi (sem nú er streymt á netinu) er ekki hægt annað en að vera bjartsýn á framþróun íslenska hagkerfisins, ef við höfum gæfu til að taka réttu ákvarðanirnar.