c

Pistlar:

18. október 2024 kl. 15:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Um hvað snýst kosningabaráttan?

Kosningar hellast yfir landsmenn með skömmum fyrirvara en kosið verður eftir 43 daga. Þriggja flokka stjórn hverfur af vettvangi og fátt bendir til annars en að stjórnarmyndun verði flókin eftir kosningar og ný ríkisstjórn krefjist aðkomu að minnsta kosti þriggja flokka. Hugsanlega er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2013 síðasta tveggja flokka stjórn landsins, þó auðvitað sé erfitt að spá langt fram í tímann.aastjorn

Gera má ráð fyrir að átta til tíu flokkar bjóði fram til þings en átta stjórnmálasamtök fengu fulltrúa kjörna á Alþingi í alþingiskosningunum 25. september 2021: Flokkur fólksins (6), Framsóknarflokkur (13), Miðflokkur (3), Píratar (6), Samfylkingin (6), Sjálfstæðisflokkur (16), Viðreisn (5) og Vinstri hreyfingin – grænt framboð (8). Þær breytingar urðu síðan strax eftir kosningar að Birgir Þórarinsson sagði sig úr þingflokki Miðflokksins og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.

Hverskonar stjórnmál?

Ef við lítum yfir pólitíska sviðið má segja til einföldunar að Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur stilli sér upp á hægri vængnum, Viðreisn og Framsóknarflokkur slást um miðjuna og aðrir flokkar einhversstaðar á vinstri vængnum. Stjórnmálafræðingar hafa reyndar átt í vandræðum með að raða upp hinum stjórnmálalegu ásum enda hafa klassískar átakalínur stjórnmála, svo sem afstaða til umfangs ríkisvaldsins og svigrúm einkaframtaksins riðlast. Um leið hefur einhverskonar menningar- og mannréttindastjórnmál rifið upp þjóðfélagsgerðina með þeim afleiðingum að sumir upplifa sig sem útlendinga í eigin landi.

En það eru undirliggjandi átök og klofningur í samfélaginu sem birtist meðal annars í því að skautun í samfélaginu eykst. Því er það svo að vinstri og hægri eru nánast að skipta um sæti með tilkomu hægri þjóðernisstefnunnar og því að „vinstri“ flokkar hafa smám saman yfirgefið stéttastjórnmál, verkalýðsstéttina og launafólk almennt, sumpart í kjölfar hruns austur-evrópsks sósíalisma og áfallsins sem marxismi varð þá fyrir. Upprisa Sósíalistaflokksins og barátta Eflingar er svar við þessu fráhvarfi þeirra vinstri flokka sem hér voru fyrir.

Um leið hafa vinstri menn tekið upp staðgengilsstjórnmál sem birtast í jaðarvæðingu mannréttinda undir skilgreiningum einhverskonar nýmarxisma. Í stað þess að huga að klassískum borgaralegum mannréttindum sem ætlað er að tryggja rétt einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu er nú unnið að því að smætta mannréttindi niður í vælustjórnmál (woke-isma) nútímans.

Velferðakerfi fyrir hverja?

Flestir vestrænir kjósendur eru stoltir af sínu velferðarkerfi og telja að það eigi að standa undir því að sinna börnum, veikum, öldruðum og öðrum þeim sem þurfa á aðstoð að halda. Hið klassíska norræna velferðarkerfi byggir á að kapítalískt markaðsþjóðfélag standi undir ríkulegu velferðarkerfi. En nú þegar kerfið er í senn vanfjármagnað, illa rekið og með opinn réttindaávinning spyrja menn sig, fyrir hverja var þetta velferðarkerfi smíðað?aastjorn

Af öllu þessu leiðir að kjósendur eru ráðvilltir og hægri þjóðernisstefnuflokkar höfða nú meira en áður til verkalýðs- og iðnaðarmannastéttar sem situr eftir í landi sem þeir skilja ekki lengur. Þetta er uppleggið í mörgum löndum Vestur-Evrópu þar sem einhverskonar hægri þjóðernisstefnuflokkar njóta vaxandi stuðnings. Þegar grannt er skoðað eru þetta flokkar sem hafa fundið hvað veldur stórum hluta landsmanna áhyggjum, svo mjög að það óttast um framtíð sína í eigin landi, og hafa notið fylgis í takt við það. Fleiri og fleiri snúast gegn opingáttastefnu í hælisleitendamálum en verndun landamæra er að verða eitt af stórmálum Evrópu. Lengi vel voru lönd eins og Ungverjaland fordæmd fyrir stefnu sína en nú virðast flest lönd Evrópusambandsins vera að taka stefnu þeirra upp, nú síðast Pólverjar sem stýrt er af fyrrverandi framkvæmdastjóra ESB.

Hækka eða lækka skatta?

En peningar eru afl þeirra hluta sem gera þarf. Nú háttar svo til að sameignarsinnar á vinstri væng stjórnmálanna vilja sem mesta millifærslu fjármuna í gegnum skattkerfið. Hækka verði skatta svo að ríkisvaldið geti sinnt öllum þeim verkefnum sem þarf til að reka skikkanlegt þjóðfélag. Nákvæmlega hvar þetta gullsnið skattheimtu er vita fáir en í dag eru mörg vestræn þjóðfélög búin að ganga ansi langt í að hlaða yfirbyggingu ofan á skattgreiðendur og sum með allt að helming landsframleiðslunnar í gegnum hið opinbera. Þessi þjóðfélög bera mörg hver með sér merki stöðnunar og hnignunar.

Svo má ekki gleyma því að margir sósíalistar vilja reyndar ganga svo langt að sleppa þessari millileið, hafna einkaframtakinu með öllu og láta hið opinbera sjá um rekstur fyrirtækja og þannig verði hámarksvelsæld landsmanna tryggð. Fáir með skilning á hagfræði trúa þessu og sagan hefur fyrir löngu kveðið upp sinn dóm. En það breytir því ekki að líklega eru um það bil 5 til 10% landsmanna sem vilja fara þessa leið. Margir aðrir á vinstri vængnum eru óljósir um hve langt þeir vilja ganga í að ríkisvæða hagkerfið.

Rentustefna í stað skattastefnu

Ágreiningur um stærð og umfang ríkisvaldsins birtist auðvitað skýrt í gegnum skattastefnuna. Líklega eru VG-liðar og sósíalistar hreinskilnastir með skattheimtuvilja sinn. Þeim finnst skattar nánast aldrei geta verið of háir og beita oft óljósum réttlætisrökum fyrir sig, það eigi enginn að vera of ríkur og að tekjujöfnuður skili betra samfélagi. Við þekkjum hvar svona stefna byrjar og sagan segir hvar hún endar enda leitun að sósíalísku hagkerfi sem bætir efnahag fólks.

En þó að líklegt sé að allir vinstri flokkarnir leiði yfir landsmenn meiri skattheimtu eru þeir heldur óljósir um slíkt. Má vera að menn sjái útgönguleið út úr því í einhverskonar rentustefnu eins og kynnt var á nýafstöðnu þingi ASÍ. Undir liðnum Auðlindir í þágu þjóðar var mættur norskur fræðimaður, Kar­en Ulltveit Moe, og hélt erindi sem hét: Skatt­lagn­ing auðlindar­entu – Norska leiðin. Í kjölfarið var rætt við Kar­en um fyr­ir­komu­lag auðlinda­gjalda í Nor­egi og hvernig reynsla Norðmanna gæti nýst Íslend­ing­um. Augljóslega lítur verkalýðshreyfingin svo á að auðlindarenta geti komið inn sem ný og gjöful skattlagningarleið. Viðreisn virðist vera að þróa áhuga sinn á auðlindagjaldi yfir í einhverskonar allsherjarauðlindagjald sem allir greiði.aastjorn

Samfélagsleg gildi

ASÍ eru stærstu samtök launamanna og var forvitnilegt fyrir áhugafólk um stjórnmál að hlusta á lokaorð Finn­björns Hermannssonar, forseta ASÍ, einmitt á þessari stundu kosningabaráttunnar. Finnbjörn tók fram að ASÍ væri póli­tísk hreyf­ing. „Okk­ar póli­tíska aðkoma mót­ast af hags­muna­vörslu fyr­ir fólkið í land­inu,” sagði hann. „Okk­ar póli­tíska aðkoma bein­ist gegn sér­hags­mun­um og skipu­lagðri viðleitni til að grafa und­an þeim sam­fé­lags­gild­um sem við höf­um sam­ein­ast um.”

Nú væri fróðlegt ef einhver spyrði forseta ASÍ hvaða samfélagslegu gildi hann er að tala um því hugsanlega gæti komandi stjórnmálabarátta snúist um það. En eins og rakið var hér að framan eru afskaplega ólík sjónarhorn um það hvert samfélagið eigi að stefna, en það er svo sem ekkert nýtt.