c

Pistlar:

28. október 2024 kl. 16:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Lægri fæðingartíðni lækkar mannfjöldaspár

Verulegar lýðfræðilegar breytingar eru í gangi víða um heim og fæðingartíðni víða um heim heldur áfram að vera undir því sem mannfjöldaspár gengu út á. Meira en helmingur hagkerfa heimsins, þar sem búa tveir þriðju hlutar jarðarbúa, er nú með frjósemi undir 2,1 barni á konu en það er sú tala sem þarf til að viðhalda mannfjölda.

Án aðgerða mun meðalaldur landanna verða hærri og hærri og íbúum þeirra svo fækka með tímanum. Þetta kom fram í skýrslu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti nú í september síðastliðnum. Segja má að mannfjöldatölfræði sé í stöðugu endurmati en flest bendir til þess að hámarksmannfjöldi verði talsvert lægri en fyrri spár gengu út á og að hann náist fyrr. Rannsókn læknaritsins Lancets fyrr á árinu vakti mikla athygli eins og fjallað var um hér.aa

Verður hámarkið í 9 milljörðum?

Ekki er langt síðan miðað var við að mannfjöldi á jörðinni gæti náð hámarki einhversstaðar á bilinu 14 til 15 milljarðar manna en þessi tala hefur lækkað hratt. Fyrir ekki löngu síðan voru spár um að hámarkið gæti orðið í kringum 9,7 milljarðar manna en fyrir nokkrum dögum var sagt frá því að þessi tala gæti allt eins orðið enn lægri. Með öðrum orðum, við gætum séð hámarksfjölda íbúa í aðeins 9 milljarða árið 2054. Eftir það myndi mannkyninu fækka hratt eins og vakin var athygli á í grein hér fyrr á árinu.

Í sumar birtu Sameinuðu þjóðirnar mannfjöldaspá sína (World Population Prospects 2024: Summary of Results). Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að íbúafjöldi jarðar nái hámarki um miðjan níunda áratuginn og fjölgi á næstu sextíu árum úr 8,2 milljörðum manna árið 2024 í um 10,3 milljarða um miðjan níunda áratuginn og muni fara aftur í um 10,2 milljarða í lok aldarinnar. Nú gerir þessi spá ráð fyrir að mannfjöldi árið 2100 verði sex prósentum minni eða 700 milljónum færri en búist var við fyrir áratug.

Erfið lýðfræði

Lönd eins og Ítalía, Japan og Þýskaland eru nú þegar að upplifa áhrif þessara lýðfræðilegu umbreytinga. Lægri fæðingartíðni hefur í för með sér færri íbúa á vinnualdri, sem aftur hefur áhrif á framleiðni í efnahagslífinu og eykur álag á félagslegt stuðningskerfi. Hlutfall eftirlaunaþega af launþegum fer hækkandi, sem leiðir til hærri kostnaðar við lífeyri og heilbrigðisþjónustu og veldur þrýstingi á ríkisfjármálin.

Nokkur lönd með lækkandi fæðingartíðni eru að gera tilraunir með nýstárleg stefnuviðbrögð. Til dæmis bjóða Norðurlöndin upp á rausnarlegt fæðingarorlof og niðurgreidda barnagæslu til að hvetja til hærri fæðingartíðni. Á sama hátt veitir Singapúr fjárhagslegan hvata fyrir fjölskyldur til að eignast fleiri börn. Að auki getur fjárfesting í tækni og sjálfvirkni, eins og sést í löndum eins og Japan, hjálpað til við að auka framleiðni þrátt fyrir minnkandi vinnuafl. Japan og Ungverjaland hafa á undanförnum árum reynt að auka fæðingartíðni með skattaívilnunum og ódýrari barnagæslu, þó að engar af þessum ráðstöfunum virðist hafa haft þau áhrif sem vonast var eftir.

Á sama tíma eru svæði eins og Afríka sunnan Sahara með háa frjósemi, sem býður upp á annars konar áskoranir, þar á meðal þörf á að fjárfesta í menntun og heilbrigðisþjónustu og skapa störf til að styðja við ungan og vaxandi íbúafjölda. Hins vegar geta lönd á þessum svæðum einnig nýtt sér æskulýðfræði sína til að styðja við hagvöxt.islam

Staða kvenna lykilþáttur

Hröð fækkun í einstökum löndum mun líklega fljótlega setja margvíslegar áskoranir á þau samfélög en við erum þegar farin að sjá það víða í Evrópu og þróuðustu Asíulöndunum. Frjósemi í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu, á síðasta ári fór niður í lægsta gildi sitt eða 0,55 börn á konu. Eins og áður sagði er fækkun Japana þekkt stærð en þeim fækkar um 6 til 700.000 á ári. Kínverjum er einnig tekið að fækka hratt. Öll þessi lönd hafa það sameiginlegt að hafa þróað vinnumarkað sinn hratt án þess að bæta stöðu kvenna um leið.aamex

Innflytjendamál í Bandaríkjunum eru kosningamál þar, meðal annars vegna örs innstreymis fólks frá Mexíkó. Nú er hins vegar svo komið að Mexíkó er nú undir Bandaríkjunum þegar kemur að fæðingatíðni en hún hefur lækkað hratt undanfarið í Mexíkó sem að sumu leyti má rekja til óaldar og glæpatíðni. Enginn vill eignast börn þar sem glæpaflokkar ráða ríkjum.