c

Pistlar:

3. nóvember 2024 kl. 17:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bubbi, þorpið og réttu fiskarnir

Á forsíðu nýs Sportveiðiblaðs eru feðgarnir Bubbi Morthens og Brynjar Úlfur Morthens en í viðtali í blaðinu ræða þeir veiðiferð sína í Laxá í Aðaldal sem er ein dýrasta veiðiá landsins. Gera má ráð fyrir að dagurinn kosti þá feðga 300 til 400 þúsund krónur. Þeir tala um að þarna muni þeir veiða um ókomna framtíð. Þetta virðist ánægjulegt og öfundsvert líf og ekki spillir að Bubbi lætur mynda sig í glæsibílum með veiðibúnað af dýrustu gerð. Hin heilbrigða karlmennska á heima á síðum Sportveiðiblaðsins.bubbisport

Það má hugsanlega lesa út úr fréttinni önnur og ánægjulegri tíðindi, nefnilega að það sem vanalega er kallaður félagslegur hreyfanleiki er bara nokkuð mikill hér á landi. Skilgreiningin nær til þess að hreyfa sig á milli þjóðfélagshópa, jafnvel að færa sig upp um stétt. Bubbi er líklega skýrt dæmi um slíka færslu sem og Tolli bróðir hans. Um einstaklega farsælan og arðbæran málaraferil Tolla má lesa hér í grein. Eftir ótal viðtöl og þætti vita landsmenn að æska og uppvöxtur þeirra bræðra var ekki auðveldur og hefur orðið báðum að yrkis- og umfjöllunarefni. Bræðurnir hafa brotist til frægðar og frama og eru nú orðnir efnaðir menn. Það er reyndar ekki bundið við Ísland að menn af fátæku fólki nái frama í listum en segir það samt ekki eitthvað um þau tækifæri sem landið hefur uppá að bjóða? Margt var jú þeim bræðrum mótdrægt, líklega var það helst skrifblindan sem háði Bubba án þess þó að hann léti hana stöðva sig.

Það vita flestir að Bubbi var farandverkamaður og flakkaði á milli verbúða á yngri árum. Í ljóðabókinni Hreistur fjallar Bubbi um þann horfna heim en einnig þekkjum við það úr sögubókum, söngvum og leikritum. Sömuleiðis vitum við að Bubbi þekkti bæjarins besta dóp og var fölur á kinn í endalausum partíum með dópið sem sinn eina vin eða eins og segir í fyrsta erindi í laginu „Manstu“ af hljómplötunni Dögun frá árinu 1987:

Manstu þær nætur þegar engan svefn var að fá?
Endalaus partí, aldrei aldrei slakað á.
Jaxla við bruddum bláir undir augum fölir á kinn.
Manstu þá daga þegar dópið var eini vinur þinn?

Er þorpið hans Bubba enn að þurrkast út?

Bubbi hristi af sér óregluna og áherslur hans breyttust og um leið fór hann að syngja meira um þær breytingar sem orðið hafa vegna kvótakerfisins sem hann virðist ekki trúa á. Það er inntak textans í laginu Þorpið eftir Bubba Morthens. Lagið er á samnefndri plötu sem kom út 2012, fjórum árum eftir bankahrunið sem lék efnamenn eins og Bubba grátt. Nú skal gert upp við breytta atvinnustefnu.

Þorpið er hér ennþá en frystihúsið fór í gær
Fór án þess að kveðja með sínar vélar og rær
Bryggjan bátavana kvótinn minning ein
Í fjörunni leifar af bát, fuglar og bein
Unga fólkið er fyrir sunnan að dreyma
Gamla fólkið situr eftir heima
Minningar útá fjörðinn streyma
Þorpið er að þurrkast út

Þar sem malbikið er, grasið teygir sig uppúr
Fjallahringurinn er orðinn einskonar múr
Part úr vetri nær sólin aldrei að skína
Á fjörðinn og ljósið er vart sjáanleg lína
Unga fólkið er fyrir sunnan að vinna
Gamla fólkið varð eftir með nál og tvinna
Útá firði er enga drauma að finna
Þorpið er að þurrkast út

Húsin kosta nokkrar dánar krónur
Kannski er hægt að rækta úr þeim feitar jónur
Leikskólinn geymir bergmál hrópandi barna
Sem í borginni segja ég fæddist þarna
Sem ekkert ungt fólk finnst lengur
Bara gamalt lið og naktar fánastengur
Á landi er víst enginn happafengur
Þorpið er að þurrkast út

Bankakerfið fyrir sunnan féll með látum
En fimmtán árum fyrr hjá okkur útaf bátum
Sem voru keyptir og kvótinn seldur suður
Þar sem bankamenn átu gullhúðaðar kruður
Unga fólkið fór suður til að dreyma
Um gullið sem enginn átti heima
Og gammar yfir gömlu fólki sveima
Þorpið er að þurrkast út

Fjöllin þau standa, stara útá fjörðinn
Þorpið er að sökkva hægt oní svörðinn
En ég ætla að reyna rembast eitthvað lengur
Því konan mín er ólétt, það er sagt víst drengur
Hér vil ég vera hér á ég heima
En tækifærin virðast burtu streyma
Það er ekkert rangt við það að dreyma
Að þorpið mitt það hjarni við

Hér vil ég vera hér á ég heima
En tækifærin burtu bara streyma
Það er ekkert rangt við það að dreyma
Að þorpið mitt það hjarni við.

Lagið á undan er hin fjörlega Bankagæla þar sem Bubbi syngur þessar ljóðlínu: Bankinn minn fékk gefins lánið mitt, lánið mitt, lánið mitt.

En óháð fjármálum Bubba er hann augljóslega stjarna í íslensku tónlistarlífi eins og hið hógværa nafn „Kóngurinn“ ber með sér. Við sjáum sterka tilhneigingu til að „kanónísera“ hann nú þegar hann nánast situr á friðarstóli og söngleikurinn Níu líf, sem fjallar um ævi hans, nýtur fádæma vinsælda. Það er erfitt annað en að hrífast með þegar tónlistarmaðurinn Bubbi er annars vegar en það sama á kannski ekki endilega við um þjóðfélagsrýninn sem ber sama nafn. Eins og á við um marga listamenn þá er freistandi að ávarpa aðdáendur sína af Ólympíustindi frægðarinnar og vísa þeim leiðina. En þar er Bubbi dálítið tvöfaldur í roðinu eins og gerist stundum með frægðarmenni. Á meðan tækifæri gafst í góðærinu þá virtist hann njóta þess út í ystu æsar. En hann var svo sem ekki einn um að skipta um takt eftir bankahrunið.bubbi bíll

Það vakti til dæmis nokkra athygli þegar Bubbi kaus að selja útgáfuréttinn að lögum sínum. Í framhaldi þess mætti hann á glæsibílum í bestu veiðiár landsins og var nokkuð brattur. „Bubbi á gylltum Range Rover,” sagði í frétt Vísis, nánast eins og vísir að laglínu. Hugsanlega var hann með þessu dálítið fjarri mörgum af tónlistarlegum fyrirmyndum sínum í Bandaríkjunum en bílaáhuginn fellur vissulega vel að karlmennskulegri ímynd hans. Tónlistarlega kann ég miklu betur að meta bandarísku áhrifin og er þá alveg sama þó að margt sé tekið nokkuð frjálsri hendi. Í góðri heimildarmynd um Johnny Cash, sem Ríkissjónvarpið sýndi fyrir nokkrum misserum, sagði einn viðmælandinn að góðir tónlistarmenn fengju lánað frá öðrum en frábærir tónlistarmenn stælu bara því sem þeir þyrftu! Augljóslega var þar verið að svara gagnrýni sem Johnny Cash varð að þola. En auðvitað er það ánægjulegt að Bubbi skuli hafa tekið það eftir Cash að syngja í fangelsum.

Er þorpið að hjarna við?

En það er kannski ekki kjarninn í því sem hér var ætlunin að hafa til umræðu. Áhugaverðara er að ræða atvinnustefnu Bubba og hvernig ljóð og mynd fara saman. Eins og meðfylgjandi kvæði ber með sér þá saknar Bubbi liðinna tíma og horfinna útgerða. Helst af öllu vill hann þó „að þorpið mitt það hjarni við.” Hvað þorp nákvæmlega er átt við er þó ekki vitað og staðreyndin er sú að margir sjávarútvegsbæir landsins nutu ágæts uppgangs í kjölfar kvótakerfisins. Ekki allir, en margir. Útgerðir sem áður voru á hausnum náðu að endurskipuleggja rekstur sinn og skapa verðmæti og tryggja atvinnu. Það var ekki sjálfgefið að litlir sjávarútvegsbæir í dreifbýlu landi eins og Íslandi næðu að vaxa og dafna og atvinnulíf þeirra breytist óhjákvæmilega frá einum áratug til annars.

Auðvitað er ósanngjarnt að hengja þessa tvöfeldni í atvinnustefnu á Bubba einan. Þetta er ríkjandi viðhorf hjá mörgum nú um stundir og þessi eilífi söngur hefur áhrif. Samhliða vaxandi fjölda fólks hér á suðvesturhorninu hefur þekking og innsýn í rekstur sjávarútvegsfyrirtækja horfið. Framandleikinn er alger og Samherjamálið svokallaða er ein birtingarmynd þess. Það virðist furðu auðvelt að selja þá hugmynd að þeir sem græða hafi eitthvað að fela.

Gott fyrir viðskiptin?

Í viðtali við Tolla, bróður Bubba, sem tekið var fyrir nokkrum árum sagði Tolli að hann hefði notið þess að vera mjög sýnilegur í íslensku samfélagi. Nafn hans og ásjóna hafi verið þekkt. Þess vegna eru svo margir meðvitaðir um tilvist hans og hans myndlistar. Pistlaskrifara þótti það hreinskilin yfirlýsing á sínum tíma og má velta fyrir sér hvort þátttaka í þjóðfélagsumræðu sé almennt hluti af markaðsstarfi listamanna? Tolli sagði að hann þurfi að vera stöðugt sýnilegur. „Það hefur verið rauði þráðurinn í minni markaðsvinnu.“ Því séu samfélagsleg mál góð fyrir viðskiptin og hann segist láta sig ýmis samfélagsleg mál varða. Auk þess að láta gott af sér leiða með þeim hætti er það líka gott fyrir viðskiptin, að hans sögn.

Staðreyndin er sú að margt hefur breyst í jákvæða átt fyrir þorpin hans Bubba. Laxeldi er að rísa víða um land og hleypir nýju lífi í þorpin og dregur fólk heim. En þetta virðast ekki vera réttu fiskarnir því nú bregður svo við að öreigaskáldið Bubbi sér málið með augum sportveiðimannsins Bubba. Það hefur ekki farið framhjá neinum að Bubbi hefur verið harðskeyttur baráttumaður gegn fiskeldi fyrir ströndum landsins. Hann hefur meira að segja gengið svo langt að saka íslenska stjórnmálamenn um græðgi í skoðanagreinum sínum á Vísi um laxeldi. Þar segist hann óttast að Íslendingar muni útrýma villta laxastofninum líkt og þeir drápu síðasta geirfuglinn. „Hvað gerðist hjá Sjálfstæðismönnum og vinum þeirra sem með völdin fara? Hins sama má spyrja sig með VG og Framsókn. Hvernig geta menn lagst á koddann vitandi að þeir litu undan?“ spyr Bubbi núna. Skítt með þorpið.