c

Pistlar:

5. nóvember 2024 kl. 13:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skilvirkni hlutabréfamarkaða - japanska sagan

Öflugur hlutabréfamarkaður er oftast talinn til vitnis um sterkt hagkerfi sem byggir á góðri löggjöf, hefur sterkt regluverk og býr yfir pólitískum fyrirsjáanleika. Það sjá allir að til lítils er að bjóða hlutabréf til sölu þar sem ríkir pólitísk óvissa og eignarrétturinn stendur höllum fæti. En um leið er vandasamt að skapa nauðsynlegt traust og jafnvægi í kringum hlutabréfamarkaðinn og enn sem komið er hefur engri þjóð tekist það sama og Bandaríkjamönnum þegar kemur að því að skapa forsendur fyrir skilvirk og áreiðanleg kauphallarviðskipti.aa

Stærð bandaríska hlutabréfamarkaðarins er slík að hann hefur áhrif um allan heim og bandarískir fjárfestar eru iðnir að fjárfesta í ólíkum hagkerfum og ólíkum fyrirtækjum. Það sjáum við ágætlega hér á Íslandi en bandarískir fjárfestar hafa tyllt hér niður fæti með reglulegu millibili. Skemmst er að minnast þegar þeir keyptu íslenska „einhyrninginn“, Kerecis, fyrir ári síðan og eru nú búnir að tryggja sér óskabarn íslenska iðnaðarins, sjálft Marel.

Menningarpólitísk áhrif

Undanfarinn áratug hafa hlutabréfaeigendur átt undir högg að sækja og sótt að þeim úr ýmsum áttum. Mest áhrif hafa þó íþyngjandi skattar og reglugerðir sem oft og tíðum er ætlað að færa samfélagslega sýn einstakra stjórnmálaafla inn í bókhald fyrirtækja og hlutafélaga. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á arðsemi rekstrarins og að endingu finna hluthafarnir fyrir því. Þessi íþyngjandi ákvæði geta átt uppruna sinn víða, svo sem í umhverfismál eða einhverskonar félagsleg úrlausnarefni, svo sem jafnrétti kynjanna eða hrein og klár menningarpólitísk atriði sem vælustjórnmálin (woke) hafa fært okkur. Það segir sig sjálft að allt getur þetta aukið stjórnunarkostnað verulega, dregið úr skilvirkni, skapað íþyngjandi regluverk og þá um leið truflað ákvarðanatöku. Þetta er vandamál sem við þekkjum ágætlega hér á landi. Ef fyrirtækin eiga að snúast um allt annað en að framleiða og markaðssetja vöru eða þjónustu verður erfitt að réttlæta fjárfestingu í þeim.

Breytingar í Japan

Stundum getur verið fróðlegt að skoða hreyfiafl markaða og hvaða breytingar eru að eiga sér stað annars staðar í heiminum. Japan er með þriðja stærsta hagkerfi heims en eins og hér hefur oft verið fjallað um glíma Japanir við fólksfækkun og landsframleiðsla minnkar samhliða fækkun fólks. Japan notar enn að grunni til stjórnarskrána sem Douglas MacArthur hershöfðingi afhenti þeim eftir uppgjöf í heimsstyrjöldinni síðari. Hagkerfið og stjórnkerfið mótast af því en gamlar hefðir hafa líka áhrif.

Í Japan ríkti stöðnun um árabil og skuldir ríkissjóðs námu um 250% af landsframleiðslu sem er fáheyrt. Miklu skiptir þó að þær séu að mestu innlendar og þar sem vextir hafa verið neikvæðir lengst af hefur þetta ekki verið svo íþyngjandi fyrir ríkið þó að flestir átti sig á að á skuldastöðunni verður að vinna að lokum, sérstaklega núna þegar vextir eru orðnir jákvæðir.

Undir stjórn Abe Shinzo var ráðist í nokkrar endurbætur en hann varð forsætisráðherra árið 2012 og var myrtur tíu árum seinna. Hann var áhrifamaður innan Frjálslynda lýðræðisflokksins (Liberal Democratic Party/LDP) stjórnarflokksins og barðist fyrir efnahagslegum umbótum. Margt af því sem hann gerði hefur haft áhrif á japanskt efnahagslíf og sérstaklega hlutabréfamarkaðinn sem hefur hækkað um 16 til 17% það sem af er ári. Er þá vísað í japönsku vísitöluna Nikkei 225 sem tekur til 225 stærstu fyrirtækja Japans.aa

Einfalda reglur til að liðka fyrir markaðnum

Abe Shinzo leit svo á að það yrði að einfalda reglur til að liðka fyrir markaðnum. Það hafði sín áhrif en hreyfing komst á samruna og yfirtökur sem skilaði sér í því að fjármagn leitaði á arðbærari staði. Einnig var fyrirtækjum gert auðveldara að kaupa eigin hlutabréf sem jók skilvirkni markaðarins.

Allt leiddi það til þess að erlendir fjárfestar fóru að gefa japönskum hlutabréfum meiri gaum og fram í lok ágúst höfðu þeir fjárfest fyrir um 33 milljarða Bandaríkjadala í japönskum bréfum. Miklu skipti að bandaríski stórfjárfestirinn Warren Buffett hóf að kaupa japönsk bréf og að venju fylgdu margir í kjölfar hans. Alla jafna hefur Buffett ekki fjárfest mikið fyrir utan Bandaríkin og því voru þetta nokkur tíðindi.

Í leiðara viðskiptatímaritsins Economist voru þessar aðgerðir japanskra yfirvalda lofaðar en um leið bent á að menn mættu ekki halda að verkinu væri lokið. Áfram þyrfti að koma með umbætur en því miður væru stjórnmálamenn búnir að setja þær í hendurnar á embættismönnum og því óttast margir að umbótaferlið tefjist.