c

Pistlar:

11. nóvember 2024 kl. 20:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Íslensk fiskihagfræði í fremstu röð

Í síðustu viku var gefin út bókin Fish, Wealth, and Welfare (Fiskur, fé og farsæld) eftir Ragnar Árnason, prófessor emeritus í fiskihagfræði við Háskóla Íslands. Í tilefni útgáfunnar héldu hagfræðideild Háskóla Íslands og RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, alþjóðlega ráðstefnu um fiskihagfræði í hátíðarsal Háskóla Íslands.

Bókin hefur að geyma tíu merkustu ritgerðir Ragnars á ensku í fiskihagfræði en Ragnar er einn virtasti fiskihagfræðingur heims. Jafnframt starfi sínu í Háskólanum hefur hann verið sérfræðingur Alþjóðabankans og gefið út um 200 fræðilegar ritgerðir, skýrslur og bækur. Ritstjóri hinnar nýju bókar er dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands. Frummælendur voru auk Ragnars, prófessorarnir Rögnvaldur Hannesson og Trond Bjørndal. Í pallborði ráðstefnunnar voru prófessor Peder Andersen við Kaupmannahafnarháskóla, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Árni M. Mathiesen, fyrrverandi aðstoðarforstjóri FAO, og Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður.lodna

Fræðilegur samhljómur


Fyrir fiskihagfræðina og reyndar stöðu íslensks sjávarútvegs var þetta nokkuð merkileg stund en hún staðfesti það öfluga og merka starf sem fer fram hér á landi á sviði fiskihagfræði. Það er auðvitað ómögulegt að segja hvað vekur áhuga fjölmiðla en utan Morgunblaðsins sýndu aðrir íslenskir fjölmiðlar málinu lítinn áhuga. Það er auðvitað eftirtektarvert því fyrirkomulag fiskveiða hefur verið pólitískt hitamál langt umfram það sem fræðin segja til um.

Staðreyndin er sú að fræðimenn á sviði hagfræði, fiskihagfræði, fiskifræði, stjórnmála og heimspeki eru oftast sammála um að sjávarútvegurinn, auðlindastýring og uppbygging fyrirtækjareksturs í kringum hann hafi mótast á löngu tímabili. Það fiskveiðistjórnunarkerfi sem hefur haft mest fylgi meðal hagfræðinga undanfarna áratugi er kerfi framseljanlegra kvótahlutdeilda eins og dr. Lúðvík Elíasson hagfræðingur hefur bent á. Sú leið býr til eignarrétt þar sem kvótahlutdeild er heimild til ráðstöfunar á tiltekinni prósentu af heildaraflaheimild tímabilsins í tiltekinni tegund. Handhafi hverrar kvótahlutdeildar hefur ráðstöfunarrétt yfir henni. Hann hefur heimild til að veiða sem kvótahlutdeildinni nemur eða hann getur selt hana eða leigt. Framsalið hefur reynst vera lykilforsenda sem tryggir að veiðarnar verði hagkvæmar.

Fræðimenn sem vert er að líta til

Ráðstefnan vegna útkomu bókar Ragnars sýnir hve sterkum fótum fræðilega við Íslendingar stöndum í þessum efnum og tilefni til að rifja upp þann hóp sem oft er vitnað til hér í pistlum og fjallar oftast af mikilli þekkingu um sjávarútveg okkar Íslendinga. Auk þeirra Ragnars, Birgis og Rögnvalds má nefna: Dr. Þráin Eggertsson, dr. Ágúst Einarsson, dr. Ástu Dís Óladóttur, dr. Daða Má Kristófersson, dr. Arnar Bjarnason og dr. Þór Sigfússon.

Marga fleiri má nefna til og skulu nokkur nöfn nefnd: Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson (sem mikið hefur fjallað um heimspekina að baki eignarrétti), dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Svanur Guðmundsson sjávarútvegsfræðingur, Hreiðar Valtýsson aðstoðarprófessor, Hörður Sævaldsson lektor (sérsvið hans er stjórnkerfi fiskveiða og markaðir sjávarafurða), dr. Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur, (sem mikið hefur fjallað um eignarhald), dr. Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild HÍ, (sem stýrði stórri og merkri úttekt um sjávarútveginn fyrir stjórnarráðið fyrir nokkrum árum), Sigurjón Arason prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, dr. Axel Hall, dr. Tryggvi Þór Herbertsson, dr. Hörður G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri hjá Matís, dr. Gunnar Haraldsson hagfræðingur og áðurnefndur dr. Lúðvík Elíasson. Allt eru þetta virtir fræðimenn og margir sérfræðingar um sjávarútveg eða fræði honum tengd.ferskfisk

Þá er ógetið Hrefnu Karlsdóttur sem er með doktorsgráðu í hagsögu frá Gautaborgarháskóla. Þar rannsakaði hún fyrstu samningaviðræðurnar sem gerðar voru á vettvangi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Hrefna hefur bent á að trygg fiskveiðiréttindi og sá fyrirsjáanleiki sem felst í þeim sé algjör forsenda fyrir því að hægt sé að skipuleggja starfsemi innan sjávarútvegsins. Þannig hafa fjárfestingar sem hafa orðið í betri skipum og bættri vinnslutækni leitt til aukinnar verðmætasköpunar og samkeppnishæfni á mörkuðum. Það er fjárfest í gæðum og hagkvæmni, ekki auknum afla hefur Hrefna bent á en fjallað var um rannsóknir hennar hér í pistli.

Sjávarútvegsfyrirtæki í fremstu röð háþróaðra nýsköpunarfyrirtækja

Í Morgunblaðinu í dag mátti lesa athyglisverða grein eftir dr. Ágústu Guðmundsdóttur, frumkvöðull og fyrrum prófessor við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og rannsóknarstjóra líftæknifyrirtækisins Zymetech. Ágústa bendir á í grein sinni að í dag séu mörg sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi í fremstu röð háþróaðra nýsköpunarfyrirtækja. Hún bendir á að með uppgangi sjávarútvegsins í Reykjavík á öndverðri 20. öld urðu til fjölmörg nýsköpunarfyrirtæki þess tíma. Þessi fyrirtæki þróuðu lausnir fyrir sjávarútveginn og önnuðust hverskonar þjónustu við þau, sem nauðsyn krafði.

Það er áhugaverð sagnfræði sem Ágústa býður uppá en hún nefnir Slippfélagið skipasmíðastöð (1902), Blikksmiðju JBP (1908), vélsmiðjurnar Héðin (1922), Hamar og síðar Stálsmiðjuna (1933), sameignarfélag Héðins og Hamars. Ekki má gleyma Marel og Skaganum 3X sem urðu til síðar. Lýsi ehf., sem vinnur lýsi úr þorsklifur, var stofnað árið 1936. Hún segir að Lýsi hf. sé fyrsta líftæknifyrirtækið á Íslandi.makr

Ágústa bendir á að mörg nýsköpunarfyrirtækja dagsins í dag, sem tengjast sjávarútvegi, urðu til í lok síðasta áratugar eða í upphafi 21. aldarinnar. Hér má nefna líftæknifyrirtækið Zymetech, nú Enzymatica, sem stofnað var árið 1999. Fyrirtækið vinnur verðmæt ensím úr þorskslógi til notkunar í lækningavörur og lyf gegn öndunarfærasýkingum. Zymetech og sænska líftæknifyrirtækið Enzymatica voru sameinuð árið 2016 en Enzymatica er skráð á Nasdaq-markaðinn í Stokkhólmi. Við þekkjum við sögu líftæknifyrirtækisins Kerecis sem nýtir tækni byggða á þorskroði til græðslu þrálátra sára en það var stofnað á Ísafirði árið 2007.

„Það er ekki nokkur spurning að íslenskur sjávarútvegur hefur verið megináhrifavaldurinn í mínu nýsköpunarstarfi við sköpun og þróun verðmætra lækningavara úr því sem fellur til við fiskvinnslu. Stöndum vörð um sjávarútveginn. Höldum áfram að efla nýsköpun og styðjum við uppbyggingu öflugs atvinnulífs. Þannig aukum við verðmætasköpun sem stuðlar að aukinni hagsæld og enn meiri lífsgæðum,“ skrifar Ágústa að lokum. Það væri áhugavert ef þessi boðskapur kæmist í gegn í þjóðmálaumræðunni en fræðaheimurinn virðist sjá hlutina öðruvísi en hin pólitíska umræða.