c

Pistlar:

17. nóvember 2024 kl. 14:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Pólitísk saga í aðdraganda kosninga

Fyrir mörgum vefst að greina íslensk stjórnmál nú í aðdraganda alþingiskosninga. Eftir bankahrunið hefur það gerst að fjórflokkurinn gamli hefur misst stöðu sína og nú eru 10 til 12 framboð fyrir hverjar kosningar. Það leiðir af sjálfu sér að mörkin á milli flokkanna verða óskýrari eftir því sem þeim fjölgar og stundum virðast stjórnmálafræðingar nútímans standa heldur skýringarlitlir gagnvart þessum breytingum, rétt eins og það hefur algerlega farið framhjá þeim hvað stuðlar að framgangi Donalds Trumps í bandarískum stjórnmálum.aabækur

Þessari upplausn hér á Íslandi fylgir flokkaflakk og það að frægðarmenni séu tekin fram fyrir flokkshesta. Þetta er nánast eins og þegar hippakynslóðin vildi storka hinu borgaralega hjónabandi. Einstaklingsfrelsi er tekið fram yfir pólitíska trúfestu. Í eina tíð vissu þeir sem fóru á flokkaflakk að þó að tekið yrði við þeim aftur þá yrði erfitt um framgöngu í gamla flokknum. Mikilvægt þótti að tryggja að slík „svik“ yrðu aldrei verðlaunuð. Nú horfir fólk líklega meira á flokka sem verkfæri til að koma tilteknum verkefnum eða hugmyndum í framkvæmd, miklu frekar en að sverja hollustu sína við hálfrar aldar hugmyndafræði eða byggingar þar sem málverk af formönnum fortíðarinnar eru helsta veggjaskrautið.aarautt ljós

Kenningaheimur flokkaflakkarans

Einn af flokkaflökkurum fortíðarinnar var Ólafur Ragnar Grímsson sem færðist frá Framsóknarmönnum yfir í Alþýðubandalagið sem var fyrir vikið rækilega klofið í fylkingar sem tókust á fyrir opnum tjöldum og skipti litlu að flokkurinn væri tæpast nógu stór til að bera slíkt. Pistlaskrifari man vel hvað það var erfitt fyrir ungan stjórnmálaskýranda að fylgjast með flokksþingum Alþýðubandalagsins í gömlu Rúgbrauðsgerðinni. Frammi í sal héldu menn tilfinningaríkar hugsjónaræður á meðan hnífasettin voru brýnd í bakherbergjum. Sumir töldu sig vera hluta af lýðræðiskynslóð sem væri að gera upp við hálfstalínískt flokkseigendafélag. Ekki verður annað séð en að sumir úr því félagi sé enn að gera sig gildandi í íslenskum stjórnmálum. Á þeim tíma göntuðust menn með að Ólafur Ragnar hefði verið kosinn formaður Alþýðubandalagsins fyrir slysni enda væri hann ekki hreinræktaður kommi! Það féll hins vegar í hlut Ólafs Ragnars að móta stjórnmálafræðikenningar sem hann kynnti fyrir þjóðinni fyrir núna um hálfri öld.

Greining Ólafs Ragnars snerist um tvo ása, afstöðuna til einkaframtaks og ríkisrekstrar í atvinnulífinu og síðan afstöðuna til varnarsamningsins og Nató-aðildar í utanríkismálum. Með slíka heimsmynd gekk fólki ágætlega að skilja fjórflokkinn sem virtist furðu þaulsetinn þó að vissulega kæmu tímabundnar tilraunir til að brjóta hann upp og storka honum, hvort sem þær tilraunir báru nöfn Frjálslyndra og vinstri manna, Borgaraflokksins, Bandalags jafnaðarmanna eða Frjálslynda flokksins. Þessar hreyfingar lifðu sjaldan meira en einar kosningar.aaallab

Flokkssagan í skjalasöfnum Stasi?

Á þessum tíma áttu hin borgaralegu öfl heimili sitt í Sjálfstæðisflokknum, hugsjón samvinnuhreyfingarinnar var varðveitt í bændaflokki sem stýrðist af pólitískri hentistefnu og nýtti stöðu sína á miðju stjórnmálanna til að semja til hægri og vinstri og hafa þannig áhrif langt umfram atkvæðamagn. Vinstri menn dreymdi ávallt um að sameinast en var ekki annað en skapað að skilja og Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn voru að sumu leyti jafn langt frá hvor frá öðrum og hugsast gat. Skipti engu þó að Alþýðubandalagið reyndi að þurrka út kommúníska fortíð í kjölfar þess að Berlínarmúrinn féll og Sovétríkin liðuðust í sundur. Á þeim tíma voru þeir saman í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og forsætisráðherrann sendi menn af stað til að kanna hvað skjalasöfn Stasi, leyniþjónustu hins fallna ríkis, hefðu að geyma um samherja hans. Það var áður en njósnir urðu viðurkennt fyrirkomulag í íslenskum stjórnmálum.

Alþýðuflokkurinn var alltaf að reyna að vera nútímalegur og alþjóðasinnaður, svona rétt eins og Viðreisn í dag. Lausnirnar áttu að koma að utan um leið og ostaúrvalið átti að aukast. Á sama tíma var Alþýðubandalagið þjóðlegastur allra flokka eins og sást af baráttunni gegn amerískum menningaráhrifum. Á þeim tíma voru erlend áhrif af hinu vonda, nánast algerlega á gagnstæðum meiði við þá stefnu sem þeir reka í dag þar sem orðið „inngilding“ leikur lykilhlutverk þó að það sé alveg hægt að skilja það sem svo að það eigi að skipta um menningu í landinu. Orðið „aðlögun“ er einfaldlega of hægfara fyrir alþjóðahyggju fjölmenningarsinnanna.

Þjóðin og vinstri valdamenn

Saga vinstri manna samanstendur af langvinnum tilraunum til að sameinast, lengi vel þá Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið og þeir Ólafur Ragnar og Jón Baldvin ferðuðust um landið undir slagorðinu Rautt ljós og sögðu pólitískar gamansögur af andstæðingum sínum. Þeir voru pólitísk ólíkindatól, sjálfsumglaðir og hrokafullir og töldu að sumu leyti sér alla vegi færa.aaorg

Samfylkingin átti að verða síðasta stóra tilraunin til sameiningar þessara flokka og þá með Kvennalistann innanborðs sem þó hafði lengst af sagst hafna hugmyndafræði til hægri og vinstri. Listinn var gleyptur og það eina sem hann hafði að státa af var framganga Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. En þegar vinstri menn héldu að þeir væru að fara að fá stóra jafnaðarmannaflokkinn sinn og yrðu loksins menn með mönnum á Norðurlöndunum spratt allt í einu fram Vinstrihreyfingin - grænt framboð undir pólitískri leiðsögn hins eilífa fjósamanns íslenskra stjórnmála, Steingríms J. Sigfússonar.

Í nýrri bók sinni, Þjóðin og valdið, tekst Ólafi Ragnari að sýna inn í hinn pólitíska valdaheim í praxís. Erfitt er að sjá hvað Ólafur Ragnar ætlar sér með bók sinni en hún stækkar ekki þá sem eru til umræðu og alls ekki hann sjálfan. En við fáum sannarlega innsýn í stjórnmálalegan veruleika Ólafs Ragnars sem tekur pólitísk vélabrögð vinstri manna með sér á Bessastaði og er furðu upptekinn af þeirri pólitísku fortíð sem hér hefur verið vikið að.